Konur og karlar í forystu atvinnulífs á Íslandi

Í dag fer fram ráðstefnan Fjölbreytt forysta, sem Jafnréttisstofa stendur að í samstarfi við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Kauphöllina, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Á ráðstefnunni er fjallað um niðurstöður rannsókna um konur og karla sem stjórnendur og stjórnarfólk í fyrirtækjum.

Á ráðstefnunni fjallar Dr. Þorgerður Einarsdóttir, kynjafræðingur um niðurstöður rannsóknarskýrslunnar Konur og karlar í forystu atvinnulífs á Íslandi. 


Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að konur eru almennt yngri en karlar í sömu stjórnunarstöðum í íslensku atvinnulífi. Þær hafa oftar oftar en karlar menntunarbakgrunn í viðskiptafræði, hagfræði og lögfræði en sjaldnar í verkfræði, raun- og náttúruvísindum. 

Konur eru líklegri en karlar til að segja að atvinnulífinu sé stjórnað af körlum sem beri ekki traust til kvenna og karlar eru líklegri til að segja að konur ráði verr við álagið sem fylgir stjórnunarstöðum og að þær hafi síður tækifæri til starfsframa vegna ábyrgðar á fjölskyldu og börnum. Karlar eru einnig líklegri til þess að segja að ekki sé til nægur fjöldi hæfra kvenna til að manna stjórnunarstöður. 

Margir svarendur segjast koma of þreyttir heim úr vinnunni til að geta sinnt þeim verkum sem þarf að sinna og konur eru líklegri til að svara á þann veg, en karlar. Meira en helmingur bæði karla og kvenna er sammála því að betri samþætting fjölskyldu- og atvinnulífs sé mikilvæg leið til að ná fram jafnara kynjahlutfalli í framkvæmdastjórnum fyrirtækja.

Sjá skýrsluna hér