Jafnréttisdagar Háskóla Íslands 2016

Jafnréttisdagar eru nú haldnir áttunda árið í röð í Háskóla Íslands. Að þessu sinni hefst dagskráin mánudaginn 10. október og lýkur föstudaginn 21. október. Sem fyrr er ókeypis á alla viðburði Jafnréttisdaga og aðgangur öllum heimill.

Jafnréttisdagar tvinna saman hinar ýmsu víddir jafnréttis og femínísma og skoða fjölbreytileika, forréttindi, þöggun, jafnréttisbaráttu, vald og mismunun. Áhersla er lögð á þau tækifæri sem skapast með því að setja hugmyndir um normið – hið „eðlilega“ – og hið undirskipaða undir smásjána.

Dagskráin er fjölbreytt og byggir á þverfaglegu samstarfi þar sem gerð er tilraun til að sameina hátíðarbrag og gagnrýna sýn stöðu jafnréttismála.

Leitast er við að skapa opna umræðu og aukinn skilning á jafnrétti ásamt því að auka sýnileika jafnréttismála og virkja slagkraft þeirra fjölmörgu aðila sem vinna að jafnrétti.

Allir háskólar landsins taka þátt í jafnréttisdögum og má finna upplýsingar um dagskrá annarra háskóla á heimasíðum þeirra. Að öðru leyti er hægt að fylgjast með Facebooksíðu Jafnréttisdaga til að fá upplýsingar um viðburði allra háskólanna.Dagskrá Jafnréttisdaga í Háskóla Íslands 2016:


Mánudaginn 10. okt

 
12.00 
Opnun Jafnréttisdaga
Háskólatorg
 
Jafnréttisdagar verða settir með miklum glæsibrag. Söngur, gleði og forseti lýðveldisins! Þú vilt ekki missa af þessu!
 
Opnunin verður táknmálstúlkuð.
 
11.00-13.30
Allskonar JAFNRÉTTI í HÍ 
Háskólatorg
 
Kynningar á nemendafélögum, starfseinungum, ráðum og rannsóknarstofum sem tengjast jafnréttismálum innan HÍ. Komdu í spjall, skráðu þig í félag, fáðu ráðgjöf og upplýsingar um nýjustu pælingar í jafnréttismálum!
 
Þriðjudaginn 11. okt

 
13.30-15.00
Kynja- og krónutölur í Háskóla Íslands
Málþing um styrki og sjóði í HÍ með kynjagleraugum
Árnagarður 201
 
Kristín Anna Hjálmarsdóttir, MA í kynjafræði, kynnir rannsókn sína, Sjóðir Háskóla Íslands 2010-2014. Yfirlit og kyngreining á gögnum úr umsóknarferli, sem hún vann fyrir jafnréttisnefnd háskólaráðs. Finnborg Salome Steinþórsdóttir, doktorsnemi í kynjafræði, fjallar um rannsóknastyrki út frá kynjuðum fjármálum, en niðurstöðurnar byggja á Evrópska rannsóknarverkefninu GARCIA sem er nú starfrækt í námsbraut í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild HÍ.
 
Fundarstjóri er Guðmundur R. Jónsson framkvæmdastjóri Framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands.
 
Málþingið er haldið af jafnréttisnefnd háskólaráðs. Það er á íslensku, aðgengi er gott. Öll velkomin.
 
Miðvikudaginn 12. okt
 
13.00-14.30
Barið í borðið: Þátttaka og áhrif fatlaðs fólks í íslensku stjórnmálalífi 
Litla torg
 
Nú þegar styttist í kosningar er vert að skoða hver og hvernig þátttaka fólks með fötlun hefur verið í pólitík á Íslandi. Allt frá grasrótarstarfsemi og inn á Alþingi. Á málþinginu verður reynsla fatlaðs fólks af pólitík rædd og hún skoðuð út frá sjónarhorni fötlunar- og stjórnmálafræði.
 
Málþingið er á vegum Námsbrautar í fötlunarfræði, Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum, Stjórnmálafræðideildar HÍ og Ráðs um málefni fatlaðs fólks. Það er á íslensku, verður táknmálstúlkað og aðgengi er gott. Öll velkomin. 
 
Fimmtudaginn 13. okt
 
12.00-13.00
„Ég er ofbeldismaður.“ Hvaða mynd draga gerendur ofbeldis upp af sjálfum sér?
Fyrirlestrasalur Þjóðminjasafns Íslands


Jón Ingvar Kjaran, lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, flytur erindið sem er hluti af fyrirlestrarröð RIKK rannsóknarstofu í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands. 
 
Fyrirlesturinn er á íslensku, aðgengi er gott. Öll velkomin.
 
14.10-15.10
Konur af erlendum uppruna á Íslandi; Menntun, atvinnumöguleikar og félagsleg þátttaka
Lögberg 103
 
Anna Katarzyna Wozniczka formaður W.O.M.E.N. in Iceland kynnir niðurstöður nýlegrar rannsóknar á stöðu kvenna af erlendum uppruna á
Íslandi, með áherslu á menntun, atvinnumöguleika og félagslega þátttöku þeirra. Við heyrum einnig sögu María Beatriz García Martínez, lögfræðings og þjálfara, af kúbverskum uppruna sem hefur búið á Íslandi í nokkur ár og er sjálfstætt starfandi núna.
 
Fundarstjóri er Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta. 


Erindin eru á vegum Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og Skrifstofu alþjóðasamskipta. Þau fara fram á íslensku og ensku, aðgengi er gott. Öll velkomin.
 
20.00-23.00
Jafnréttisbíó með jafnréttisnefnd SHÍ
Samtökin 78 
 
Jafnréttisnefnd SHÍ býður í jafnréttisbíó! Heimildarmyndin Intersexion verður sýnd og í kjölfarið mun Bríet Finnsdóttir, varaformaður Intersex Ísland, sitja fyrir svörum og stýra umræðum. Verið öll velkomin í Samtökin '78, aðgengi er gott. Myndin verður á ensku, umræður á íslensku.
 
Föstudaginn 14. okt
 

11.45-13.15
Aðkoma trans fólks að heilbrigðiskerfinu
HT 104 


Hver er aðkoma trans fólks að heilbrigðiskerfinu? Er þörf á breytingum? Fulltrúar frá Trans Íslandi, Ástráði og transteymi Landspítalans ræða stöðuna.
 
Málþingið er á vegum Heilbrigðisvísindasviðs. Það er á íslensku, aðgengi er gott. Öll velkomin. 
 
Mánudaginn 17. okt
 
12.00-13.00
Kynbundið og kynferðislegt ofbeldi.
Úrræði og úrræðaleysi
Litla torg


Brynhildur G. Flóvenz, dósent við lagadeild HÍ, fjallar um starfsemi og reynslu fagráðs Háskóla Íslands um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi. Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir, MA í kynjafræði, fjallar um berskjöldun og úrræðaleysi í tengslum við kynferðisofbeldi í nánum samböndum unglinga.
 
Fundarstjóri er Gyða Margrét Pétursdóttir, lektor í kynjafræði við Háskóla Íslands. Málþingið er haldið af jafnréttisnefnd háskólaráðs og verður boðið upp á léttar veitingar. Það er á íslensku, verður táknmálstúlkað og aðgengi er gott. Öll velkomin.
 
Þriðjudaginn 18. okt
 

9.00-13.00
Kynjuð fjármál - fjárfesting til framtíðar
Norræna húsið
 
Á ráðstefnunni flytur Angela O´Hagan lykilfyrirlestur um kynjuð fjármál. Kynntar verða niðurstöður GARCIA verkefnisins sem fjallar um kynjuð fjármál í háskólum og fulltrúar frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Reykjavíkurborg fjalla um reynslu sína af kynjuðum fjármálum.
 
Ráðstefnan er haldin af GARCIA í samstarfi við Félagsvísindasvið HÍ, Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Reykjavíkurborg. Ráðstefnan er á íslensku og ensku og er aðgengi gott. Öll velkomin. 
 
12.00-13.00
Hádegis hinsegin: íþróttir og hinsegin fólk
Gimli 102
 
Q-félagið mun halda áfram með fyrirlestraröðina Hádegis hinsegin og að þessu sinni verður fjallað um hvernig er að vera hinsegin íþróttamanneskja á Íslandi í dag. María Helga Guðmundsdóttir, karateþjálfari og formaður Samtakanna '78, fjallar um stöðu hinsegin fólks í íþróttum og leiðir til að stuðla að því að allt íþróttafólk geti hámarkað árangur og ánægju í íþróttaheiminum.
 
Í fyrirlestrinum verður ýmsum umræðuefnum velt upp: Hvað er kynjakerfið og hvernig hefur það áhrif á íþróttamenningu? Hvað þýða hugtök eins og intersex og kynsegin? Hvernig birtast fordómar á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna í íþróttum? Hvaða reglur gilda um þátttöku trans og intersex fólks í kynjaskiptum keppnisíþróttum? Og hvað er hægt að gera til að styðja hinsegin fólk í íþróttum og stuðla að opnu og fordómalausu umhverfi?
 
Erindið er flutt á íslensku og er aðgengi gott. Öll velkomin.
 
Miðvikudaginn 19. okt
 
12.00-13.00
Kennsla, kyn og samfélagslegt réttlæti
Gimli 301


Í jafnréttisáætlun HÍ er kveðið á um samþættingu jafnréttissjónarmiða við
kennslu. Hér verða kynntar leiðir til að samþætta kynjasjónarmið í
kennslu: Við gerð kennsluáætlana, val á lesefni og í kennslu.


Thomas Brorsen Smidt, doktorsnemi í kynjafræði, fjallar um efnið sem er samstarfsverkefni GARCIA verkefnisins og
Félagsvísindasviðs HÍ. Erindið er á ensku, aðgengi er gott. Öll velkomin. 
 
20.00
Jafnréttis Pubquiz!
Loft hostel
 
Telur þú þig vita allt um jafnrétti? Þá er þetta viðburður fyrir þig! Viltu vita meira um jafnrétti? Þá er þetta líka viðburður fyrir þig! ?Ungmennaráð UN Women á Íslandi stendur fyrir stórskemmtilegu Pubquiz (barsvar) og verða vinningar í boði fyrir þau klárustu. Gott aðgengi og á íslensku. Öll velkomin.
 
 
Fimmtudaginn 20. okt
 
12.00-13.00
Rannsóknir, kyn og samfélagslegt réttlæti
Gimli 301


Styrkveitendur gera í auknum mæli kröfur um að rannsakendur hugi að kyni og áhrifum þess í rannsóknum sínum. Hér verður fjallað um samþættingu kyns í rannsóknum og kynntur verkfærakassi (e. toolkit) sem er samstarfsverkefni sjö evrópskra háskóla og rannsóknarstofnana.


Thomas Brorsen Smidt, doktorsnemi í kynjafræði, fjallar um efnið í boði GARCIA verkefnisins og Samtaka kvenna í vísindum. Erindið er á ensku, aðgengi er gott. Öll velkomin.
 
20.00-22.00
Að styrkja og stuða í 20 ár: 
Afmælisveisla kynjafræðináms í Háskóla Íslands
HT 101 


Á þessu hausti fagnar kynjafræðinám í Háskóla Íslands 20 ára afmæli. Af því tilefni verður afmælisveisla fimmtudagskvöldið 20. október nk. í stofu HT-101 (Ingjaldsstofu) kl. 20-22. Karen Ásta Kristjánsdóttir MA í kynjafræði mun flytja erindi úr MA-ritgerð sinni sem ber yfirskriftina ”Ástríða og akademía: Kynjafræðileg þekking, miðlun og framkvæmd” þar sem hún fjallar um reynslu nokkurra nemenda af náminu (http://skemman.is/item/view/1946/21035). Þá verða 5 mín. örerindi frá fv. nemum úr kynjafræði og hagnýtri jafnréttisfræði þar sem þau fjalla um hvað tók við eftir námið, veganestið, minnisstæð atvik eða upplifanir úr náminu. Loks verður skrafað og skeggrætt og boðið upp á afmælistertu. Lára Rúnars flytur nokkur lög og Steinunn Rögnvaldsdóttir sér um veislustjórn.
 
Viðburðurinn er haldinn á vegum kynjafræðináms í HÍ, hann er á íslensku og aðgengi er gott. Öll velkomin. 
 
Föstudagur 21. okt
 
11.40-12.20
Frumsýning á myndböndum diplómanema 
Stakkahlíð H-101
 
Nemendur í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun munu frumsýna kynningarmyndbönd sem þau gerðu um námið ásamt því að kynna námið sjálft. 
 
Viðburðurinn er á íslensku og aðgengi er gott. Öll velkomin.
 
12.00
Hádegisuppistand
Háskólatorg
 
Hlátur lengir lífið og gerir góðan hádegismat enn betri. Nokkrir vel valdir jafnréttisbrandarar líta dagsins ljós!
 
17.00-19.00
Kveðjustund! 
Litla torg 
 
Komdu og skálaðu fyrir Jafnréttisdögum 2016 með okkur á milli 17-19 á Litla torgi! Nældu þér í bita og glas og njóttu smá glimmers og glamúrs!