Dagsektir

Reglugerð um beitingu dagsekta sem Jafnréttisstofa ákveður  

- sjá einnig í reglugerðasafni ríkisins 

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um beitingu Jafnréttisstofu á dagsektum gagnvart aðila sem fellur undir 1.-4. tl. 2. mgr. þessa ákvæðis sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Jafnréttisstofa getur lagt dagsektir á aðila sem brýtur gegn eftirfarandi ákvæðum laganna:

  1. 5. mgr. 4. gr., um skyldu til að láta Jafnréttisstofu í té upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg til að upplýsa um málsatvik innan hæfilegs frests, hafi hún rökstuddan grun um brot á lögunum og er að kanna hvort ástæða sé til að óska eftir því að kærunefnd jafnréttis­mála taki málið til meðferðar.
  2. 6. mgr. 4. gr., um skyldu til að verða við fyrirmælum Jafnréttisstofu um að grípa til viðun­andi úrbóta til samræmis við úrskurð kærunefndar jafnréttismála innan hæfilegs frests.
  3. 5. mgr. 18. gr., um skyldu til að verða við fyrirmælum Jafnréttisstofu um að gera viðunandi úrbætur innan hæfilegs frests hvað varðar skyldu til að setja sér jafnréttisáætlun eða sam­þætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína eða það sé mat Jafnréttisstofu að jafn­réttis­áætlun sé ekki viðunandi eða jafnréttissjónarmið hafi ekki verið samþætt í starfsmanna­stefnu með nægilega skýrum hætti, sbr. 4. mgr. 18. gr. Jafnframt ef aðili lætur hjá líða að afhenda Jafnréttisstofu afrit af jafnréttisáætlun, eða starfs­manna­stefnu sinni, ef jafn­réttis­­áætlun er ekki fyrir hendi, ásamt framkvæmdaáætlun þegar Jafnréttisstofa óskar eftir því eða ef aðili neitar að afhenda Jafnréttisstofu skýrslu um framgang mála, sbr. 3. mgr. 18. gr.
  4. 8. mgr. 19. gr., um skyldu til að verða við fyrirmælum Jafnréttisstofu um að gera viðunandi úrbætur innan hæfilegs frests hvað varðar skyldu til að öðlast vottun skv. 4. mgr. 19. gr. eða stað­festingu skv. 5. mgr. 19. gr., og endurnýjun þar á. Jafnframt hvað varðar skyldu til að veita samtökum aðila vinnumarkaðarins nauðsynlegar upplýsingar og gögn samkvæmt 2. málsl. 8. mgr. 19. gr.

2. gr.

Krafa gerð um úrbætur.

Ef í ljós kemur að aðili gerist brotlegur við þau ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem talin eru upp í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar þessarar, skal Jafnréttisstofa krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.

3. gr.

Úrbótum lokið.

Úrbótum telst lokið þegar Jafnréttisstofa hefur staðfest móttöku greinargerðar frá aðila og stofan metur ráðstafanir fullnægjandi sem gerðar hafa verið til að fylgja eftir kröfu Jafnréttisstofu skv. 2. gr. Nú eru úrbætur ekki fullnægjandi og telst þeim þá ekki lokið innan frests sem gefinn var skv. 2. gr.

4. gr.

Ákvörðun um dagsektir.

Jafnréttisstofu er heimilt að leggja dagsektir á aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða umbeðin gögn eða sinnir ekki fyrirmælum Jafnréttisstofu um að gera viðunandi úrbætur innan hæfi­legs frests, sbr. 2. mgr. 1. gr.

Jafnréttisstofa leggur dagsektir á aðila með sérstakri ákvörðun. Aðila sem ákvörðun um dag­sektir beinist að skal gefinn kostur á að koma að skriflegum andmælum innan hæfilegs frests áður en Jafnréttisstofa tekur ákvörðun skv. 1. mgr. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynna bréflega á sannan­legan hátt þeim sem hún beinist að án ástæðulausra tafa.

5. gr.

Fjárhæð dagsekta.

Dagsektir geta numið allt að kr. 50.000 á dag frá þeim degi sem þær eru ákvarðaðar og fram að þeim degi sem skyldunni er fullnægt að mati Jafnréttisstofu. Við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skal meðal annars líta til fjölda starfsmanna fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka og hversu umsvifa­mikill viðkomandi rekstur er.

6. gr.

Kæruheimild.

Nú vill aðili ekki una ákvörðun Jafnréttisstofu um dagsektir og getur hann þá kært hana til þess ráðherra sem fer með jafnréttismál samkvæmt 10. mgr. 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ráðuneytið skal kveða upp úrskurð eins fljótt og unnt er frá því að kæra barst til úrskurðar. Kæra til ráðherra frestar ekki réttaráhrifum ákvörð­unar skv. 2. mgr. 4. gr., sbr. þó 2. mgr. 7. gr. reglugerðar þessarar.

7. gr.

Fullnusta dagsekta.

Dagsektir eru aðfararhæfar og renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

Kæra til ráðherra eða málshöfðun fyrir almennum dómstólum frestar aðför.

8. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 33. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Forsætisráðuneytinu, 8. október 2019.

Katrín Jakobsdóttir.

Ragnhildur Arnljótsdóttir.