Jafnréttisviðurkenning Stígamóta 2010

Í dag á alþjóðlegum baráttudegi gegn kynferðisofbeldi veitti Stigamót jafnréttisviðurkenningu sína. Í fréttatilkynningu kemur fram að baráttan gegn kynferðisofbeldi getur verið erfið og málaflokkurinn blettur á íslensku samfélagi. Þess vegna er svo mikilvægt að halda til haga því sem vel er gert. Viðurkenninguna hlutu dr. Guðrún Jónsdóttir, stofnandi Stigamóta, Eyrún Jónsdóttir, forstöðukona Neyðarmóttöku vegna nauðgana, Anna Bentína Hermansen, Edda Jónsdóttir, blaðakona og Sigrún Pálína Ingvarsdóttir auk þess veitti Stígamót erlendum samstarfsaðilum samstöðuviðurkenningar fyrir ómetanlegan stuðning við starfsemi Stígamóta og Stígamótakonur í neyð.Í tilkynningunni frá Stígamótum kemur fram eftirfarandi rökstuðningur fyrir veitingu viðurkenningarinnar.

dr. Guðrún Jónsdóttir, stofnandi Stígamóta
Brautryðjandinn sem átti stóran þátt í að íslensk kvennahreyfing blómstraði. Með eldmóði, krafti og hugmyndaauðgi virkjaði hún grasrótina og hirti hvorki um titlatog eða stöðu. Hún skipulagði nokkrar af ógleymanlegustu aðgerðum síðustu aldar. Hún lagði mikið af mörkum í kvennaframboðunum, skrifaði í Veru, stofnaði Kvennahús, keypti Hlaðvarpann og var öflug í Samtökum kvenna á vinnumarkaði. Hún hélt utanum félagsráðgjafanámið í Háskólanum og síðast en ekki síst, þá stofnaði hún Stígamót. Hún skapaði þann faglega grunn sem starf Stígamóta byggir á enn þann dag í dag og fyrir það geta nú 5.500 einstaklingar þakkað.


Eyrún Jónsdóttir, forstöðukona Neyðarmóttöku vegna nauðgana
Það kostaði langa baráttu að opna Neyðarmóttöku vegna nauðgana, fyrirmyndarúrræði á forsendum þeirra sem á þurftu að halda. Um hana hefur alltaf þurft að standa vörð, bæði fjárhagslega og faglega. Sú kona sem staðið hefur vaktina frá upphafi á Neyðarmóttökunni, á heiður skilinn. Eyrún er dyggur samstarfsaðili Stígamóta og berst hetjulega fyrir því að vernda þá þjónustu sem Neyðarmóttakan á að sinna. Við dáumst að þrautseigju hennar og trúmennsku í erfiðu starfi við ómögulegar aðstæður og heitum því að standa við hlið hennar í baráttunni.

Anna Bentína Hermansen
Á undanförnum vikum hafa fordómar og þekkingarleysi hjá valdamönnum innan réttarkerfsins afhjúpast. Besta svarið við slíku er fræðsla og vitundarvakning. Meistararitgerð Önnu Bentínu „Mér var stolið“ - kynverund kvenna eftir kynferðisofbeldi, er mikilvæg rannsókn og endurspeglar hversdagslífið á Stígamótum. Anna Bentína skrifaði ekki fyrir skúffuna, heldur hefur hún notað þekkingu sína til þess að beita sér í umræðunni. Megi þekking hennar nýtast sem allra best.

Edda Jónsdóttir, blaðakona
Edda hefur í mörg ár tekið þátt í margs konar kvennabaráttu. Það hefur verið yndislegt að fylgjast með henni eflast og finna leiðir til þess að beita sér. Edda gerði á árinu fjóra vandaða þætti um vændi hjá Ríkisútvarpinu. Þættirnir voru fróðlegir og gáfu raunsanna mynd af því ofbeldi sem í vændinu felst. Þannig stóð Edda fyrir mikilvægri fræðslu og vitundarvakningu. En það er einmitt mikilvægasta leiðin til þess að eyða fordómum og koma í veg fyrir frekara ofbeldi.

Sigrún Pálína Ingvarsdóttir
Sigrún Pálína hefur sýnt ótrúlega þrautseigju og hugrekki með því að segja sögu sína, þrátt fyrir ítrekaðar og öflugar þöggunartilraunir. Henni hefur tekist eftir áratuga baráttu að fá viðurkenningu kirkjunnar á misgjörðunum sem hún var beitt. Með því hefur hún verið fyrirmynd fyrir margra sem í langan tíma hafa þagað yfir órétti. Hún hefur vakið hjá fólki þrána eftir því að fá viðurkenningu á mannréttindabrotum gegn þeim. Hún hefur aukið Stígamótafólki bjartsýni á að réttlætið sigri að lokum.


Á meðfylgjandi mynd eru þær erlendu konur sem hlutu samstöðuviðurkenningar Stígamóta þær Tove Hegg Versland og Guri Vold frá kvennaathvarfinu í Vestfold, Dorit Otzen frá Hreiðrinu í Danmörku og Tove Smaadahl frá Miðstöð norskra kvennaathvarfa. Hægra megin við þær eru þær Edda Jónsdóttir, Eyrún Jónsdóttir, dr. Guðrún Jónsdóttir, Sigrún Pálína Ingvarsdóttir og Anna Bentina Hermansen.