Konum fjölgar á meðal frambjóðenda

Í vikunni gaf Hagstofa Íslands út Hagtíðindi þar sem greint er frá niðurstöðum kosninga til Alþingis, sem fram fóru 12. maí 2007. Þar kemur meðal annars fram að kosningaþátttaka kvenna var meiri en karla, eða 83,9% á móti 83,3% hjá körlum. Frá og með þingkosningunum 1995 hefur þátttaka kvenna í þingkosningum verið örlítið meiri en karla, en fram að því var þátttaka karla meiri.

Sex stjórnmálaflokkar buðu fram lista í öllum kjördæmum. Af 756 frambjóðendum á landinu öllu voru 399 karlar (52,8%) og 357 konur (47,2%). Í þremur efstu sætum framboðslistanna var hlutfall kvenna lægra, eða 43,5%.

Konur meirihluti varaþingmanna
Hlutfall kvenna meðal kjörinna þingmanna var enn lægra, eða 31,7%. Kjörnar voru 20 konur og 43 karlar, einni konu fleiri en í kosningunum 2003. Konur eru hins vegar meirihluti varaþingmanna, eða 39 (61,9%), á móti 24 körlum (38,1%). Sé fjöldi þingmanna og varaþingmanna tekinn saman var fjöldi karla 67 (53,2%) og kvenna 59 (46,8%).

Fleiri karlar en konur voru í framboði í fjórum kjördæmum landsins, en konur voru fleiri en karlar í tveimur. Aðeins í einu kjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi suður, voru fleiri konur en karlar í þremur efstu sætum listanna. Kynjamunurinn var mestur í Suðurkjördæmi,  þar sem tæp 67% efstu frambjóðenda voru karlar.

Landsbyggðin sker sig úr
Munur var á kynjahlutfalli á höfuðborgarsvæði og landsbyggð þegar litið er til frambjóðenda í 1.-3. sæti. Á höfuðborgarsvæðinu var hlutfall kynja í þessum sætum jafnt, en á landsbyggðinni voru 37% frambjóðenda í efstu sætunum konur, sem þýðir að kvenframbjóðendur þar voru tiltölulega neðarlega á framboðslistum.

Hlutfall kvenna á þingi hækkaði smám saman fram til ársins 1999 þegar 22 konur voru kjörnar á þing, eða 35% allra þingmanna. Í kosningunum 2003 fækkaði þeim í 19, eða í 30%. Hefur konum fjölgað hlutfallslega hraðar og meira meðal frambjóðenda en kjörinna fulltrúa á undanförnum áratugum.

Nánari greiningu á öllum þessum tölum og öðrum niðurstöðum er hægt að finna á vef Hagstofunnar.