Baráttuherferð UN Women

Í gær 26.júní var hleypt af stokkunum herferðinni „Empower Women – Empower Humanity: Picture it“ (sem mætti þýða: Valdeflum konur – valdeflum mannkyn: Sýndu í orðum og myndum) í tilefni af því að næsta ár verða 20 ár liðin frá kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking 1995. Í Peking var samþykkt stórmerk ályktun og aðgerðaáætlun – Pekingsáttmálinn - sem 189 ríki hafa staðfest. Sáttmálinn er í 12 köflum sem spanna allt frá fátækt kvenna til réttinda stúlkubarnsins og umhverfismála. Það blésu vindar mannréttinda og frjálslyndis árið 1995 og þess vegna er Pekingsáttmálinn ótrúlega framsýnn og viðamikill. Undanfarin ár hefur verið að honum sótt af bókstafstrúarmönnum og íhaldsöflum þar sem Vatíkanið í Róm fer fremst í flokki ásamt ríkjum þar sem Íslam ræður ríkjum. Vegna þessarar andstöðu hefur ekki verið vilji til að kalla saman nýja kvennaráðstefnu, fólk hefur óttast að textar yrðu teknir upp að nýju og réttindi kvenna þar með skert. 

Það var Phumzile Mlambo-Ngcuka framkvæmdastýra UN Women sem hóf herferðina með ræðu í Apollo leikhúsinu í Harlem í New York. Í ræðunni sagði hún að nú ætti að marka upphaf á endi alls kynjamisréttis í heiminum. Hún nefndi sem markmið að það þyrfti að draga úr fátækt kvenna, bæta aðgengi að heilsugæslu og menntun, binda endi á ofbeldi gegn konum, tryggja þátttöku kvenna í allri ákvarðanatöku, jafna efnahagsleg völd kynjanna, útrýma staðalmyndum kynjanna og auka hlut kvenna í fjölmiðlum og síðast en ekki síst að verja mannréttindi kvenna og stúlkubarna. Sjá ræðu Phumzile má sjá hér:


Baráttuherferð UN Women hófst reyndar á samfélagsmiðlum fyrir nokkrum vikum. Hún felur í sér að fólk er hvatt til umræðna, til að setja á blað drauma sína um veröld án misréttis eða gera það á myndmáli eða með einhvers konar aðgerðum. Herferðin nær nú þegar til 40 milljóna manna um allan heim. Herferðin á að standa í ár og verður lögð megináhersla á að kynna Pekingsáttmálann og minna ríkisstjórnir á hvað þær hafa skuldbundið sig til að gera. Sérstök áhersla verður á aukna þátttöku drengja og karla í jafnréttisumræðunni.  Phumzile minnti á hvernig heimurinn hefði sameinast við að brjóta á bak aftur aðskilnaðarstefnuna í heimalandi hennar S-Afríku með góðum árangri. Það sama væri hægt að gera hvað varðar jafnrétti kynjanna. UN Women hefur markað þá stefnu að árið 2030 verði búið að útrýma kynjamisrétti um heim allan. Það er hægt með sameiginlegu átaki sagði Phumzile. 

Hér má sjá fréttatilkynningu UN Women þar sem m.a. er greint frá þeim viðburðum sem eru framundan um allan heim til að ræða og meta Pekingsáttmálann og marka stefnu til framtíðar. Þar ber hæst stórfund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York í mars á næsta ári og svo leiðtogafund í september í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. 

Sjá fréttatilkynningu UN Women