Kynjahlutföll í áhrifastöðum íþróttahreyfingarinnar

ÍSÍ hefur að beiðni Jafnréttisstofu sent yfirlit yfir kynjahlutföll í helstu áhrifastöðum innan íþróttahreyfingarinnar sem má sjá í myndrænu yfirliti. Helstu niðurstöður sýna að íþróttunum er í meirihluta stýrt af körlum. Karlar gegna í langflestum tilvikum formennsku, sérstaklega á vettvangi aðalstjórna félaga. Karlar eru einnig í meirihluta meðstjórnendur og varamenn í stjórnum. Meirihluti framkvæmdastjóra innan íþróttahreyfingarinnar eru einnig karlar, bæði í félögum (77%) og sérsamböndum (55%). Konur eru í meirihluta í stöðum gjaldkera (51%) og ritara (56%) í aðalstjórnum félaga. Enginn kynseginn einstaklingur var skráður í stjórnir íþróttafélaga þegar úttektin var gerð.

Tilgangur gagnaöflunarinnar er að draga fram mynd af stöðu kynjanna innan íþróttahreyfingarinnar með sérstaka áherslu á áhrifastöður og völd til þess að skoða hvort leiðrétta þurfi hlut kynjanna og hvort núverandi staða geti verið undirliggjandi þáttur karllægrar menningar sé hún til staðar. Kynjamisvægi getur einnig haft áhrif á ákvarðanatöku og stefnumótun innan hreyfingarinnar.

Tekið skal fram að íþróttahreyfingin ein ber ekki ábyrgð á þeim kynjahalla sem hér birtist. Um er að ræða samspil margra áhrifaþátta í samfélaginu. Í íþróttahreyfingunni sem er ein stærsta fjöldahreyfing landsins skipuð þúsundum sjálfboðaliða birtist kynjakerfið í heild sinni þar sem takast þarf á við ýmsar áskoranir, t.d. tækifæri til samræmingar fjölskyldu- og atvinnulífs, ábyrgðar á þriðju vaktinni, birtingu staðalímynda og fleiru. Samstillt átak þarf því til að leiðrétta þann mun sem raungerist í íþróttahreyfingunni.

Ein af skýringum kynbundins ofbeldis og áreitni er ójafnvægi milli kynja, vinnustaðamenning sem er óhagstæð konum og/eða meirihluti hagaðila eru karlar. Ómögulegt er að vinda ofan af slíkri menningu nema með því að líta heildstætt á vandann og samverkandi þátta. Þó að enn sé ójafnvægi í kynjahlutföllum í stjórnum innan íþróttahreyfingarinnar hefur á síðustu árum orðið mikil breyting til batnaðar hjá sambandsaðilum ÍSÍ. Með samstarfi ÍSÍ og Jafnréttisstofu er leitast við að ná enn fram betri stöðu innan íþróttahreyfingarinnar með fræðslu og með því að minna reglulega á mikilvægi þess að hafa sem jöfnust kynjahlutföll í stjórnum, nefndum og ráðum í íþróttastarfinu.

Jafnréttisstofa bendir á mikilvægi inngildandi og öruggs umhverfis þar sem fjölbreyttar raddir fá að heyrast við ákvarðanatöku og stefnumótun. Með því að vinna markvisst að jafnari kynjahlutföllum í áhrifastöðum innan íþróttahreyfingarinnar er stigið skref til að stuðla að slíku umhverfi, sem er lýðræðislegra og réttlátara fyrir alla þátttakendur. Til þess að ná frekari árangri er hins vegar einnig nauðsynlegt að grípa til sértækra, fyrirbyggjandi aðgerða sem snúa að ýmsum þáttum í starfi íþróttahreyfingarinnar.

Jafnréttisáætlanir fyrir íþróttafélög og leiðbeinandi upplýsingar þar að lútandi, sem Jafnréttisstofa og ÍSÍ hafa unnið í sameiningu og er aðgengileg öllum einingum innan ÍSÍ, er gott verkfæri fyrir íþróttafélög til að taka stöðuna og setja sér markmið til aukins jafnréttis innan íþróttastarfsins og stjórnsýslu íþróttahreyfingarinnar.

Jafnréttisstofa mun í samstarfi við ÍSÍ vinna að frekari gagnaöflun um íþróttahreyfinguna, uppfæra tölfræðina árlega og eiga samtal um skref til framfara í málaflokkinum.