Jafnrétti í skólastarfi

Árleg vorráðstefna Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri (MSHA) verður haldin 1. apríl n.k. í samstarfi við Jafnréttisstofu.
Þema ráðstefnunnar er jafnrétti í skólastarfi.Samkvæmt gildandi menntastefnu er markmið jafnréttismenntunar að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Í skólastarfi skulu allir taka virkan þátt í að skapa samfélag sem byggir á þessum gildum. 












Jafnréttismenntun vísar í senn til inntaks kennslu, námsaðferða og námsumhverfis. Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær samkvæmt námskrá til eftirfarandi þátta; kyns, kynhneigðar, kynvitundar, menningar, litarháttar, ætternis, þjóðernis, tungumáls, trúarbragða, lífsskoðana, fötlunar, stéttar, búsetu og aldurs. 

Efni ráðstefnunnar er sniðið að leik-, grunn-, framhalds- og háskólum.  


Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar verða:

?Dr. Guðný Guðbjörnsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
?Dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
?Nemendur munu einnig stíga á stokk með fróðlegt innlegg um jafnrétti og skólastarf


Auk aðalfyrirlestra verða málstofur og smiðjur þar sem reifuð verða ýmis mál er lúta að jafnrétti í skólastarfi. Einnig verður boðið upp á samræðulotu þar sem ráðstefnugestum gefst tækifæri á að ræða efni ráðstefnunnar. Hvert erindi verður 30 mínútur og innan þess tíma er gert ráð fyrir umræðum/fyrirspurnum. Smiðjur verða 60 mínútur. Hér með auglýsum við eftir erindum og smiðjum á málstofur frá leik-, grunn-, framhalds- og háskólakennurum, náms- og kennsluráðgjöfum, skólastjórnendum og öðrum áhugasömum aðilum um efni ráðstefnunnar.

Einkum er leitað eftir:

?kynningu á árangursríkum þróunarverkefnum
?kynningu á nýlegum íslenskum og erlendum rannsóknum
?umfjöllun um árangursríkar aðferðir/leiðir í námi og kennslu
?umfjöllun um strauma og stefnur

Einnig er í boði að kynna efni og veggspjöld sem tengjast þema ráðstefnunnar.


Ef þú hefur áhuga á að flytja erindi, halda smiðju, kynna efni eða veggspjald þá er frestur til að senda inn lýsingu á erindi að hámarki 200 orð til 20. febrúar 2017.


Senda inn ágrip