Upplýsingar um ESB og jafnréttismál á heimasíðu Jafnréttisstofu

Jafnréttisstofa hefur tekið saman yfirlit um jafnrétti kynjanna og Evrópusambandið. Í samantektinni er að finna upplýsingar um helstu áherslur Evrópusambandsins, stöðu jafnréttismála innan ESB, lagaramma ESB í jafnréttismálum, stofnanir og sjóði. Einnig er að finna upplýsingar um íslensk Evrópuverkefni og tilskipanir ESB sem Ísland hefur innleitt.Jafnrétti kynjanna er eitt af grundvallargildum Evrópusambandsins og töluverðum árangri hefur verið náð í jafnréttismálum innan ESB á undanförnum áratugum. Þessu má helst þakka: löggjöf um jafnan rétt, samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða, sérstökum aðgerðum til að stuðla að framgöngu kvenna og niðurstöðum í dómsmálum sem geta haft áhrif hér á landi. Núgildandi framkvæmdaáætlun Evrópusambandsins um kynjajafnrétti (e. Strategy for equality between women and men) gildir fyrir tímabilið 2010-2015 en hún skuldbindur framkvæmdastjórn ESB til að koma kynjafnrétti að í öllum stefnumálum og ná þannig árangri í ákveðnum forgangsmálum.

Samantektina er hægt að finna á heimasíðu Jafnréttisstofu undir Málaflokkum og ESB og jafnrétti kynjanna.