Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Í dag, 8. mars, er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og víðs vegar um heim er þess minnst hvert mannkynið er komið í kynjajafnréttismálum og einkum kvennréttindum. Deginum hefur verið haldið á lofti víðs vegar um heim frá árinu 1909 en upphafið að honum áttu amerískar konur á 19. öld þegar þeim var meinað aðgengi að ræðustól. Hér á landi var dagsins fyrst minnst árið 1932. Dagurinn er talinn einn sá mikilvægasti til þess að fagna félagslegum, efnahagslegum og menningarlegum réttindum kvenna, auka vitund um hlutverk kvenna og ekki síst til að knýja á um þörfina fyrir frekari baráttu fyrir jafnrétti kynjanna.

Þrátt fyrir að víðast hvar í vestrænum heimi sé lagalegum réttindum náð þá er því víða ábótavant og mismunun á grundvelli kyns tíðkast enn. Mismununin birtist meðal annars í kynbundnu ofbeldi innan og utan heimila, kynbundnum launamun og skort á réttindum til menntunar og aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Antónío Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að árangurinn í jafnréttismálum fari jafnharðan úr augsýn og ljóst er að hvert bakslagið rekur annað. Hann segir í ávarpi í tilefni dagsins að síðustu spár bendi til þess að miðað við núverandi þróun taki það þrjú hundruð ár að ná fullu jafnrétti kynjanna. Konur eru misnotaðar, þeim er hótað og réttindi þeirra eru fótum troðin víðast hvar, segir Guterres og kallar eftir sameiginlegu átaki allra þjóða til þess að sporna við þróuninni.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í gær opnunarávarp á viðburði Evrópuráðsins þar sem fjallað var um réttindi kvenna og stúlkna á flótta í heiminum. Viðburðurinn fór fram í New York í tengslum við 67. fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna. Forsætisráðherra fjallaði m.a. um margþætt misrétti sem blasir við konum og stúlkum á flótta, viðkvæma stöðu þeirra og nauðsyn þess að finna leiðir til að vernda réttindi þeirra.

Ísland hefur lengi verið í efsta sæti lista Alþjóða efnahagsráðsins um jafnrétti kynjanna en því miður sker Ísland sig ekki frá öðrum löndum, fullu jafnrétti er ekki náð.

  • Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynjaskiptur og meirihluti þeirra sem starfa á opinberum markaði eru konur. Þar eru laun að jafnaði lægri en á einkamarkaði
  • Enn mælist kynbundinn launamunur þrátt fyrir að menntunarstig kvenna er hærra en karla
  • Konur eru enn í minnihluta stjórnenda og stjórnarmanna í stórfyrirtækjum
  • Konur eru í meirihluta þolenda í heimilisofbeldismálum og kynferðisbrotum
  • Konur lifa að meðaltali færri góð æviár heilsufarslega en karlar
  • Þriðjungur kvenna á vinnumarkaði hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í núverandi starfi
  • Konur bera enn meiri byrðar vegna samræmingar fjölskyldu- og atvinnulífs

Enn er baráttu og aðgerða þörf!

Til hamingju með daginn!