Hvernig sköpum við atvinnulíf framtíðarinnar?

Jafnréttisstofa, Símey, Norrænt net um fullorðinsfræðslu, Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins og Háskólinn á Akureyri efna til málþings um atvinnulíf framtíðarinnar föstudaginn 21. nóvember. Sérstakur gestur verður Ingegerd Green frá Svíþjóð, sem er ráðgjafi í fyrirtækjarekstri með sérstöku tilliti til framtíðarþróunar og sköpunar. Ingegerd var aðalhöfundur norrænu skýrslunnar Framtidens kompetenser (2007) en að baki hennar stóð norrænn þankabanki um færni framtíðar skipaður sérfræðingum á ýmsum sviðum.
Auk Ingegerd Green mun Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu kynna skýrsluna frá íslenskum sjónarhóli, en hún tók þátt í vinnu þankabankans og stýrði honum fyrra árið sem hann starfaði. Síðan verða pallborðsumræður með þátttöku Örnu Jakobínu Björnsdóttur, Laufeyjar Petreu Magnúsdóttur, Ólafar Nordal, Steingríms Birgissonar, Steingríms J. Sigfússonar og Þorsteins Inga Sigfússonar. Málþingið verður á KEA frá kl. 13.30-16.00. Í lokin verður boðið upp á léttar veitingar. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir en málþingsgjald er 1500 kr. Skráning fer fram hjá Símey í síma 460-5720 og á www.simey.is.

Á undanförnum áratugum hafa orðið gífurlegar breytingar á vinnumarkaði, ekki síst vegna nýrrar upplýsingatækni sem og annarra tækniframfara og nýrra hugmynda. Ný störf urðu til sem engan hafði órað fyrir. Norskur fyrirlesari sem tengdist vinnu norræna þankabankans hélt því fram á námskeiði sem haldið var á Selfossi 2006, að vænta mætti þess að í 30 manna bekk 12 ára nemenda myndi þriðjungurinn vinna störf í framtíðinni sem ekki væru til nú. Hvernig búum við okkur undir slíka framtíð? Hvaða færni þarf að byggja upp bæði hjá ungu fólki og því sem eldra er í ljósi þess að sífellt algengara verður að fólk gegni mörgum og ólíkum störfum á ævinni? Hvernig á að búa okkur undir framtíð sem bæði ber með sér tækifæri en líka ógnanir eins og sívaxandi umhverfisvanda, að ekki sé talað um afleiðingar efnahagskreppu eins og þeirrar sem nú gengur yfir Ísland.

Norræna ráðherranefndin hefur beint sjónum að möguleikum Norðurlandanna í heimi alþjóðavæðingar, m.a. með gerð skýrslunnar Norden som global vinderregion. Í henni voru styrkleikar Norðurlandanna skilgreindir og áhersla lögð á samvinnu í stað samkeppni. Í skýrslunni kom fram að norræn samfélög framtíðarinnar eigi að byggja á þekkingarframleiðslu og sköpun, enda verði sífellt erfiðara að keppa við ódýrt vinnuafl Asíulandanna.


Hvaða stöðu ætla Íslendingar að taka sér í heimi sífelldra breytinga? Hvernig ætlum við að nýta auðlindir landsins í framtíðinni, mannauðinn, orkuna, fiskinn, landið og náttúruna sem og þann sköpunarkraft sem býr í þjóðinni? Nú er einmitt rétti tíminn til að horfa til framtíðar og marka okkur framtíðarstefnu. En hvert viljum við stefna og hvernig komumst við á áfangastað?

Dagskrá málþingsins má sjá hér og hægt er að skrá sig hér.