Stofnun alþjóðlegs jafnréttisseturs og jafnréttisskóla við HÍ

Utanríkisráðuneytið og Háskóli Íslands skrifuðu undir samstarfsyfirlýsingu um stofnun alþjóðlegs jafnréttisseturs og jafnréttisskóla þann 19. júní síðastliðinn. Í alþjóðlegu samstarfi hafa Íslendingar leitast við að leggja af mörkum sérþekkingu og reynslu sem þeir hafa aflað sér, einkum á sviði sjávarútvegs og nýtingar jarðhita. Utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur ítrekað lýst því yfir að undanförnu að jafnréttismálin eigi að vera þriðja stoðin í íslenskri þróunarsamvinnu og alþjóðapólitík.

Á ráðstefnu RIKK í nóvember 2007 lýsti utanríkisráðherra því þannig að skynsamleg nýting auðlinda sjávar og jarðvarma ásamt virkjun kvenorkunnar hefðu skipt sköpum fyrir framgang íslensks samfélags og væru jafnframt megináhersluatriði íslenskrar þróunarsamvinnu. Á ráðstefnu RIKK voru settar fram hugmyndir um stofnun alþjóðlegs jafnréttisseturs og jafnréttisskóla við Háskóla Ísland (HÍ) til þess að renna stoðum undir nýjar áherslur Íslands í alþjóðlegu samstarfi.

Hugmyndin er að jafnréttisskólinn verði þróaður að fyrirmynd jarðhitaskóla og sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna (SÞ) hér á landi sem hafa verið starfræktir með góðum árangri um árabil í samstarfi við HÍ. Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) við HÍ setti síðan á laggirnar undirbúningshóp sérfræðinga á sviði jafnréttismála til að vinna þessum hugmyndum um jafnréttissetur og -skóla brautargengi. Utanríkisráðuneytið og Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, veittu styrki til að ráða verkefnisstjóra sem hóf störf í janúar sl.

Jafnréttisskólinn verður stofnaður formlega á ráðstefnu í nóvember næstkomandi. Við sama tækifæri verður stofnað nýtt rannsóknasetur í jafnréttis, kynja og margbreytileikafræðum við Háskóla Íslands í þeim tilgangi að styðja og styrkja starfsemi skólans. Jafnréttisskólinn verður vistaður hjá setrinu. Áherslusvið setursins verða tvö. Í fyrsta lagi verður Rannsóknastofa H.Í. kvenna- og kynjafræðum (RIKK) hluti af hinu nýja rannsóknasetri en RIKK hefur verið leiðandi sviði jafnréttis- og kynjarannsókna hér á landi frá stofnun árið 1991. Rannsóknir og þekkingarmiðlun á íslenska módelinu mun falla undir þetta starfssvið jafnréttisetursins. Í öðru lagi verður lögð áhersla á jafnréttismál í tengslum við þróunarsamvinnu og uppbyggingu jafnréttisstarfs á fyrrum átakasvæðum, auk rannsókna og kennslu í samþættingu jafnréttissjónarmiða á sviðum umhverfis- og auðlindamála.

Meginmarkmið skólans verður að skipuleggja og bjóða upp á nám og þjálfun sem miðast við að auka getu stofnanna og einstaklinga sem koma að uppbyggingu og framkvæmd jafnréttisstarfs í þróunarlöndum og á fyrrum átakasvæðum, auk þess að vera vettvangur fyrir yfirfærslu þekkingar og reynslu af jafnréttisstarfi á Íslandi. Jafnréttisskólinn mun í senn bjóða upp á námskeið og þjálfun hérlendis og erlendis. Stuðningur við rannsóknir, þekkingaröflun og yfirfærslu þekkingar á sviði jafnréttismála mun taka mið af því sem hefur verið gert í sjávarútvegs- og jarðhitageiranum sem eru hinar meginstoðir í opinberri þróunarsamvinnu Íslands. Leitast verður við að koma á samstarfi og samstarfsverkefnum við Landgræðsluskólann, Jarðhitaskólann og Sjávarútvegsskólann en slíkt samstarf hefði í för með sér einstakt tækifæri til að rannsaka og þróa aðferðir til samþættingar jafnréttissjónarmiða við auðlindanýtingu. Slíkt samstarf felur í sér samþættingu kynjasjónarmiða í meginstoðirnar í þróunarsamvinnu Íslands og kemur þannig til móts við nýlegar yfirlýsingar utanríkisráðherra um að kynjasjónamið verði nú samþætt með markvissari hætti í þróunarverkefni í öllum geirum.

Sjá nánar um jafnréttissetrið á vefsíðu RIKK.