Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga í Kópavogi

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga er haldinn árlega og er kjörinn vettvangur fyrir fólk sem vinnur að jafnréttismálum innan sveitarfélaga til að koma saman og ræða helstu þætti jafnréttisstarfsins og kynna sér hvað er efst á baugi í öðrum sveitarfélögum. Landsfundurinn er opinn fulltrúum í jafnréttisnefndum sveitarfélaga, en einnig eru velkomnir á fundinn fulltrúar þeirra sveitarstjórna sem ekki hafa skipað jafnréttisnefndir sem og starfmenn sveitarfélaganna.
Um fimmtíu fulltrúar hvaðanæva af landinu tóku þátt í fundinum í Kópavogi og fór setningarathöfn fram í Salnum.Guðrún Pálsdóttir bæjarstjóri setti fundinn en Erla Karlsdóttir formaður jafnréttis- og mannréttindaráðs bæjarins heiðraði fjórar konur úr sveitarfélaginu fyrir framlag þeirra til jafnréttismála. Það voru Þórunn Björnsdóttir kórstjóri, Svandís Skúladóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi, Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi, þingmaður og ráðherra og Margrét Friðriksdóttir, skólameistari MK. Gyða Hjartardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga flutti erindi um félagsþjónustu sveitarfélaga og Kristín Ástgeirsdóttir jafnréttisstýra ávarpaði fundinn.

Dagskrá fundarins var mjög spennandi en í ár var áhersla lögð á að útvíkka jafnréttishugtakið með erindum og umræðum um mikilvægi þess að sveitarfélög horfi til kyns, fötlunar, aldurs, kynþáttar, trúarbragða og kynhneigðar þegar ákvarðanir eru teknar um þjónustu við íbúa sveitarfélaga. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, doktorsnemi í kynjafræðum flutti erindi um fjölþætta mismunun og Helga Baldvins- og Bjargardóttir, verkefnastjóri hjá rannsóknarsetri í fötlunarfræðum flutti erindi um réttindi fatlaðs fólks og greindi frá nýjum mannréttindasáttmála SÞ um réttindi fatlaðra.

Glærur Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur 
Glærur Helgu Baldvins- og Bjargardóttur

Tryggvi Hallgrímsson, sérfræðingur á Jafnréttisstofu kynnti mælitækið jafnréttisvogina sem notað er til að setja fram upplýsingar um kynjajafnrétti innan sveitarfélaga en niðurstöður nýlegrar könnunar í sveitarfélögunum verða birtar á síðu jafnréttisvogarinnar í lok október n.k. Andrea Hjálmsdóttir félagsfræðingur greindi frá verkefni um áhrif Héðinsfjarðargangnanna á mannlíf í Fjallabyggð og vakti það margar spurningar.

Glærur Tryggva Hallgrímssonar

Sveitarfélögum ber skv. jafnréttislögum nr. 10/2008 að vinna eftir jafnréttis- og framkvæmdaáætlun og á landsfundinum gafst tækifæri til að fræðast um gerð aðgerðaáætlana. Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri hjá Reykjavíkurborg og Katrín Björg Ríkarðsdóttir, framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar Akureyrarbæjar gerðu grein fyrir gerð og eftirfylgni aðgerðaáætlana sinna sveitarfélaga sem nýttist öðrum fulltrúum sveitarfélaga vel og er hægt að leita til þessara sveitarfélaga og byggja á þeirra reynslu þegar kemur að gerð og eftirfylgni aðgerðaáætlana. Katrín kynnti sérstaklega aðgerðaráætlun Akureyrarbæjar gegn kynbundnu ofbeldi en hún er enn sú eina sinnar tegundar á landinu. Anna og Katrín Björg lögðu báðar áherslu á mikilvægi samstarfs og aðkomu sérfræðinga innan sveitarfélaga við gerð raunhæfra og virkra aðgerðaáætlana. 

Glærur Katrínar Bjargar Ríkarðsdóttur


Þórður Kristinsson framhaldsskólakennari í Kvennaskólanum í Reykjavík kynnti jafnréttisfræðsluáfanga í skólanum en þar er boðið upp á nám í kynjafræði í 3. og 4. bekk og hefur áfanginn verið mjög vel sóttur undanfarin ár. Skólum á öllum skólastigum ber skv. 23.gr. jafnréttislaga að fræða nemendur um jafnréttismál en einungis nokkrir framhaldsskólar hafa boðið upp á sérstaka kynjafræðiáfanga. Á undanförnum árum hefur komið út gott námsefni í jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum þ.á.m. Kynungabók sem ætti að reynast kennurum gott veganesti við jafnréttisfræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins. Kolbrún Þorsteinsdóttir, formaður fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar kynnti verkefni sem unglingar í Mosfellsbæ unnu í skólum bæjarins og kynntu á jafnréttisdegi sveitarfélagins árið 2010 en verkefni nemenda voru mjög fjölbreytt t.d. gerð stuttmynda, tónlistaflutningur, kannanir um jafnréttismál í sveitarfélaginu o.fl.

Glærur Þórðar Kristinssonar


Sveitarfélögin veita styrki til íþrótta- og tómstundastarfs en forsvarsfólki íþrótta- og tómstundastarfs ber samkvæmt jafnréttislögum að gæta kynjasjónarmiða og stuðla að jöfnum réttindum og tækifærum drengja og stúlkna innan sinna vébanda. Anna Sigríður Guðnadóttir fulltrúi jafnréttisnefndar íþróttafélagsins Aftureldingar gerði grein fyrir gerð jafnréttis- og aðgerðaáætlunar íþróttafélagsins en fyrsta verk nefndarinnar var að safna upplýsingum um iðkendafjölda, æfingatíma og fjölda æfinga eftir kyni og aldri, fjölda nýbúa meðal iðkenda og kynjaskiptingu þjálfara. Um þessar mundir er nefndin að stuðla að aukinni þátttöku nýbúa í íþróttastarfi félagsins og næsta verkefni nefndarinnar felst í að kanna hvort launajafnrétti sé viðhaft innan félagsins. Sveitarfélögin Reykjavíkurborg og Akureyrarbær hafa á undaförnum misserum leitað eftir upplýsingum frá íþróttafélögum um kyngreind gögn um þátttöku kynjanna, æfingatíma, æfingaaðstöðu o.fl. sem getur varpað ljósi á stöðu drengja og stúlkna lagt hefur verið til að sveitarfélögin skilyrði úthlutanir styrkja til félaganna við að þau séu með virka jafnréttisáætlun og aðgerðaráætlun til að jafna hlut kynjanna.

Glærur Önnu Sigríðar Guðnadóttur

Í lok landsfundarins var samþykkt ályktun þar sem sveitarfélög og Alþingi eru hvött til þess að tryggja jafnrétti kynjanna.

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, sagði m.a. í ávarpi sínu á fundinum að mörg sveitarfélög hefðu náð góðum árangri í því að draga úr kynbundnum launamun með starfsmati og úttektum á launakerfum. Öðru máli gegndi hins vegar um ríkisvaldið: „Af einhverjum ástæðum þverneitar ríkið að taka upp svipað verklag með þeim afleiðingum að kynbundnum launamun er viðhaldið,“ sagði hún meðal annars.



Ályktun landsfundarins í heild er svohljóðandi:


Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga haldinn í Kópavogi 9.-10. september 2011 minnir sveitarfélögin á að þeim er skylt að hafa virkar jafnréttis- og aðgerðaráætlanir. Einnig ber þeim að endurskoða þær reglulega.

Landsfundurinn hvetur einnig til þess að ólík staða kynjanna í atvinnu- og fjölskyldulífi verði höfð í huga við allar ákvarðanir bæði hvað varðar aðhaldsaðgerðir og aðgerðir til atvinnusköpunar.

Landsfundurinn brýnir fyrir sveitarfélögum landsins að vinna markvisst að því að útrýma kynbundnum launamun og hvetur þau til að standa vörð um það sem áunnist hefur.

Landsfundurinn hvetur sveitarfélögin til að setja sér aðgerðaráætlanir gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum.

Landsfundurinn brýnir auk þess fyrir íþrótta- og tómstundafélögum að vinna gegn mismunun og stuðla að fjölbreyttu tómstunda- og íþróttastarfi fyrir alla með og án keppnisáherslu.

Landsfundurinn minnir á að við gerð fjárhagsáætlana hjá sveitarfélögunum er mikilvægt að standa vörð um jafnréttis- og mannréttindamál þannig að lögum um þau mál sé framfylgt.

Landsfundurinn hvetur Alþingi til að setja sem allra fyrst lög sem tryggja réttindi ólíkra hópa og banna hvers kyns mismunun.