Misræmi milli réttinda og raunveruleika

Í gær, fimmtudaginn 21. ágúst, flutti hugsjóna- og listhópurinn Barningur fyrirlestur um öryggi kvenna á íslenskum vinnumarkaði, með sérstaka áherslu á kynferðislega áreitni og óviðeigandi/særandi framkomu í garð kvenna sem vinna þjónustustörf. Fyrirlesarar voru þau Aron Freyr Heimisson, Elín Inga Bragadóttir og Margrét Helga Erlingsdóttir.
Efni fyrirlestrar byggði á frásögnum sem hafa safnast á facebokk-síðu hópsins sem ber heitið kynlegar athugasemdir. Framtakinu er ætlað að varpa ljósi á misrétti sem fólk verður fyrir vegna kyns, kynferðis eða kynhneigðar.

Í frásögnum sem voru ræddar er áberandi hvernig starfsfólk í þjónustustörfum upplifir óöryggi gagnvart áreitni viðskiptavina sem telja sig, vegna kaupa þeirra á þjónustu, hafa rétt til að sýna ógnandi, fjandsamlega, niðurlægjandi, móðgandi og auðmýkjandi hegðun. Í þessu sambandi gangrýndu fyrirlesarar þá viðteknu skoðun að „kúnninn hafi alltaf rétt fyrir sér“ og benda á að það hljóti að teljast óásættanlegt að ógnandi hegðun kúnna gagnvart starfsfólki sé látin viðgangast á íslenskum vinnumarkaði.

Margar frásagnir bera einnig með sér óöryggi starfsfólks gagnvart vinnuveitendum sínum sem án skýringa flytur fólk til í starfi, breytir vöktum eða, eins og dæmi sýna, segja starfsfólki upp störfum þegar athugasemdum vegna ýmiskonar mismununar er komið á framfæri.

Í fyrirlestrinum var fjallað um drög að reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað, sem birt var til umsagnar á vef velferðarráðuneytisins í apríl 2013. Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að gagnkvæmri virðingu á vinnustöðum, svo sem með því að auka vitund og skilning á að einelti, kynferðisleg áreitni og ofbeldi er hegðun sem er óheimil og óásættanleg. 

Reglugerðin, sem ætlað er að setja nánari fyrirmæli um ákvæði vinnuverndarlaga, hefur ekki ennþá verið birt. Reglugerðin var unnin af starfshópi sem skipaður var í september 2011 með vísan í aðgerðaáætlun stjórnvalda um aðgerðir gegn einelti frá árinu 2010.