Afmælisráðstefna Jafnréttisstofu

Þann 15. september nk. fagnar Jafnréttisstofa 25 ára afmæli sínu. Af því tilefni verður haldin afmælisráðstefna í Hofi á Akureyri. 

Meginþema ráðstefnunnar er kynbundið ofbeldi, með áherslu á stafrænt kynbundið ofbeldi. Lögð er áhersla á að fram komi fjölbreytt sjónarmið með þátttöku frá opinberum aðilum, fræðasamfélaginu, félagasamtökum og einstaklingum með innsýn í upplifun þolenda stafræns kynbundis ofbeldis og þeirra reynslu. Sérstaklega verður horft til þess að fá innsýn í stöðu mála varðandi kynbundið stafrænt ofbeldi innan réttarkerfisins og upplifanir og reynsluheim ungs fólks, aktívista og jaðarsettra hópa sem eru sérstaklega viðkvæmir og útsettir fyrir stafrænu ofbeldi.

Þátttakendur í ráðstefnunni eru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra, dr. Rannveig Sigurvinsdóttir dósent við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík, Drífa Snædal talskona Stígamóta, París Anna Bergmann menntaskólanemi og aktivisti og Jón Ingvi Ingimundarson verkefnastjóri hjá Jafnréttisstofu. Hjalti Ómar Ágústsson sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu stýrir pallborðsumræðum.

Dagskrá og skráning hér.