Félagsvísinda- og jafnréttistorg HA - Rannsókn á íslenska lífeyriskerfinu

Steinunn Rögnvaldsdóttir, MA í kynjafræði, mun kynna rannsókn sína á íslenska lífeyriskerfinu, á morgun miðvikudaginn 7. nóvember í stofu M102. Torgið hefst klukkan tólf og stendur til eitt.


Rannsóknir á lífeyriskerfinu frá kynjafræðilegu sjónarhorni varpa ljósi á hvernig staða kvenna á ellilífeyri ber mark áratuga kynjamismununar í íslensku samfélagi. Ólaunuð heimilisstörf kvenna, kynbundinn launamunur og kynskiptur vinnumarkaður ásamt fleiri þáttum hafa myndað gjá milli lífeyrisgreiðslna karla og kvenna.Í erindinu ræðir Steinunn nánar hver kynjamunurinn er á ellilífeyrisgreiðslum, orsakir og afleiðingar, hvernig kvenvænt lífeyriskerfi lítur út, femínískar kenningar og álitamál um leiðir að efnahagslegu jafnrétti kynjanna, og hvernig hægt væri að jafna stöðu karla og kvenna á ellilífeyri.

Steinunn Rögnvaldsdóttir lauk  BA-gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og MA-gráðu í  kynjafræði vorið 2012 frá sama skóla, með viðkomu í Háskólanum í Ósló. Mastersritgerð Steinunnar fjallaði um ellilífeyrismál frá  kynjasjónarmiði og bar heitið "A haunted society: Old age pensions in Iceland from a gender perspective".