Félagsvísindatorg HA í samstarfi við Jafnréttisstofu

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu flytur erindið „Ég veit enga ambátt um veraldar geim, sem ekki var borin með réttindum þeim ”, miðvikudaginn 25. mars.

Á þessu ári verða liðin 100 ár frá því að íslenskar konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt til Alþingis. Það gekk ekki þrautalaust. Baráttan fyrir kosningarétti hafði staðið í áratugi þegar Danakonungur undirritaði lögin með þessum takmörkuðu réttindum 19. júní 1915. Karlar fengu almennt kosningarétt 25 ára nema hvað fátækum vinnumönnum var bætt við 1915 með sömu skilyrðum og konunum.

Hvenær hófst réttindabarátta kvenna hér á landi, fyrir hverju var barist, hverjir studdu baráttuna og í hverju fólst andstaðan? Hvaða konur voru í fararbroddi og hvaða aðferðum var beitt í kvenréttindabaráttunni? Hefur Ísland sérstöðu þegar horft er á baráttu kvenna fyrir mannréttindum? Hvað gerðist svo eftir 1915?Kristín Ástgeirsdóttir er M A í sagnfræði. Hún hefur tekið þátt í kvennabaráttunni um áratugaskeið, sat á Alþingi fyrir Kvennalistann í 8 ár og er nú framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.

Félagsvísindatorgið verður í stofu M102 í Háskólanum á Akureyri og er öllum opið án endurgjalds.