Árið 2019 voru 97% nefnda, ráða og stjórna á vegum ráðuneytanna skipaðar í samræmi við verklag 15. gr. jafnréttislaga

Komin er út skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna fyrir starfsárin 2018-2019. Í skýrslunni er að finna greiningu á skiptingu kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum á starfsárunum auk þess sem farið er yfir þróun síðustu ára. Árið 2008 var leiddur í lög kynjakvóti í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og hefur Jafnréttisstofa eftirlit með framkvæmd hans. 

Árið 2018 störfuðu 3692 manns í nefndum á vegum ráðuneytanna, 1771 kona og 1921 karl, eða 48%/52%. Á sama tímabili voru 1150 manns skipaðir í nýjar nefndir, 589 konur og 561 karl, eða 51%/49%. Þetta er í fyrsta skiptið sem fleiri konur en karlar eru skipaðar í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna.  

Árið 2019 störfuðu 3904 manns í nefndum á vegum ráðuneytanna, 1979 konur og 1925 karlar, eða 51%/49%. Þetta er jafnasta hlutfall milli kynjanna hingað til og einnig í fyrsta skipti sem fleiri konur en karlar sitja í nefndum. Árið 2019 voru 1517 manns skipaðir í nýjar nefndir, 776 konur og 741 karl, eða 51%/49% sem er sama hlutfall og árið 2018.  

Samkvæmt 15. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 á hlutfall kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum að vera sem jafnast og ekki minna en 40% þegar fulltrúar eru fleiri en þrír. Tilnefningaraðili á að tilnefna karl og konu, en heimilt er að víkja frá því þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu.  

Árið 2018 störfuðu 633 nefndir á vegum ráðuneytanna, 445 af þeim voru skipaðar í samræmi við 15. grein jafnréttislaga eða 70% starfandi nefnda. Af þessum 633 nefndum voru 179 nefndir skipaðar á starfsárinu 2018, 142 af þeim eða 79%, voru skipaðar í samræmi við 15. greinina.  

Árið 2019 starfaði 741 nefnd á vegum ráðuneytanna, 515 af þeim voru skipaðar í samræmi við 15. grein jafnréttislaga eða 70% starfandi nefnda, eins og árið áður. Af þessari 741 nefnd voru 253 nefndir skipaðar á starfsárinu 2019, 186 af þeim eða 74% voru skipaðar í samræmi við 15. greinina.  

Jafnréttisstofa veitti því athygli að mikill munur var milli ára á fjölda nefnda sem ekki voru skipaðar í samræmi við umrædda 1. mgr. 15. gr. Árið 2018 voru það 37 nefndir en 67 nefndir árið 2019. Þessa þróun ber að taka alvarlega og kannaði Jafnréttisstofa því þær ástæður sem liggja þar að baki með markvissari hætti en áður. Í 2. mgr. 15. gr. jafnréttislaga er undanþáguheimild. Þar segir að „…tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá skilyrði 1. málsl. þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess. Skipunaraðila er heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. ef undanþáguheimild 2. mgr. á við.“ Jafnréttisstofa telur að meginreglan sé skýr og að undanþáguheimildina beri að skýra þröngt. Nú hefur verið farið í gegnum þær ástæður sem tilnefningar- og skipunaraðilar þessara 67 nefnda, ráða og stjórna nefna og hvort farið sé eftir því verklagi sem löggjöfin setur sem meginreglu. Jafnréttisstofa fellst á skýringar ráðuneytanna í 59 tilfellum en telur að ekki sé tilefni til að nýta undanþáguheimildina hvað varðar skipun í 8 nefndir. Í þeim tilfellum liggja ekki fyrir nægilega skýr gögn um að farið hafi verið eftir verklagi við skipun í nefndir og ekki hafi verið óskað eftir hlutlægum ástæðum tilnefningaraðila. Það eru því 97% nefnda á vegum ráðuneytanna skipaðar í samræmi við ákvæði 15. gr. jafnréttislaga.