Öndvegissetur í jafnréttis- og margbreytileikarannsóknum

Stjórn Rannsóknasjóðs Rannís hefur úthlutað styrkjum úr nýrri markáætlun Vísinda- og tækniráðs. Um er að ræða stærstu styrki sem veittir hafa verið hér á landi og eru þeir allir til sjö ára. Meðal verkefnanna sem hlutu styrk að þessu sinni er Öndvegissetur í jafnréttis- og margbreytileikarannsóknum.

Verkefnastjóri Öndvegissetursins er Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafærðum við Háskóla Íslands. Þetta er eitt stærsta verkefni á sviði jafnréttis- og kynjafærða sem ráðist hefur verið í á Íslandi og kemur til með að hafa mikil áhrif þegar fram líða stundir. Nánari lýsing á verkefninu er hér að neðan:

Rannsóknir setursins hvíla á þremur megin stoðum:
1) Saga, samfélag, menning
2) Atvinnulíf og auðlindir
3) Alþjóðasamskipti og þróunarsamvinna

Jafnréttismál eru snar þáttur í sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar og ímynd hennar út á við. Sú sérþekking sem hér hefur skapast á sviði jafnréttismála á erindi við umheiminn og er víða horft til hins svokallaða „íslenska líkans“ sem dæmi um frumlegt, djarft og skilvirkt jafnréttisstarf.

Á fyrsta áherslusviði klasans er staða sérfræðiþekkingar sterk en örar samfélagsbreytingar kalla á frekari útvíkkun og þróun jafnréttislíkansins. Með hliðsjón af hinum tveimur meginsviðum verkefnisins verður hið íslenska líkan rannsakað í tengslum við atvinnulíf og auðlindamál, annars vegar, og hins vegar í tengslum við nýjar áherslur í alþjóðasamstarfi og þróunarsamvinnu Íslendinga.

Fyrirhugað er að þetta þriðja rannsóknasvið klasans geti orðið fræðilegur bakhjarl fyrir Jafnréttisskóla sem stofnaður var í desember síðast liðinn og verður sótt um að verði “Jafnréttisskóli Sameinuðu þjóðanna.” Rannsóknaklasinn verður vettvangur fyrir samstarf fræðimanna, rannsóknastofnana, stofnana, stjórnvalda og fyrirtækja, hérlendis og erlendis. Með klasanum er stefnt að því að Ísland verði í fararbroddi í rannsóknum, nýsköpun og starfi á þeim sviðum jafnréttismála sem Íslendingar eru sterkastir á og njóta trúverðugleika fyrir. Klasanum verður einnig ætlað að stuðla að þróun nýrra leiða til árangurs í málaflokknum.

Með tilkomu öndvegisklasans verður íslenskt samfélag enn virkari og samhæfðari „rannsóknar- og tilraunastofa“ á sviði jafnréttismála. Öndvegisklasanum er ætlað að þróa hið íslenska líkan í jafnréttismálum til þess að það verði betur í stakk búið til að mæta áskorunum aukinnar alþjóðavæðingar efnahagslífsins, fjölmenningarsamfélags, breyttri aldurssamsetningar þjóðarinnar, og halda þannig forskoti í krafti fjölbreytileika.