Kynjajafnrétti á formennskuári Íslands

Á þessu ári fer Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Félags- og tryggingamálaráðuneytið og Jafnréttisstofa skipuleggja og hafa umsjón með fjölda verkefna og viðburða á sviði jafnréttismála í samráði við jafnréttisnefnd Norrænu ráðherranefndarinnar og fleiri aðila. Gerðar verða þrjár stórar rannsóknir og haldnar þrjár ráðstefnur auk námsstefnu í Færeyjum. Þá verður lögð áhersla á norrænt kynjasjónarhorn á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP15) sem haldin verður í Kaupmannahöfn 7.–18. desember 2009.
 
Kyn og völd

Á síðasta ári þegar Svíar fóru með formennsku var ákveðið að setja í gang rannsókn um kyn og völd á Norðurlöndum. Áhersla verður lögð á hlut kynjanna í stjórnmálum annars vegar og atvinnulífi hins vegar. Rannsóknin er vel á veg komin og sér Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands um vinnuna hér á landi undir stjórn dr. Auðar Styrkársdóttur stjórnmálafræðings og dr. Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur félagsfræðings. Verkefninu lýkur undir lok ársins og verða helstu niðurstöður kynntar á ráðstefnu sem haldin verður á Grand Hótel í Reykjavík 18.–19. nóvember.

Foreldraorlof – umönnunarstefna og staða kynjanna

Fæðingar- og foreldraorlof á Norðurlöndunum hefur vakið mikla athygli undanfarin ár, ekki síst feðraorlofið á Íslandi en engin þjóð hefur náð viðlíka árangri við að virkja feður í uppeldi ungra barna sinna. Flestar þjóðir Evrópu glíma við fækkun barneigna meðan íbúarnir eldast sem valda mun miklum vanda í framtíðinni. Því velta stjórnmálamenn víða um lönd því fyrir sér hvernig skýra megi háa fæðingartíðni og mikla atvinnuþátttöku kvenna á Norðurlöndum en skýringin felst í öflugu velferðarkerfi. Samanburðarrannsókn er þegar hafin á fæðingar- og foreldraorlofi á Norðurlöndunum þar sem margra spurninga verður spurt um nýtingu, áhrif á heilsu, samband foreldra og barna, áhrif á vinnumarkað og fleira. Það eru þau dr. Ingólfur V. Gíslason og dr. Guðný Eydal sem stýra rannsókninni. Niðurstöður verða kynntar á ráðstefnu 22. október. Staðsetning verður kynnt síðar.

Jafnrétti í skólastarfi

Lengi býr að fyrstu gerð. Þótt ákvæði hafi verið í lögum í meira en 30 ár um skyldu skóla hér á landi til að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna hefur þeirri skyldu verið afar slælega sinnt. Náms- og starfsval er afar kyn- og hefðbundið hér á landi, eins og reyndar á hinum Norðurlöndunum, en almennt er talið að þar með nýtist mannauðurinn illa þar sem fólk nýtir ekki hæfileika sína sem skyldi. Bæta þarf menntun kennara á sviði kynjafræða og vekja samfélagið allt til vitundar um staðalmyndir kynjanna og kynjamisrétti. Á undanförnum árum hafa verið unnin ýmis verkefni innan mismunandi skólastiga á Norðurlöndunum til að ýta undir jafnrétti kynjanna. Á síðasta ári hófst þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum sem átta leik- og grunnskólar í fjórum sveitarfélögum hér á landi taka þátt í með stuðningi fjölda aðila. Verkefninu er stýrt frá Jafnréttisstofu en verkefnisstjóri er Arnfríður Aðalsteinsdóttir, náms- og starfsráðgjafi. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vefsetrinu www.jafnrettiiskolum.is Á norrænni námsstefnu sem haldin verður á Grand Hótel dagana 21.–22. september verða kynnt ýmis fyrirmyndarverkefni um jafnréttisfræðslu í skólum sem unnin hafa verið á Norðurlöndunum, þar með talið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum.

Kyn og menning

Norræna ráðherranefndin hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á málefni ungs fólks og gildir það jafnt um jafnrétti kynjanna sem önnur mál. Á vegum norræns samstarfs menntamálaráðuneytisins er hafin viðamikil rannsókn á viðhorfum ungs fólks á Norðurlöndunum á aldrinum 16–20 ára og verður meðal annars spurt um menningarneyslu þeirra. Svörin verða greind með tilliti til kynjanna og er niðurstöðunum ætlað að verða grunnur að frekari stefnumótun í málefnum unga fólksins. Norræna jafnréttissamstarfið styrkir rannsóknina. Það er Rannsókn og greining sem sér um könnunina hér á landi. Ráðstefna þar sem niðurstöður verða kynntar verður haldin á Hótel Sögu 15.–16. apríl á næsta ári þar sem verkefnið reyndist viðameira en áætlað var í fyrstu.

Samstarf við Færeyjar og Grænland

Íslensk stjórnvöld leggja ríka áherslu á samvinnu við Færeyjar og Grænland. Haldin verður tveggja daga námsstefna í Þórshöfn í Færeyjum 3.–4. júní. Fyrri daginn verður fjallað um jafnréttislög, framkvæmda- og aðgerðaáætlanir, þróun þeirra og þýðingu. Fyrirlesarar verða frá Íslandi, Noregi og Finnlandi. Seinni daginn verður fjallað um jafnrétti í skólastarfi þar sem fyrirmyndarverkefni verða kynnt og rætt um nauðsyn þess að skólinn standi sig í að mennta þegna jafnréttisþjóðfélagsins. Fyrirlesarar verða frá Danmörku, Svíþjóð og Íslandi.

Kyn og loftslagsmál

Eitt nýjasta viðfangsefnið á sviði kynjaumræðunnar er kyn og loftslagsmál. Í ljós hefur komið að fáar konur koma að stefnumótun í umhverfismálum en þau snerta framtíð alls mannkyns. Konur stýra að miklu leyti neyslu heimilanna og vestrænar konur eru miklir neytendur. Þær geta því haft mikil áhrif við að draga úr mengun, orkusóun og losun gróðurhúsalofttegunda. Karlar eru aftur á móti í meiri hluta þeirra sem nota einkabíla (70% í Svíþjóð) meðan konur nýta almenningssamgöngur í ríkari mæli. Karlar gætu því lagt mikið af mörkum við að draga úr kolefnislosun með því að keyra minna. Konur eru í miklum meiri hluta þeirra sem farast af völdum náttúruhamfara, staðreynd sem þarf að taka inn í allar forvarnar- og viðbragðsáætlanir. Það er því brýnt að koma kynjasjónarhorni inn í alla stefnumótun og aðgerðaáætlanir í umhverfismálum. Í desember verður haldin loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP15) þar sem til stendur að semja um frekari takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda. Norðurlöndin munu standa fyrir sérstökum hliðarviðburði á ráðstefnunni um kyn og loftslagsmál þar sem tillögur Norðurlandanna verða kynntar. Tillögurnar voru nýlega kynntar á hliðarviðburði á 53. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York ásamt stuttri heimildamynd.

Heildaryfirlit yfir formennskuáætlun í norrænu jafnréttissamstarfi má finna hér.