Kynjuð fjárlagagerð leidd í lög

Jafnréttisstofa vill vekja athygli á því að í nýjum lögum um opinber fjármál nr. 675/2015 sem samþykkt voru á Alþingi þann 19. desember er sérstök grein um kynjaða fjárlagagerð og jafnrétti. Í greininni sem er númer 18 segir:  „Ráðherra, í samráði við ráðherra jafnréttismála, hefur forystu um að gerð verði áætlun um kynjaða fjárlagagerð sem höfð skal til hliðsjónar við gerð frumvarps til fjárlaga. Í frumvarpi til fjárlaga skal gerð grein fyrir áhrifum þess á markmið um jafna stöðu karla og kvenna.“ Jafnréttisstofa vill vekja athygli á því að í nýjum lögum um opinber fjármál nr. 675/2015 sem samþykkt voru á Alþingi þann 19. desember er sérstök grein um kynjaða fjárlagagerð og jafnrétti. Í greininni sem er númer 18 segir:  „Ráðherra, í samráði við ráðherra jafnréttismála, hefur forystu um að gerð verði áætlun um kynjaða fjárlagagerð sem höfð skal til hliðsjónar við gerð frumvarps til fjárlaga. Í frumvarpi til fjárlaga skal gerð grein fyrir áhrifum þess á markmið um jafna stöðu karla og kvenna.“ 

Frá árinu 2009 hefur verkefnastjórn um innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar starfað í fjármálaráðuneytinu. Verkefnastjórnin tók mið af frumvarpi fjármálaráðherra um opinber fjármál í vinnu sinni og samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum þann 19. júní sl. nýja fimmára innleiðingaráætlun. Markmið hennar er að innleiða nýtt verklag við gerð frumvarpa þar sem jafnréttisáhrif eru metin og gerð grein fyrir áhrifum fjárlagatillagna á stöðu kynjanna. 

Fjárlög eru ekki hlutlaus þegar kemur að kynjunum heldur hefur ráðstöfun og öflun opinbers fjár margvísleg áhrif á stöðu kynjanna, tækifæri þeirra og valkosti ásamt því að kynjamisrétti er samfélögum dýrkeypt. 18. grein þessara nýju laga er viðurkenning á því og að nauðsynlegt er að grípa til aðgerða til þess að tryggja að óbein mismunun eigi sér ekki stað heldur að ráðstöfun opinbers fjár hafi jákvæð áhrif á jafnrétti kynja. 

Ávinningurinn af kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð felst aðallega í fjórum þáttum. Í fyrsta lagi er stuðlað að jafnrétti. Í öðru lagi verða til mikilvægar upplýsingar með því að greina kynjaáhrif sem stuðla að upplýstari ákvarðanatöku. Í þriðja lagi leiðir kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð til betri nýtingar opinberra fjármuna. Í fjórða lagi fylgir kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð betri efnahagsstjórn þar sem ákvarðanir hins opinbera hafa áhrif á val og tækifæri einstaklinga.

Það er því mat Jafnréttisstofu að innleiðing kynjaðrar fjárlagagerðar í lögum um opinber fjármál sé áfangasigur í jafnréttisbaráttunni og eigi eftir að leiða okkur áfram til aukins jafnréttis kynja. 

Lögin má lesa hér.  

Hér má lesa Innleiðingaráætlun kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar 2015-2019.