Jafnréttisáætlanir skólanna eiga að tryggja framþróun í jafnréttismálum

Mikill meirihluti leik- og grunnskóla hefur sett sér jafnréttisáætlun í samræmi við skyldur skv. jafnréttislögum. Þegar Jafnréttisstofa kallaði hins vegar eftir upplýsingum um hvernig gengi að framfylgja áætlunum svar svarhlutfall dræmt. Þetta kemur fram í samantekt Bergljótar Þrastardóttur sérfræðings hjá Jafnréttisstofu.

 

Jafnréttisstofa kallaði á árunum 2013-2015 eftir jafnréttisáætlunum frá öllum skólastigum. Innköllun gekk ágætlega, skólar þurftu töluverða aðstoð þar sem þeir voru flestir að vinna slíkar áætlanir í fyrsta sinn. Haustið 2015 þegar innköllun lauk höfðu 96% grunnskóla skilað umbeðnum gögnum. Um 80% leikskóla skiluðu Jafnréttisstofu fullnægjandi jafnréttisáætlunum og/eða umbeðnum gögnum.

 

Skólaárið 2016-2017 kallaði Jafnréttisstofa eftir skýrslum um framgang mála. Tæplega helmingur grunnskóla í landinu svaraði eða 87 af 175 grunnskólum landsins. Þessi dræmu svör skólanna gefa ákveðnar vísbendingar um að lítið hafi farið fyrir eftirfylgni í skólunum sem ekki svöruðu könnuninni. Einnig gefa niðurstöður könnunarinnar sterkar vísbendingar um að þeir skólar sem svöruðu könnuninni eigi töluvert starf óunnið þegar kemur að kynbundnu ofbeldi, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, notkun kynjasamþættingar við stefnumótun og ákvarðanatöku og ýmsu sem lýtur að námi nemenda.

 

Í haust mun Jafnréttisstofa kalla eftir jafnréttisáætlunum grunnskóla í annað sinn og bjóða fræðslu um gerð þeirra þannig að þær séu raunhæfar og eftirfylgni sé tryggð. Jafnréttisstofa hvetur fræðsluyfirvöld um allt land til að tryggja að skólarnir uppfylli lagalegar skyldur sínar.

 

Hér má lesa samantekt Bergljótar.