Bætt hagstjórn – Betra samfélag

Jafnréttisstofa býður til ráðstefnu um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð miðvikudaginn 4. maí kl. 13:00 á Radisson Blu Hótel Sögu. Ráðstefnan ber yfirskriftina Bætt hagstjórn – Betra samfélag. Aðal fyrirlesarar ráðstefnunnar verða Dr. Diane Elson og Dr. Susan Himmelweit sem eru helstu sérfræðingar Breta í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð og hafa meðal annars starfað með hópi sérfræðinga sem hafa það að markmiði að stuðla að auknu jafnrétti kynja með því að leggja mat á efnahagsstefnur og áætlanagerð. Á ráðstefnunni verða auk þess kynnt tvö íslensk tilraunaverkefni í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð. Dagskrá ráðstefnunnar má finna hér.

Dr. Diane Elson er prófessor í félagsfræði við Háskólann í Essex og hefur starfað með UK Women‘s Budget Group í yfir 10 ár og er nú formaður félagsins. Hún hefur starfað fyrir Sameinuðu þjóðirnar bæði í höfuðstöðvum þeirra í New York og sem ráðgjafi víða um heim. Hún hefur verið iðin við skriftir og rannsóknir og samið leiðbeiningar um framkvæmd kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar.

Dr. Susan Himmelweit er prófessor í hagfræði við The Open University og hefur einnig starfað með UK Women‘s Budget Group. Rannsóknarsvið Himmelweit er hagfræði heimilishalds, umönnunarhagkerfið og áhrif ólíkra efnahagsstefna á stöðu kynjanna. Hún hefur einnig skoðað skattakerfið sérstaklega.

Erindi Dr. Elson og Dr. Himmelweit fara fram á ensku en önnur dagskrá er á íslensku.

Í kjölfar ráðstefnunnar býður Jafnréttisstofa upp á námskeið í kynjaðri hagstjórn þar sem Dr. Elson og Dr. Himmelweit leiðbeina byrjendum og lengra komnum þátttakendum og er áhugasömum bent á að hafa samband við Jafnréttisstofu: bergljot@jafnretti.is 

Ráðstefnan og námskeiðið er hluti af verkefninu Samstíga en Jafnréttisstofa hlaut styrk til að standa straum af verkefninu úr PROGRESS-sjóði ESB (sjá: www.samstiga.is). Markmið þess er að auka þekkingu á samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í opinberri stjórnsýslu auk þess að stuðla að því að hún verði nýtt í opinberri stefnumótun og ákvarðanatöku í samræmi við 17. grein jafnréttislaga nr. 10/2008.