Kyn og loftslagsbreytingar

Konur og karlar bera jafnmikla ábyrgð á því að skapa sjálfbæran heim. Þess vegna leggja Norðurlönd áherslu á jafnrétti kynja í loftslagsviðræðum Sameinuðu þjóðanna. Fimmtudaginn 5. mars hélt Norræna ráðherranefndin námstefnu um jafnrétti og loftslagsbreytingar á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York, en þátttakendur voru alls staðar að úr heiminum. Áhugaverð skýrsla var gefin út í tengslum við fundinn.

 
- Ef Norðurlönd hefðu ekki tekið forystu í jafnréttismálum hefðum við ekki náð jafn miklum árangri á undanförnum árum, sagði Rebecca Pearl frá Global Gender and Climate Alliance á fimmtudag. Hún var í sérfræðingahópi á námstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar.

Hún var ekki sú eina sem benti á að Norðurlönd væru í forystu í jafnréttismálum í heiminum. Mikill áhugi var á því að heyra sjónarmið sérfræðingahópsins.

Á námstefnunni kom fram að jafnrétti væri veigamikill þáttur í lausnum við loftslagsvandanum. Ef ekki verði tekið tillit til þess sem skilur kynin að í þeim efnum í loftslagsviðræðunum verður erfitt að finna góðar lausnir fyrir alla.

Ein ástæða þess að loftslags- og jafnréttismál fara saman er að konur og karlar hafa ólík áhrif á andrúmsloftið. Þetta kemur fram í skýrslu um loftslag og jafnrétti sem Helene Hjort Oldrup kynnti í New York. Meðal annars keyra karlar í hinum iðnvædda heimi meira en konur og losa þar með meira af koltvísýringi. Konur ferðast aftur á móti meira með umhverfisvænni samgöngutækjum. Til dæmis er talið að karlar beri ábyrgð á 75 prósent allrar bílnotkunar í Svíþjóð.

Önnur ástæða er að loftslagsbreytingar hafa mismunandi áhrif á konur og karla. Til dæmis drukkna fleiri konur en karlar í loftslagstengdum náttúruhamförum eins og flóðum, því þær kunna ekki að synda eða klifra í trjám. Samkvæmt Rebeccu Pearl var það niðurstaða rannsóknar sem gerð var af London School of Economics að kynjamismunur í dauðsföllum af völdum náttúruhamfara er í beinu samhengi við efnahagsleg og félagsleg réttindi kvenna.

Þriðja ástæðan er sú að kynjahlutfall við ákvarðanatöku í loftslagsviðræðunum er ójafnt. Til dæmis er hlutfall kvenna sem leiða sendinefndir í viðræðunum á vegum Sameinuðu þjóðanna milli 15 og 20 prósent. Ef þekking beggja kynja á að njóta sín þarf að breyta hegðunarmynstri kynja svo þau eigi jafna aðkomu að mikilvægum ákvörðunum.

Ulf Rikter-Svendsen frá Reform, miðstöð fyrir karla í Noregi, var einn af sérfræðingunum sem tók þátt í pallborðsumræðunum. Hann lagði áherslu á að ekki mætti gera karla að blórabögglum í loftslagsumræðunni.

- Mikilvægt er að sjónarmið karla og drengja komi fram í loftslagsumræðunni. En staðalímyndin um karlinn sem vonda aðilann er ekki mjög gagnleg. Ef karlinn er gerður að blóraböggli hvað loftslagsvandamál varðar, mun það bara hægja á ferlinu.

Þátttakendur í námstefnunni höfðu ólíkar skoðanir á samhengi jafnréttismála og loftslagsmála. Ekki voru allir á eitt sáttir um hvort skoða ætti jafnrétti í ljósi loftslagsumræðunnar eða öfugt. Og það var ítrekað að jafnrétti hefur haft í för með sér að margar konur vinna fullan vinnudag og eru sjálfstæðir neytendur. Konur taka í síauknum mæli ákvarðanir um neyslu í fjölskyldunni, og neysluvenjur þeirra fá því sífellt aukið vægi.

Norðurlönd taka þátt í fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna dagana 2.-13. mars. Það var eitt af meginmarkmiðum Norrænu ráðherranefndarinnar á fyrri viku fundarins að koma jafnréttissjónarmiðum á framfæri í loftslagsumræðunni.

Skýrsluna má nálgast hér.