Konur gára vatnið - fréttabréf

Lokaráðstefna og lokafundur verkefnisins Konur gára vatnið fóru fram á Akureyri í maí síðast liðnum. 

Fréttabréfið má finna hér.

Konur gára vatnið; ráðstefna um kynjajafnrétti í stjórnun var haldin á Akureyri 11. maí 2022 og var jafnframt lokaráðstefna verkefnisins Women Making Waves. Ráðstefnan fjallaði um valdeflingu kvenna í víðum skilningi og sérstaklega hefur verið hugað að konum sem búa við tvöfalda mismunun. Katrín Björg Ríkarðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu setti ráðstefnuna og varpaði ljósi á stöðu kvenna á vinnumarkaði og þær áskoranir sem konur hafa staðið frammi fyrir í sögulegu samhengi.

Hjalti Ómar Ágústsson, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, kynnti síðan verkefnið og meginmarkmið þess. Markmið verkefnisins er tvíþætt, annars vegar að hvetja til umræðu um kynjamisrétti á vinnumarkaði og hins vegar að þróa úrræði til að efla konur þannig að þær séu betur í stakk búnar að mæta þessu misrétti og takast á við það með betri verkfærum.

Erlendu samstarfsaðilarnir, Raquel Ortega Martínez frá Spáni og Dominika Tkacova frá Englandi, kynntu námsefnið sem samið var í verkefninu; námskeið í fimm hlutum og Leiðtogahringir. Kynningar þeirra voru á upptökum því þær gátu ekki mætt vegna Covid-19. Anna Koronioti frá Grikklandi kynnti síðan rafrænan vettvang verkefnisins þar sem allt námsefni er aðgengilegt auk náms- og kennsluleiðbeininga. Eftir kaffihlé stýrði Anna Lilja Björnsdóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, umræðum um konur í forystustörfum.

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, flutti erindi sem hún nefndi „Veganesti leiðtogans; uppáhalds molarnir“. Í erindi sínu varpaði hún ljósi á vegferð sína á vinnumarkaði og gaf konum góð ráð fyrir starfsframann. Í lokin kynnti Helga Harðardóttir, sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar, handbók fyrir stefnumótendur; leiðarvísi fyrir þau sem hyggjast nýta sér afurðir verkefnisins áfram.

Handbókina má finna hér.