Viðskiptaráðherra útilokar ekki lögbundna kynjakvóta

Á fundi sem Félag kvenna í atvinnurekstri (FKA) og LeiðtogaAuður boðuðu til í dag ræddi Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra  árangur norsku leiðinnar í að hækka hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja. Hann telur að ef kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja helst óbreytt þarf alvarlega að íhuga kunjakvóta. Æskilegt er að fyrirtækin sýni frumkvæði og jafni hlutföllin sjálf, en hann útilokar ekki afskipti lögjafans ef annað virkar ekki.

Norska leiðin vísar í lög um að stjórnir hlutafélaga í Noregi skulu hafa minnst 40% að hvoru kyni innanborðs. Nú eru 42% stjórnarmeðlima í norskum hlutafélögum konur, sem er langhæsta hlutfall í heiminum. Björgvin sagði, að áður en gripið yrði til slíkra leiða myndi ráðuneytið beita sér fyrir virkri umræðu til að skapa þrýsting á fyrirtæki til að jafna stöðu kynjanna í stjórnum. Fyrirtæki gætu ekki sniðgengið þessa sjálfsögðu kröfu, þau yrðu að bregðast hratt við því það eina sem væri viðunandi væri gagnger breyting á næstu tveimur árum.

Staðan á Íslandi – mikilvægt að hið opinbera sýni gott fordæmi
Á fundinum voru kynntar ýmsar niðurstöður um stöðu kvenna í fyrirtækjum. Aðeins eru 8% stjórnarsæta 100 stærstu fyrirtækja landsins skipuð konum og aðeins þrír af hundrað stjórnarformönnum eru konur. Auk þess hallar talsvert á konur í stjórnum lífeyrissjóða, t.d. eru aðeins 11% stjórnarmeðlima í Almenna lífeyrissjóðinum konur og aðeins 20% í Íslenska lífeyrissjóðnum. Athygli var vakin á niðurstöðum CreditInfo sem sýnir að fyrirtæki með konur innan stjórnar lenda mun síður í vanskilum en fyrirtæki án kvenna í stjórn. Auk þess sé margviðurkennt óhagræði fólgið í því að útiloka konur, helming mannauðsins, frá viðskiptalífinu.

Þá hallar enn talsvert á konur í ráðuneytum og nefndum ríkisins. Í umræðum að loknu erindi ráðherra var kallað eftir aðgerðaáætlun frá ráðherra og því að ríkið gengi fyrir með góðu fordæmi við skipanir í nefndir og störf. Þá gætu konur haft mikil áhrif með því að beina viðskiptum sínum til fyrirtækja með jafnara hlutfall. Ekki voru allir fundargestir sáttir með kynjakvóta og voru sumir mótfallnir þvingunum af því tagi.