Góður og gagnlegur landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga 2013

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga fór fram á Hvolsvelli 27. september sl. Dagskrá fundarins var mjög áhugaverð og fjölbreytt en 37 fulltrúar sveitarfélaga tóku þátt í landsfundinum að þessu sinni.
Almenn ánægja var með fundinn og mikil samstaða um brýnustu mál framundan. Rík áhersla var meðal þátttakenda á mikilvægi þess að jafnréttisfulltrúar væru ráðnir til að vinna að jafnréttismálum innan sveitarfélaga en á síðustu árum hafa jafnréttismálin gjarnan verið færð til mannauðs- og félagsmálastjóra og vilja þau því týnast vegna anna og álags í þeim störfum. Sú tillaga kom fram að  starfshlutfall  jafnréttisfulltrúa verði í beinu samræmi við íbúafjölda sveitarfélaga.  Fulltrúar sveitarfélaga fjölluðu einnig um mikilvægi sveigjanleika á vinnustöðum til að stuðla að aukinni samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og mikilvægi þess að í sveitarstjórnum sitji bæði konur og karlar sem endurspegla það samfélag sem þau starfa fyrir.Í upphafi fundar bauð Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri landsfundargesti velkomna og kynnti helstu starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu flutti því næst erindi um stöðu jafnréttismála með áherslu á skyldur og ábyrgð sveitarfélaga. Kristín benti á að sveitafélög gegna lykilhlutverki í allri nærþjónustu og ættu að nýta sér það þegar kemur að jafnrétti á vinnustöðum og þjónustu við íbúa. Kristín fjallaði um komandi sveitarstjórnarkosningar og mikilvægi þess að stjórnmálaflokkar verði hvattir til að setja fram fléttulista. Hún benti á að jafnréttismál væru byggðamál og byggðamál væru jafnréttismál og því sé nauðsynlegt að gæta að brottflutningi og aðgerðum í atvinnumálum í hinum smærri og dreifðari byggðum. Erindi Kristínar "Engin hornkerling vil ég vera" birtist sem grein á heimasíðu Jafnréttisstofu.

Elín Gróa Karlsdóttir, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Byggðastofnunar kynnti hlutverk stofnunarinnar sem er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Stofnunin undirbýr, skipuleggur og fjármagnar verkefni og veitir lán með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Eins og öðrum opinberum stofnunum ber Byggðastofnun að samþætta kynjasjónarmið inn í alla sína stefnumótun, aðgerðir og lána- og styrkveitingar. Elín Gróa lagði ríka áherslu á að byggðamál væru jafnréttismál og vísaði til íslenskra og annarra norrænna rannsókna sem sýna fram á að brottflutningur kvenna af landsbyggðunum hefur aukist sem hefur þau áhrif að mörg samfélög geta ekki viðhaldið sér, samfélögin falla þar með saman innan frá. Byggðastofnun hefur áhyggjur af þessari þróun og hefur sett sér ákveðin markmið sem eiga m.a. að tryggja jafnrétti kynjanna að því sem snýr að byggðaþróun  og atvinnulífi á landsbyggðunum og gera kynjaáhrif sýnileg þannig að hægt sé að upplýsa stjórnvöld um stöðu kynja víða um land. Byggðastofnun vill fjölga fyrirtækjum sem eru a.m.k. 50% í eigu kvenna sem viðskiptavina hjá Byggðastofnun, auka fjölbreytni í atvinnulífinu á landsbyggðinni og fjölga störfum á landsbyggðinni með þarfir kvenna í huga. Elín benti á ákveðna kynjaskekkju þegar kynin sækja um styrki og lán til atvinnuuppbyggingar en karlar sækja um mun hærri styrki og lán en konur. Konur eru yfirleitt að setja á stofn ódýrari starfsemi en karlar eða sækja frekar til vina og ættingja eftir aukafjármagni fremur en að taka há lán. Byggðastofnun mun á næstunni breyta umsóknareyðublöðum um lán þar sem farið verður fram á að gerð sé grein fyrir því hvernig störf sem skapast hafa áhrif á kynskiptan vinnumarkað.
Glærur Elínar Gróu

Árný Lára Karvelsdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings eystra kynnti nýtt verkefni sem sveitarfélagið hefur unnið að sem miðar að því að auðvelda íbúum af erlendum uppruna aðlögun að samfélaginu. Árið 2013 voru innflytjendur tæplega 11% íbúa og þótti því nauðsynlegt að veita ákveðna þjónustu fyrir þá. Mikilvægt þótti að fólk af erlendum uppruna þekkti réttindi sín og hefði tækifæri til að sækja þjónustu eða ráðgjöf um sín mál til starfsmanns sveitarfélagsins. Verkefnastjóri var ráðinn sem er kona af pólskum uppruna og það hefur sýnt sig að þörfin var brýn þar sem hún hefur fengið fjölda heimsókna og fyrirspurna og eru innflytjendur nú sýnilegri í samfélaginu en áður. 
Glærur Árnýjar Láru

Arnfríður Aðalsteinsdóttir, verkefnastjóri á Jafnréttisstofu gerði í sínu erindi grein fyrir starfi vinnuhóps um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra skipaði í samstarfi við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu haustið 2012. Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra fylgir verkefninu nú eftir.
Í vinnuhópnum sátu fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna, Kvenréttindafélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands og Femínistafélagi Íslands.
Vinnuhópurinn hefur skilað tillögum til ráðherra um vænlegar aðgerðir til að auðvelda samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Hópurinn hefur þar að auki staðið fyrir ráðstefnum, stutt við rannsókn á samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og stutt gerð fræðslumyndbands sem Arnfríður frumsýndi á landsfundinum. 
Glærur Arnfríðar Aðalsteinsdóttur

Vilhjálmur Kári Haraldsson, mannauðsstjóri í Garðabæ, flutti erindi sem hann nefndi „Sveitarfélag sem vinnur að samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs“. Vilhjálmur Kári sagði frá hvernig Garðabær skipuleggur þjónustu sína út frá velferð og aðstæðum fjölskyldna. Markmið bæjarins er að stofnanir bæjarins starfi í samvinnu við fjölskylduna og taki mið af ábyrgð foreldra á börnum sínum. Garðabær leggur mikla áherslu á val foreldra þegar kemur að dagvistun barna með því að bjóða háar niðurgreiðslur og gæta að því að dagforeldrar hækki ekki verðskrá sína sem því nemur. Í Garðabæ er að auki rekinn ungbarnaleikskóli og börn eru tekin inn á leikskóla eigi síðar en 18 mánaða og stundum fyrr. Í Garðabæ er samræmt skóladagatal og eru vetrarfrí, skipulagsdagar starfsmanna o.fl. samræmt á milli skóla. Garðabær veitir ungmennum á aldrinum 5-18 ára svokallaða hvatapeninga: 27.500 krónur á barn. Hvatapeningana er hægt að nýta til að lækka kostnað við skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf sem nær yfir 10 vikur að lágmarki. Að lokum sagði Vilhjálmur Kári frá þjónustu sem bærinn er að veita ungmennum og fjölskyldum þeirra sem felst í að strætó keyrir nemendur frá tómstundaheimilum grunnskóla í íþrótta- og tómstundastarf. 
Glærur Vilhjálms Kára Haraldssonar

Lovísa Lilliendahl, verkefnastjóri Suðurnesjavaktarinnar flutti erindi um árvekniverkefni gegn heimilisofbeldi á Suðurnesjum en þar hafa sveitarfélög og lögreglan tekið höndum saman og mótað aðgerðir þegar kemur að ofbeldi í nánum samböndum. 
Aðdragandinn að verkefninu var skýrsla ráðherra frá 2011 en hún sýndi að á Suðurnesjum höfðu 23% kvenna sætt ofbeldi í nánum samböndum. Þegar staðan var skoðuð fyrir eitt ár kom i ljós að 4% kvenna höfðu orðið fyrir ofbeldi á Suðurnesjum en það var töluvert hærra hlutfall en í öðrum landshlutum. Því var ákveðið að setja af stað árvekniverkefni gegn heimilisofbeldi. 
Vinnuhópurinn setti fram aðgerðaráætlun sem var kynnt fyrir sveitarstjórnum á svæðinu. Áætlunin fólst m.a. í að gefa út fræðslubækling þar sem þjónusta fyrir brotaþola er gerð sýnileg og lögð áhersla á að heimilisofbeldi á Suðurnesjum sé litið alvarlegum augum. Meginmarkmið verkefnisins er að koma í veg fyrir fleiri brot, koma til móts við brotaþola og gerendur og nýta öll möguleg úrræði. Samstarfsverkefni lögreglunnar og félagsþjónustu á svæðinu hefur í kjölfarið náð töluverðum árangri.  
Á þessu ári er búið að skrá 38 mál og rannsóknum á ofbeldismálum er nú ekki hætt eins snemma og áður. Verkefnið hefur líka sýnt að ýmsu er ábótavant í tengslum við ofbeldismál. Það vantar t.d. sérhæfð úrræði fyrir börn og eftirfylgni fyrir þau og frekari stuðning við gerendur.
Lovísa vonar að verkefnið verði öðrum sveitarfélögum hvatning til svipaðra vinnubragða í málum sem varða ofbeldi í nánum samböndum.

Landsfundir jafnréttisnefnda hafa það hlutverk að sameina þá fulltrúa sem starfa að jafnréttismálum og gefa þeim tækifæri til að ræða saman og skiptast á skoðunum og/eða reynslu af jafnréttisstarfi. Vinnulotur eru því mikilvægar og skila ýmsum niðurstöðum um þá þætti sem fulltrúar telja mikilvæga fyrir jafnréttisstarf.
Á landsfundinum á Hvolsvelli brunnu mörg mikilvæg mál á fólki sem komu fram í samræðum í vinnuhópum. Fulltrúarnir vilja m.a. gera jafnréttismál mun sýnilegri í sveitarfélögum en það kom fram að sveitarfélög hafa farið ýmsar leiðir í þeim efnum. Þær leiðir sem hafa reynst ágætlega eru t.d. sérstakar jafnréttisviðurkenningar, fræðsla um jafnréttismál og skyldur sveitarfélaga. Einnig hefur opinber stefna þar sem lögð er áhersla á mikilvægi samræmingar fjölskyldu- og atvinnulífs þar sem tekið er tillit til umönnunar aldraðra foreldra eða ættingja vakið jákvæð viðbrögð heima fyrir og hvatt til umræðu um þau mál. Í vinnulotunni komu einnig fram hugmyndir um stofnun tengslanets sveitarfélaga í jafnréttismálum og mikilvægi þess að sveitarfélög taki saman kyngreind gögn. Einnig varð töluverð umræða um íþróttafélög og hvernig sveitarfélög geta verið leiðandi í því að skilyrða fjárveitingar eftir því hvernig þau standa sig í jafnréttismálum. Einnig kom fram mjög sterk krafa um að lögbinda að jafnréttisfulltrúar séu starfandi í sveitarfélögunum.

Undir lok fundarins flutti Eygló Harðardóttir ávarp og hvatti hún fulltrúa sveitarfélaga til að standa vörð um jafnrétti kynjanna þrátt fyrir mörg aðkallandi störf. Hún benti á mikilvægi þess að sveitarfélög skapi þann sveigjanleika sem þarf til að starfsfólk og aðrir íbúar sveitarfélaganna geti sem best samræmt fjölskyldu- og atvinnulíf.