Karlar og jafnrétti: Fundur Stígamóta um hlutverk karla í baráttunni gegn kynferðisofbeldi

Fimmtudaginn 4. desember síðastliðinn kynnti Hjálmar Sigmarsson hluta lokaverkefnis síns, til meistaraprófs við Central European University í Búdapest, í nýjum húsakynnum Stígamóta að Laugarvegi 170. Rannsóknin fjallar um hlut karla í jafnréttismálum á Íslandi en í erindinu lagði hann sérstaka áherslu á hlutverk karla í baráttu gegn kynferðisofbeldi.


Hjálmar benti á að karlar hafa síðustu ár orðið sýnilegri í umræðunni, bæði í tengslum við hlut þeirra sem gerendur og einnig sem þolendur kynferðisbrota. Þannig voru karlar 18% allra þeirra sem leituðu ráðgjafar hjá Stígamótum á síðasta ári. Margir komu til að fá hjálp við að takast á við ofbeldi sem þeir höfðu orðið fyrir sem börn.

Í erindinu leitaðist Hjálmar við að svara spurningum um hvað hefur áhrif á þátttöku karla í umræðunni um kynferðisofbeldi. Í frásögnum viðmælenda rannsóknarinnar var áberandi hvernig skilningur þeirra á kynferðisofbeldi þróast í samspili persónulegrar reynslu og breyttrar umræðu um kynferðisofbeldi almennt. Karlar sjá að konur eru meirihluti brotaþola og þeir þekkja jafnvel konur sem eru brotaþolar. Karlar sjá einnig að karlar eru meirihluti brotamanna og þeir þekkja þá oft menn sem beitt hafa konur ofbeldi. 

Hjálmar ræddi sérstaklega ýmiss tækifæri sem felast í aukinni þátttöku karla í umræðu um kynbundið ofbeldi – sem felast meðal annars í að karlar finna til og deila ábyrgð sinni. Þá ræddi hann einnig ýmsar þær hættur sem kunna að felast í yfirborðskenndri nálgun sem ekki ögrar viðteknum hugmyndum í samfélaginu. 

Í pallborði, að lokinni kynningu Hjálmars, sköpuðust góðar umræður. Gyða Margrét Pétursdóttir lektor við HÍ, Arnar Gíslason jafnréttisfulltrúi HÍ og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir rithöfundur héldu stutta framsögu um ýmsar hliðar viðfangsefnisins. Þau lýstu reynslu sinni af þátttöku karla í umræðu um kynferðisofbeldi og bentu á dæmi um það hvernig þátttaka karla getur komið að gagni og orðið til þess að styrkja baráttuna gegn ofbeldi.


Sjá: Glærur frá fyrirlestrinum