18,7% útilistaverka í Reykjavík eru eftir konur en 78,9% eftir karla

Í dag, 8. mars, er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Í tilefni dagsins hafa mannréttindaskrifstofa og mannréttindaráð Reykjavíkurborgar gefið út bækling sem nefnist „Kynlegar tölur“ og hefur hann að geyma tölfræðilegar upplýsingar þar sem varpað er ljósi á ólíka stöðu karla og kvenna eins og hún birtist á ýmsan hátt í borginni. 



Margt athyglisvert er að finna í bæklingnum. Til dæmis kemur fram að 18,7% útilistaverka í Reykjavík eru eftir konur en eru 78,9% þeirra eftir karla. Óþekktir höfundar eru 2,4%. Einungis 2% þeirra sýna nafngreindar konur en 18,7% þeirra nafngreinda karlmenn. Kynjahlutföll aðalmanna í nefndum og ráðum borgarinnar eru mjög jöfn, 48% þeirra eru konur og 52% karlar. Handhafar Menningarkortsins, sem veitir aðgang að söfnum Reykjavíkurborgar, eru 71% konur og 29% karlar. Tilnefninguna íþróttamaður ársins hafa konur hlotið í 7% tilvika en karlar í 93% tilvika. Í þeim hópi sem hefur rétt til að kjósa biskup eru 40,2% konur en 59,8% karlar.
  
Hlutfall atvinnulausra í Reykjavík er mun hærra í hópi erlendra ríkisborgara en í hópi íslenskra ríkisborgara. Í janúar 2011 voru 16,9% erlendra ríkisborgara sem eru karlar án vinnu en 8% íslenskra ríkisborgara sem eru karlar. Á sama tíma voru 11,5% kvenna sem eru erlendir ríkisborgarar án vinnu en 5,4% kvenna sem eru íslenskir ríkisborgarar. Á meðan hlutfall atvinnulausra lækkar á milli ára í hópi erlendra ríkisborgara sem eru karlar og í hópi bæði kvenna og karla sem eru íslenskir ríkisborgarar, þá hækkar það um 1% í hópi kvenna sem eru erlendir ríkisborgarar.

Hlutfallsleg skipting milli erlendra og íslenskra kvenna sem komu í Kvennaathvarfið 2010 er með þeim hætti að hlutfall erlendra kvenna eykst. Hlutfall íslenskra og erlendra karla sem beittu konur ofbeldi skiptist þannig að 73% þeirra eru íslenskir ofbeldismenn en 27% þeirra erlendir ofbeldismenn.

Athygli vekur að hærra hlutfall kvenna en karla er örorkulífeyrisþegar á landinu öllu eða 9% af konum í landinu en 5% karla. Í Reykjavík eru þetta 8% kvenna og 6% karla.

Kynlegar tölur í Reykjavík má nálgast hér


Þessi umfjöllun birtist á vef Reykjavíkurborgar 7.3.2012