Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga á Fljótsdalshéraði

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga fór fram á Egilsstöðum þann 13. október sl. Dagskrá fundarins var áhugaverð og voru tæplega 30 fulltrúar sveitarfélaga mættir til að taka þátt í fundinum. Á undanförnum árum hafa landsfundir jafnréttisnefnda farið fram í ýmsum landshlutum til að létta fólki víða um land sporin á landsfundina en að ári verður landsfundur í fyrsta sinn haldinn á Norðurlandi vestra nánar tiltekið á Hvammstanga í Húnaþingi vestra. Almenn ánægja var með fundinn á Egilsstöðum, mikill kraftur í fólki og mikil samstaða um brýnustu mál framundan. Rík áhersla var meðal þátttakenda á mikilvægi þess að jafnréttisfulltrúar væru ráðnir til að vinna að jafnréttismálum innan sveitarfélaga þannig að unnt verði að fara að jafnréttislögum. Á síðustu árum hafa jafnréttismálin gjarnan verið færð til mannauðs- og félagsmálastjóra og vilja þau því týnast vegna anna og álags í þeim störfum. Fulltrúar sveitarfélaga bentu á mikilvægi þess að aðgerðabundnum jafnréttisáætlunum fylgi fjármagn og pólitískur vilji en samkvæmt lögunum eiga allar ákvarðanir sveitarfélaga og öll stefnumótun að taka mið af báðum kynjum og því nauðsynlegt að allar nefndir og ráð ræði jafnréttisvinkil mála sem eru á dagskrá hverju sinni.

Dagskrá landsfundarins var öllum opin fyrir hádegi en eftir hádegi fór fram vinnulota þar sem þátttakendur ræddu mögulegar aðgerðir og áherslur tengdar jafnréttisstarfi í sveitarfélögum þ.á.m. virkar jafnréttisáætlanir, þátttöku stjórnsýslunnar við að ná jafnréttismarkmiðum sveitarfélaga og aðgerðir og úrræði sveitarfélaga vegna heimilisofbeldis.

Fulltrúi Velferðaráðuneytis á fundinum var Rósa Erlingsdóttir, sérfræðingur í jafnréttismálum en hún sagði frá helstu verkefnum ráðuneytisins í jafnréttismálum og störfum aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti.  Meðal verkefna aðgerðahóps um launajafnrétti er að vinna að samræmingu rannsókna á kynbundnum launamun, framkvæma tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals, annast gerð áætlunar um kynningu og innleiðingu jafnlaunastaðalsins, standa fyrir sérstöku kynningarátaki og ráðgjöf í fyrirtækjum og stofnunum gegn kynbundnum launamun og gefa út kynningarefni um markvissar aðgerðir til að draga úr launamisrétti.

Saman gegn ofbeldi – Hlutverk sveitarfélaga

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu flutti erindið: Saman gegn ofbeldi – Hlutverk sveitarfélaga. Í kjölfar vel heppnaðs tilraunaverkefnis sem Alda Hrönn tók þátt í á Suðurnesjunum 2013-2014 sem fólst í samstarfi allra aðila sem koma að heimilisofbeldismálum í sveitarfélaginu var Alda Hrönn ráðinn í sambærilegt verkefni hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu nýlega. Í erindi sínu á landsfundinum kynnti hún verkefnið sem felst í að innleiða nýjar verklagsreglur varðandi heimilisofbeldi ásamt stefnubreytingum um mansal og vændi og í útlendingamálum. Í meginatriðum snýst verkefnið um aukið samstarf við félagsþjónustuna að þegar lögreglan er kölluð á vettvang vegna heimilisofbeldis þá kemur starfsmaður félagsþjónustunnar á vettvang. Þetta verklag auðveldar alla rannsókn á vettvangi og t.d. eru nú teknar myndir á vettvangi af áverkum þolandans. Fórnarlambið hefur að sjálfsögðu alltaf ákvörðunarvald um það hvort það vill leggja fram kæru en það er alveg ljóst að það er auðveldara fyrir fórnarlambið að fara í fylgd starfsmanns félagsþjónustunnar á bráðamóttöku heldur en í lögreglufylgd. Helsti ávinningur af verkefninu á Suðurnesjum var ákveðin vitundarvakning og breytt viðhorf til ofbeldismála, aukin yfirsýn og þekking í þessum málaflokki sem leiddi til bættrar þjónustu, aukið og bætt samstarf félagsþjónustu/barnaverndar, lögreglu og heilbrigðisstofnunar. Mál sem eru kærð hafa í kjölfar verkefnisins náð lengra í réttarkerfinu en áður og fleiri dómar felldir og nú eru úrræði fyrir aðila betur nýtt en áður þannig að bæði þolendur og gerendur fá aðstoð.
Glærur Öldu Hrannar

Jafnlaunastaðall - Gagnlegt verkfæri?

Maríanna Traustadóttir, sérfræðingur hjá ASÍ og fulltrúi í aðgerðahópi stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins til þess að vinna að launajafnrétti kynjanna flutti erindið: Jafnlaunastaðall - Gagnlegt verkfæri? Þar sem hún kynnti jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012. Maríanna ræddi forsögu staðalsins og helstu forsendur og kröfur fyrir innleiðingu jafnlaunakerfis. Með innleiðingu staðalsins taka fyrirtæki og stofnanir upp skipulagðar aðferðir til að vinna að því að tryggja jöfn kjör kvenna og karla fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Maríanna benti m.a. á að með staðlinum séu gerðar tvær mikilvægar kröfur: Að fyrirtæki og stofnanir skilgreini hve verðmæt störfin eru og hafi fyrirfram ákveðnar reglur um hvað geti verið til launahækkunar. Þannig verði mögulegt að koma í veg fyrir tilviljunarkenndar ákvarðanir. Með jafnlaunastaðlinum verður einnig mögulegt að tryggja að hægt sé að meta ólík störf innan sama fyrirtækis eða stofnunar sem jafnverðmæt. Maríanna ræddi innleiðingaferli kröfustaðalsins, helstu kröfur til vottunaraðila og kynnti jafnlaunamerkið sem fyrirtæki og stofnanir fá sem vottun um launajafnrétti á vinnustað. Glærur Maríönnu

Jafnréttisáætlanir, hvers vegna og hvað svo?

Arnfríður Aðalsteinsdóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, var með erindi sem hún nefndi Jafnréttisáætlanir, hvers vegna og hvað svo? Þar fór hún yfir skyldur sveitarfélaga og hlutverk jafnréttisnefnda með vísan í lög nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Arnfríður sagði frá því að innköllun jafnréttisáætlana leik-, grunn og tónlistarskólum væri að ljúka og hefðu t.d. 96% grunnskóla skilað áætlunum og eða umbeðnum gögnum til Jafnréttisstofu. Hún fór síðan yfir niðurstöður MA ritgerðar sinnar þar sem fram kom að þrátt fyrir að jafnréttisáætlanir skólanna séu vel unnar og vandaðar virðast þær máttlitlar þegar kemur að framkvæmd. Áætlanirnar einar og sér duga ekki til að skólarnir uppfylli lagalegar skyldur sínar. Ef áhugi, vilji og jákvæð viðhorf stjórnenda og starfsfólks til kynjajafnréttis eru ekki til staðar komast jafnréttismálin ekki á dagskrá.
Glærur Arnfríðar

Heilsa, líðan og starfstengd viðhorf starfsfólks sveitarfélaga í kjölfar efnahagsþrenginga

Hjördís Sigursteinsdóttir, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri flutti erindið: Heilsa, líðan og starfstengd viðhorf starfsfólks sveitarfélaga í kjölfar efnahagsþrenginga sem byggir á rannsókn hennar til nokkurra ára. Niðurstöður Hjördísar sýnir að í kjölfar efnahagskreppunnar hér á landi hafi veikindafjarvistum meðal starfsfólks sveitarfélaga fjölgað verulega.
Niðurstöðurnar leiddu meðal annars í ljós að í mörgum grunn- og leikskólum, hefðbundnum kvennavinnustöðum, hefur starfsfólki verið sagt upp og starfsöryggi minnkað. Tengsl eru á milli óöryggis í starfi og slæmrar heilsu starfsfólksins. Skert starfsöryggi hafði marktæk tengsl við löngun starfsfólks til að skipta um starfsvettvang og við versnandi heilsufar. Tengslin voru sterkari á milli óöryggis og slæmrar andlegrar heilsu en á milli óöryggis og slæmrar líkamlegrar heilsu.
Í viðtölum sem voru tekin við starfsfólk tveggja sveitarfélaga kemur fram að fyrir kreppuna hafi varla nokkur einstaklingur verið frá vinnu vegna eigin veikinda; allir unnu sem teymi og mættu undantekningarlítið til vinnu. Eftir kreppuna hafi hins vegar starfsfólk farið að taka sér veikindaleyfi, einkum vegna minni starfsánægju, aukins álags og langtíma streitu. Viðmælendur bentu jafnframt á að fjölgun veikindafjarvista hefði í för með ákveðinn vítahring því það leiddi til aukins álags á þá sem mættu til vinnu. Í viðtölunum kemur fram að aukið álag hefði í för með sér að ekki væri lengur hægt að taka dag og dag frí til að sinna öðrum erindum. Í kjölfar kreppunnar hefði starfsfólk engin önnur
úrræði en að skrá sig veikt. Aukið álag, fyrst og fremst vegna fækkunar starfsfólks, hefur
þannig tekið sinn toll.
Glærur Hjördísar

Landsfundir jafnréttisnefnda hafa það hlutverk að sameina þá fulltrúa sem starfa að jafnréttismálum og gefa þeim tækifæri til að ræða saman og skiptast á skoðunum og/eða reynslu af jafnréttisstarfi. Vinnulotur fundarins eru því mikilvægar og skila ýmsum niðurstöðum um þá þætti sem fulltrúar telja mikilvæga fyrir jafnréttisstarf.

Á landsfundinum á Egilsstöðum brunnu mörg mikilvæg mál á fólki sem komu fram í samræðum í vinnuhópum. Fulltrúarnir vilja m.a. gera jafnréttismál mun sýnilegri í sveitarfélögum, skylda fulltrúa sveitarfélaga til að mæta á landsfundi, fá Innanríkisráðuneytið og Samtök íslenskra sveitarfélaga meira að borðinu og veita sérstaklega fé til landsfunda til að gera þá veglegri. Einnig var lögð rík áhersla á að vinnulag Suðurnesjavaktarinnar í heimils ofbeldismálum yrði tekið upp af sveitarstjórnum og aðlagað sérstaklega að minni sveitarfélögunum. 


Ályktanir landsfundar

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga:

•skorar á sveitarstjórnir að láta jafnréttismálin ekki líða fyrir hagræðingu og fjárhagslegar þrengingar
•skorar á sveitarstjórnir að beita verkfærum kynjaðrar fjárhagsáætlunargerðar. 
•hvetur sveitarstjórnir til að leggja áherslu á jafnréttis- og hinsegin fræðslu og alhliða fræðslu um mannréttindi  sem er nauðsynlegur liður í því að uppræta staðalmyndir og fordóma. 
•hvetur sveitarfélög til að nýta sér þær leiðir sem hafa sannað sig til að taka á heimilisofbeldi og kynbundnu ofbeldi. 
•hvetur fleiri til að koma að skipulagningu landsfunda, t.d. Innanríkisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga, til að gera þá veglegri og stærri.
•hvetur sveitarfélög til að beita sér fyrir því að jafna hlutfall kynjanna á sínum starfstöðvum og geri áætlanir um jafna kynjaskiptingu á vinnumarkaði.
•harmar hversu fá sveitafélög sáu sér fært að mæta á landsfundinn.
•hvetur sveitarfélög til að setja fjármagn í að fylgja eftir aðgerðabundnum jafnréttisáætlunum.
•hvetur sveitarfélög til að auðvelda ferðir starfsfólks/fulltrúa til að sækja sér mikilvæga þekkingu á landsfundum.