Jafnréttisstofa tekur á móti erlendum gestum

Að undanförnu hefur Jafnréttisstofa tekið á móti nokkrum fjölda erlendra gesta. Um er að ræða hóp frá Japan og Tælandi auk sálfræðings frá Bandaríkjunum. Öll voru þau komin hingað til þess að kynna sér ástæðu þess að Ísland hafi verið í efsta  sæti á lista WEF Global Gender Gap Index og undanfarin  fimm ár. 
Japanski hópurinn var frá fyrirtæki sem heitir Platinum Network en markmið þess er að búa til vettvang til að finna lausnir á þeim hnattrænu áskorunum sem heimurinn stendur frami fyrir  með  samfélaglegum aðgerðum og áherslu á sjálfbærni. Hópurinn sem samanstóð af fimm körlum hafði mestan áhuga á að ræða fæðingarorlof feðra og aukna þátttöku karla í heimilis- og fjölskyldulífi á Íslandi í kjölfar þess, sem og mikla atvinnuþátttöku kvenna. Fannst Japönunum mjög áhugavert að heyra hvernig fjölskyldur á íslandi skipuleggja daglegt líf sitt alveg frá því farið er á fætur á morgnanna og þangað til lagst er til svefns að kvöldi. Ýmis samanburður var gerður og farið var í gegnum ferðamáta til og frá vinnu og hvernig við byggjum upp leiksskóla- og skólakerfið auk þess sem ólík vinnumenning var rædd. 

Tælenski hópurinn var starfsfólk ráðuneytis sem fer með jafnréttismál í Tælandi. Ráðuneytisstjórinn sem leiddi hópinn og starfar í the Ministry of Social Development and Human Security hafði mestan áhuga á innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar. Einnig var rætt í hópnum um fæðingarorlof feðra og almenna stöðu jafnréttismála á Íslandi. 

Sálfræðingurinn Megan Frost, eiginkona hennar og eins árs gamall sonur komu til þess að ræða hvað gerir íslendinga að einni hamingjusömustu þjóð í heimi (samkvæmt mælingum). Hún spurði  hvort Jafnréttisstofa teldi að tenging sé milli þess og þess árangurs sem hefur náðst í jafnréttisbaráttu kynja á  Íslandi. Við svöruðum þeirri spurningu játandi með stolti. Einnig var rætt um hið íslenska hugarfar „þetta reddast“ og mikilvægi þess að börn sjái allskonar líkama í sundlaugum landsins sem mótvægi við glansmyndir fjölmiðla.  Fæðingarorlof feðra og  þær samfélagslegu breytingar sem það hefur haft í för með sér vöktu einnig athygli gestanna frá Ameríku. 




Kristín Ástgeirsdóttir og Hugrún R. Hjaltadóttir með japönsku gestunum.