Landsfundur um jafnréttismál sveitarfélaga verður 4.-5. sept. 2019

Jafnréttisstofa í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Garðabæ boðar til landsfundar um jafnréttismál sveitarfélaga dagana 4.-5. september 2019.

Skyldur sveitarfélaga þegar kemur að jafnréttismálum eru miklar og snerta sveitarfélögin sem stjórnvald, vinnuveitendur og veitendur þjónustu. Landsfundurinn er því kjörinn vettvangur fyrir m.a. sveitarstjórnarfólk, fulltrúa í nefndum sem fara með jafnréttismál og starfsfólk sem hefur með málaflokkinn að gera til að hittast, fræðast og deila reynslu.

Fundurinn hefst miðvikudaginn 4. september kl. 13.00-16.30 og aftur fimmtudaginn 5. september kl. 9.00-14.30. Fyrri dagurinn verður í formi vinnustofa en sá síðari í hefðbundnara málþingsformi.

Nánari dagskrá og skráningu á fundinn er að finna hér.

Meðal umfjöllunarefna verða jafnréttisáætlanir, jöfn meðferð, jafnlaunavottun, kynferðisleg og kynbundin áreitni, kynjasamþætting og staðalmyndir.

Ötult starf í átt að jafnrétti er vinna í átt að réttlátari skiptingu á þeim gæðum sem sveitarstjórnir úthluta til íbúa sinna. Markviss vinna við gerð og innleiðingu raunhæfra jafnréttisáætlana getur því verið grunnurinn að góðu samfélagi.