Gildissvið jafnréttislöggjafar

 Kynja- og jafnréttissjónarmið:

 Við hönnun og birtingu auglýsinga

Sækja pdf

Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 og lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar nr. 85/2018 er kveðið á um bann við mismunun í auglýsingum.

Lög nr. 150/2020:

23. gr.

Auglýsandi og aðilar sem hanna eða birta auglýsingu skulu sjá til þess að auglýsingin sé tilteknu kyni ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jöfnum rétti kynjanna á nokkurn hátt. Óheimilt er að birta slíka auglýsingu í fjölmiðlum eða á öðrum opinberum vettvangi.

 

Úr lögum nr. 85/2018:

11. gr.

Auglýsandi og sá sem hannar eða birtir auglýsingu skulu sjá til þess að auglýsingin sé einstaklingum af tilteknum kynþætti eða þjóðernisuppruna ekki til minnkunar eða lítilsvirðingar eða stríði á nokkurn hátt gegn jafnri meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Óheimilt er að birta slíka auglýsingu í fjölmiðlum eða á öðrum opinberum vettvangi.

 

Til upplýsingar:

 Í skólastarfi

Sækja pdf

Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 og lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar nr. 85/2018 er að finna sérstök ákvæði sem varða skóla og uppeldisstofnanir.

Lög nr. 150/2020:

15. gr.

Samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, þar á meðal á frístundaheimilum og í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta jafnréttis- og kynjafræðslu við hæfi þar sem m.a. er kennt um kynjaðar staðalímyndir, kynbundið náms- og starfsval og málefni fatlaðs fólks og hinsegin fólks.

Öll kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.

Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skulu nemendur hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf, óháð kyni.

Efla skal rannsóknir á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi, jafnt fræðilegar grunnrannsóknir sem hagnýtar rannsóknir, og miðla niðurstöðum þeirra markvisst innan skólakerfisins og til fjölmiðla.

Það ráðuneyti sem fer með fræðslumál skal fylgjast með að jafnréttis kynjanna sé gætt í skóla- og uppeldisstarfi sem og á frístundaheimilum og í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Enn fremur skal það ráðuneyti sem fer með fræðslumál fylgjast með þróun jafnréttismála á þessum sviðum samfélagsins.

Jafnréttisráðgjafi skal starfa innan þess ráðuneytis sem fer með fræðslumál og skal hann fylgja eftir ákvæðum þessarar greinar og veita viðkomandi aðilum ráðgjöf í jafnréttismálum, m.a. um sértækar aðgerðir til að stuðla að jafnrétti kynjanna.

 

Úr 21. gr.

Bann við mismunun í skólum og öðrum menntastofnunum, á frístundaheimilum og í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Í skólum, öðrum menntastofnunum, á frístundaheimilum og í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi er hvers konar mismunun á grundvelli kyns óheimil. Skylt er að gæta þessa í námi og kennslu, þjálfun, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur og iðkendur.

Yfirmaður stofnunar skal gæta þess að nemandi, iðkandi eða skjólstæðingur sé ekki látinn gjalda þess að hafa kært kynbundna eða kynferðislega áreitni eða kynjamismunun.


Lög nr. 85/2018:

10. gr.

Í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum er hvers kyns mismunun vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna óheimil. Skylt er að gæta þessa í námi, kennslu, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur.

Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að ekki sé mismunað á grundvelli kynþáttar eða þjóðernisuppruna og þau séu einstaklingum af tilteknum kynþætti eða þjóðernisuppruna ekki til minnkunar eða lítilsvirðingar.

 

Rétt er að minna á að almennt bann við mismunun gildir um samfélagið allt.


Lög nr. 150/2020

Úr 16. gr.

Hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, er óheimil. Fjölþætt mismunun er jafnframt óheimil. Fyrirmæli um mismunun á grundvelli kyns teljast einnig mismunun samkvæmt lögum þessum. Enn fremur telst kynbundin áreitni eða kynferðisleg áreitni til mismununar samkvæmt lögunum sem og hvers konar óhagstæð meðferð einstaklings sem rekja má til þess að hann hafi vísað á bug kynbundinni eða kynferðislegri áreitni eða hafi látið hana yfir sig ganga.

Lög nr. 85/2018:

Úr 7. gr.

Hvers kyns mismunun á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, hvort heldur bein eða óbein, vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna er óheimil, sbr. einnig lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Fyrirmæli um mismunun vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna teljast einnig mismunun samkvæmt lögum þessum sem og áreitni þegar hún tengist kynþætti eða þjóðernisuppruna.

 

Í lögum nr. 150/2020 er sérstök lagagrein um kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni sem gildir einnig um skóla og uppeldisstofnanir, félagasamtök og íþrótta- og æskulýðsfélög

Úr 14. gr.

Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana, félagasamtaka og íþrótta- og æskulýðsfélaga skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og notendur þjónustu verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, í stofnun, félagsstarfi eða skólum.

Til upplýsingar:

 Varðandi laun, önnur starfskjör og uppsagnir

Sækja pdf

Atvinnurekendum er skylt að hafa í heiðri launajafnrétti til samræmis við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu nr. 86/2018.

 

Lög nr. 150/2020:

Úr 6. gr.

Konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf.

Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir fólk óháð kyni. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.

Starfsfólki skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef það kýs að gera svo.

 

18. gr.

Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns.

Ef leiddar eru líkur að því að kona, karl og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni.


Lög nr. 86/2018:

9. gr.

Atvinnurekanda er óheimilt að mismuna starfsmönnum sínum vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. í tengslum við laun og önnur kjör, enda sinni þeir sömu eða jafnverðmætum störfum.[1]

Starfsmönnum skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo.


Lög nr. 150/2020 skylda að auki fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 að jafnaði á ársgrundvelli til að öðlast jafnlaunavottun þar sem vottunaraðili staðfestir að launakerfi viðkomandi aðila uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85.

 

Úr 7. gr.

Fyrirtæki eða stofnun þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli skal öðlast jafnlaunavottun að undangenginni úttekt vottunaraðila á jafnlaunakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar sem staðfestir að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85:2012, sbr. 1. gr. c staðalsins. Þegar jafnlaunavottun liggur fyrir skal vottunaraðili skila Jafnréttisstofu afriti af jafnlaunavottunarskírteini ásamt skýrslu um niðurstöðu úttektar. Jafnlaunavottunina skal endurnýja á þriggja ára fresti. Vottunaraðili skal jafnframt tilkynna Jafnréttisstofu um það ef úttekt leiðir ekki til jafnlaunavottunar og greina frá ástæðum þess með framlagningu skýrslu um niðurstöðu úttektar.

 

Jafnlaunavottunin var lögfest í júní 2017 og ber nú öllum fyrirtækjum og stofnunum með 25 starfsmenn eða fleiri að fara í gegnum slíka vottun á grundvelli staðalsins ÍST 85 sem hér segir:

 

Fjöldi starfsfólks að jafnaði

á ársgrundvelli

Tímamörk

250 eða fleiri

31. desember 2019

150-249

31. desember 2020

90-149

31. desember 2021

25-89

31. desember 2022

 

Jafnlaunastaðfestingin kemur inn í lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna í árslok 2020. Með tilkomu jafnlaunastaðfestingar er fyrirtækjum og stofnunum með 25 til 49 starfsmenn nú heimilt að velja á milli jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar. Opinberir aðilar eru þó undanskyldir ásamt sjóðum og fyrirtækjum sem eru að hálfu eða í meiri hluta í eigu ríkisins.

Jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu skal endurnýja þriðja hvert ár.

 

Til upplýsingar:

[1] Hér er átt við kynþátt, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skerta starfsgetu, aldur, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni eða kyntjáningu. Lögin taka ekki til ríkisfangs eða ríkisfangsleysis.

 Við vörukaup og þjónustu

Sækja pdf

Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 og lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar nr. 85/2018 er óheimilt að mismuna fólki í tengslum við vörukaup og þjónustu.

Lög nr. 150/2020:

17gr. a.

Hvers konar mismunun á grundvelli kyns er varðar aðgang að eða afhendingu á vöru sem og aðgang að eða veitingu þjónustu er óheimil. Ákvæði þetta gildir þó ekki um aðgang að eða afhendingu á vöru annars vegar eða aðgang að eða veitingu þjónustu hins vegar á sviði einka- og fjölskyldulífs. Jafnframt gildir ákvæði þetta ekki um málefni er varða störf á vinnumarkaði.

Hvers konar mismunun á grundvelli kyns við ákvörðun iðgjalds eða við ákvörðun bótafjárhæðar vegna vátryggingarsamnings eða samkvæmt annarri skyldri fjármálaþjónustu er óheimil. Kostnaður tengdur meðgöngu og fæðingu skal ekki leiða til mismunandi iðgjalda og bóta fyrir einstaklinga.

Ef leiddar eru líkur að því að mismunun samkvæmt ákvæði þessu hafi átt sér stað, hvort sem hún er bein eða óbein, skal sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem legið hafi til grundvallar meðferðinni tengist ekki kyni nema unnt sé að réttlæta meðferðina á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar.

Lög nr. 85/2018:

9. gr.

Hvers kyns mismunun vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna í tengslum við aðgang að eða afhendingu á vöru er óheimil. Hið sama gildir um þjónustu og aðgang að þjónustu og jafnframt um húsnæði sem er í boði fyrir almenning. Ákvæði þetta gildir þó ekki um viðskipti á sviði einka- og fjölskyldulífs.

Til upplýsingar:

Við ráðningar

Sækja pdf

Þó svo atvinnurekendur, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði, hafi svigrúm við ráðningar starfsfólks þá eru á því ákveðnar skorður m.a. skv. lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu nr. 86/2018.

Lög nr. 150/2020:

Úr 4. gr.

Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kvenna og karla innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna hlut kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum.

Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu gæta að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá á vinnumarkaði.

Lög nr. 86/2018:

Úr 7. gr.

Atvinnurekendur, stéttarfélög og samtök þeirra skulu vinna markvisst að jafnri meðferð á vinnumarkaði í samræmi við markmið laga þessara. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að jafnri meðferð starfsmanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og koma í veg fyrir mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr.

 

Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna umsækjendum um starf vegna kyns, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar sbr. eftirfarandi lagagreinar:

Lög nr. 150/2020

Úr . 12. gr.

Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá.

Úr 19. gr.

Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns.

Óheimilt er að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað eftir starfskrafti af einu kyni en öðru.

Lög nr. 86/2018:

Úr 8. gr.

Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna umsækjendum um starf vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr., sbr. þó 2. mgr. 1. gr., 10., 11. og 12. gr.[1]

Mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. í auglýsingu um laust starf er óheimil sem og birting slíkrar auglýsingar, sbr. þó 2. mgr. 1. gr., 10., 11. og 12. gr.


Ef atvinnurekandi hyggst sérstaklega vinna að jafnri kynjaskiptingu innan starfsgreinar þarf að taka það fram í starfsauglýsingu og vísa til 19. gr. laga nr. 150/2020 þar sem segir:

Lög nr. 150/2020:

Úr 19. gr.

Óheimilt er að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað eftir starfskrafti af einu kyni en öðru. Þetta á ekki við ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu milli kvenna og karla innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni. Sama á við ef gild rök mæla með því að einungis sé auglýst eftir starfskrafti af tilteknu kyni.

Dómstólar hafa skapað ákveðið fordæmi og til hefur orðið svokölluð forgangsregla sem felst í því að ráða skuli í starf umsækjanda sem er af því kyni sem hallar á í viðkomandi starfsstétt ef umsækjendur eru jafnhæfir til að gegna starfinu.

Atvinnurekendur bera í vissum tilfellum svokallaða öfuga sönnunarbyrði þegar kemur að lögum nr. 150/2020 og 86/2018 að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Lög nr. 150/2020

Úr 19. gr.

Ef leiddar eru líkur að því að við ráðningu, setningu eða skipun í starf, stöðuhækkun, stöðubreytingu, endurmenntun, starfsþjálfun, símenntun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður eða vinnuskilyrði hafi einstaklingum verið mismunað á grundvelli kyns, töku fæðingar- og foreldraorlofs eða annarra aðstæðna í tengslum við meðgöngu og barnsburð skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kyn, fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

Við mat á því hvort ákvæði 1. mgr. hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.

Lög nr. 86/2018

15. gr.

Ef leiddar eru líkur að því að mismunun samkvæmt ákvæðum laga þessara hafi átt sér stað skal sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem legið hafi til grundvallar meðferðinni tengist ekki einhverjum af þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr.

 

Til upplýsingar:

[1] Hér er átt við kynþátt, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skerta starfsgetu, aldur, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni eða kyntjáningu. Lögin taka ekki til ríkisfangs eða ríkisfangsleysis. Horfa þarf til viðeigandi aðlögunar, frávika vegna starfstengdra eiginleika eða sértækra aðgerða sem og frávika vegna aldurs.