Af landsfundi jafnréttisnefnda

Dagana 4. og 5. júní var haldinn landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga í Fjarðabyggð.



Mánudaginn 4. júní síðastliðinn var landsfundur jafnréttisnefnda settur af Helgu Jónsdóttur bæjarstjóra Fjarðabyggðar. Bauð hún öllum velkomna og kynnti hún hvað væri helst á döfinni í Fjarðabyggð. Lýsti hún meðal annars þeim breytingum sem eru að verða í þessu sveitarfélagi í tengslum við þá uppbyggingu sem á sér stað vegna byggingu Álvers Alcoa í Reyðarfirði.



Beint á eftir Helgu kom Kjartan Ólafsson félagsfræðingur og fjallaði um þau samfélagslegu áhrif sem álvers- og virkjunarframkvæmdir á þessu svæði hafa í för með sér. Skoðaði hann þetta sérstaklega út frá kynjasjónarmiðum. Kom margt athyglisvert fram í erindi hans og benti hann á að skiptar skoðanir væru um hvort að þessar framkvæmdir væru jákvæðar eða neikvæðar fyrir samfélagið á þessu svæði. Hins vegar sagði hann að aðlögunarhæfni samfélaga væri alltaf mikil og sagði að svona breytingar leiddu yfirleitt af sér nýja tegund af venjulegu lífi. Í kjölfarið hófust miklar og líflegar umræður.

Eftir umræðurnar voru Guðný Björg Hauksdóttir frá Alcoa Fjarðaráli og Björk Guðbrandsdóttir frá Alcan á Íslandi með sitt hvort erindið. Lýstu þær báðar hvernig fyrirtæki þeirra hafa tekið á jafnréttismálum og komu inn á mikilvægi þess að unnið sé í þeim málum. Guðný Björg greindi frá því hvernig Alcoa hefur unnið að því markmiði að hafa kynjahlutfallið jafnt í verksmiðjunni og útskýrði af hverju það væri mikilvægt. Björk lýsti því hversu mikið hefði breyst í jafnréttismálum hjá Alcan síðustu tíu árin, eftir að kona tók við sem forstjóri.



Eftir stutt kaffihlé var tekið fyrir þemað Konur og stjórnmál. Drífa Snædal framkvæmdastjóri VG, fjallaði um leið kvenna inn í stjórnmál. Hún benti á að allir væru sammála um mikilvægi jafnréttis á öllum sviðum samfélagsins og velti því jafnframt fyrir sér af hverju staðan væri ekki betri. Hún tók fram að hlutirnir gerðust ekki af sjálfu sér. Í ljósi þess að það er ekki til nein ein skýring á slakri stöðu kvenna í stjórnmálum þarf að fara fram róttæk innri skoðun hjá öllum, sagði Drífa. Þar á meðal nefndi hún að mikilvægt væri að skoða fyrirkomulag í prófkjörum stjórnmálaflokkana. Hugrún R. Hjaltadóttir hjá Jafnréttisstofu fór yfir stöðu kvenna eftir kosningarnar 2006 og 2007. Bar hún saman niðurstöður í sveitastjórna- og alþingiskosningum í gegnum tíðina og benti hún á að mikilvægt væri að finna leiðir til þess að tryggja það að þær konur sem væru greinilega tilbúnar að taka þátt í stjórnmálastarfi hefðu samskonar aðgang og karlmenn hefðu að efstu sætum á framboðslistum flokkana.

Eftir líflegar umræður var hlé sett á fundarhald og farið var með fundargesti í siglingu um Norðfjörð. Var boðið upp á veitingar á meðan að siglt var um þetta gullfallega svæði í yndislegu veðri.


Hugrún, Una María og Þórhildur brosandi í góða veðrinu.


Smá sýnishorn af því útsýni sem fundargestir fengu að njóta.

Eftir bátsferðina bauð Fjarðabyggð upp á máltíð á Hótel Capitano, þar sem boðið var upp á ljúffengar tælenskar kræsingar.


Halldóra og Bryndís glaðar eftir góða máltíð.

Á öðrum degi landsfundarins var mikil og þétt dagskrá sem hófst með dagskrá frá Jafnréttisstofu. Margrét María Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, kynnti frumvarp til nýrra jafnréttislaga sem verður tekið fyrir á nýju þingi í haust. Ingi Valur Jóhannsson deildarstjóri í félagsmálaráðuneyti var með yfirlit yfir ýmis erlend og innlend samstarfsverkefni í jafnréttismálum. Einnig kynntu Hugrún R. Hjaltadóttir og Hjálmar G. Sigmarsson verkefni sem Jafnréttisstofa er að vinna í. Í lokin hélt Ingólfur V. Gíslason erindi um upplausn karlmennskunnar. Í erindi sínu kom Ingólfur inn á mjög margt sem getur varpað ljósi á þær breytingar sem hafa átt sér stað á ímynd íslenskra karlmanna. Þar á meðal nefndi hann vinnumarkaðsvæðingu mæðra, samfélagsvæðingu barnauppeldis og fjölskylduvæðingu feðra. Eftir erindi Ingólfs hófust miklar og skemmtilegar umræður.


Fundargestir að spyrja Ingólf nánar útí upplausn karlmennskunnar.

Eftir stutt kaffihlé kynntu fulltrúar sveitafélaga það starf sem er í gangi hjá sínum sveitarfélögum í jafnréttismálum. Fulltrúar frá eftirfarandi sveitarfélögum voru með stuttar kynningar: Reykjavíkurborg, Ísafjarðarbæ, Mosfellsbæ, Reykjanesjabæ, Hafnarfjarðarbæ, Akureyrarbæ, Seltjarnarnesjabæ, Fljótsdalshéraði og Fjarðabyggð. Einnig var Svandís Ingimundardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga með erindi. Kom margt spennandi fram í þessum kynningum og meðal annars var bent á mikilvægi þess að sveitarfélög væru dugleg að miðla af reynslu sinni og opin fyrir því að læra af öðrum.

Þegar fundargestir voru búnir að taka smá hádegishlé fóru fram kynningar á einstökum verkefnum sem hafa verið í gangi í nokkrum sveitafélögum. Amal Tamimi, formaður lýðræðis- og jafnréttisnefndar Hafnarfjarðar, kynnti nýbúaútvarpið í Hafnarfirði, Kristín Ólafsdóttir, jafnréttisráðgjafi Kópavogsbæjar, kynnti jafnréttisviku í MK og Katrín Björg Ríkharðsdóttir fjallaði um afnám sérkjara hjá Akureyrarbæ.

Þegar hingað var komið var farið í umræður og í það að semja alyktanir landsfundar. Eftir það var fundi slitið. Hægt er að sjá dagskrána nánar og skoða glærur fyrirlesara
hér.



Fjarðabyggð,
takk fyrir okkur!