Fjölguðu körlum í umönnunarstörfum umtalsvert

Hátt í hundrað manns sóttu hádegisfund á Akureyri í tilefni Kvennafrídagsins sem haldinn var hátíðlegur víða um land þann 24. október. Fundurinn sem bar yfirskriftina Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir var helgaður kynbundnu  náms- og starfsvali og kynskiptum vinnumarkaði sem er ein helsta orsök kynbundins launamunar.
Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu ávarpaði fundinn og lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi þess að breyta verðmætamatinu og vinna markvisst að því að brjóta upp þann kynskipta vinnumarkað sem einkennir samfélag okkar. „Við eigum að nýta mannauðinn betur með því að hvetja fólk til að nýta hæfileika sína. Við eigum að vinna að því að fólk njóti sín í lífi og starfi. Við eigum að sjá til þess að fordómar og rótgrónar hefðir hefti fólk ekki í að fara ótroðnar slóðir þegar kemur að námi og starfi, hvort sem það eru konur eða karlar sem í hlut eiga. Við þurfum fleiri konur og karla sem þora að fara nýjar leiðir og bjóða hefðbundnum staðalmyndum byrginn“. 

Baldvin B. Ringsted, kennslustjóri tæknisviðs VMA sagði frá því hvernig konum í Verkmenntaskólanum á Akureyri hefur fjölgað á undanförnum árum í karlagreinum eins og vélstjórn, húsasmíði og öðrum tæknigreinum.

Lena Rut Birgisdóttir námsráðgjafi í Menntaskólanum á Akureyri fjallaði í sínu erindi um mastersverkefni sitt þar sem hún skoðaði reynslu karla í kvennastörfum og hvað hafði áhrif á starfsval þeirra. Fram kom að karlarnir, sem rætt var við í rannsókninni, höfðu sumir óvart lent inn í hefðbundnum kvennastörfum og í framhaldinu mentað sig til starfa á þeim sviðum.

Halldór Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar sagði frá sérstöku átaki sem hafði að markmiði að fjölga körlum í starfsmannahópnum. Halldór og samstarfsfólk hans taldi ástæðu til þess að hvetja stráka sérstaklega til þess að sækja um störf sem konur sækja almennt meira um og var það gert með sérstökum auglýsingum síðastliðið vor. Árangurinn fór fram úr björtustu vonum og upplýsti Halldór að í kjölfarið hefði karlmönnum fjölgað umtalsvert hjá Öldrunarheimilunum. 

Berglind Judith Jónasdóttir, húsa- og húsgagnasmiður og Guðrún Björg Eyjólfsdóttir húsgangasmiður sögðu frá sinni reynslu. En þær fóru ótroðnar slóðir í náms- og starfsvali og hafa nú stofnað sitt eigið fyrirtæki í hefðbundinni karlagrein, smíðum.

Í lokin velti Katrín Björg Ríkarðsdóttir, framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar upp spurningunni: „Hvað er svona merkilegt við það að bor´í vegg“. Í mastersritgerð sinni kannaði Katrín reynslu kvenna af því að vera í námi og starfi sem taldist óhefðbundið fyrir þeirra kyn. Fram kom í máli Katrínar að kynjakerfið er ekki á undanhaldi og að bæði skólar og vinnustaðir þurfa að vera tilbúnir til að taka á móti fjölbreyttum hópi fólks, - bæði körlum og konum.

Jafnréttisstofa vill þakka góða mætingu á fundinn og hvetur fólk jafnframt til þess að ræða þær aðkallandi spurningar sem viðfangsefni kynskipts vinnumarkaðar kalla á.