Erindi nemenda vakti mikla athygli

Fjórir nemendur VMA, Arnaldur Skorri Jónsson, Hrannar Þór Rósarson, Íris Hrönn Garðarsdóttir og Laufey Ipsita Stefánsdóttir, vöktu mikla athygli á ráðstefnu um jafnrétti í skólastarfi sem haldin var í Háskólanum á Akureyri sl. laugardag. Að ráðstefnunni stóðu Miðstöð skólaþróunar HA og Jafnréttisstofa.

Arnaldur Hrannar, Íris og Laufey tóku kynjafræði sem valáfanga, hjá Snorra Björnssyni, í námi sínu í VMA. Í erindi sem þau fluttu á ráðstefnunni sögðu þau frá upplifun sinni og reynslu af áfanganum og hvernig þau tengdu hann áhugamálum sínum og daglegu lífi. Einnig leituðu þau svara við spurningunni hvers vegna kynjafræði og hvort kynjafræði skipti máli í lífi ungs fólks.

Laufey skoðaði stöðu kvenna í tónlist en hún hefur lært á fiðlu í fjórtán ár. Laufey sagði stelpur fjölmennari í fiðlunámi en strákar velji frekar gítar eða trommur. Fáar konur séu starfandi í tónlist miðað við karla og þær séu sjaldan í lykilhlutverkum í stjórnum tónlistarfélaga eða við skipulagningu tónlistarhátíða. Einnig væri kynjamunur áberandi í tónlistarmyndböndum, þar sem karlar eru yfirleitt fullklæddir en konur fáklæddar og oft notaðar sem kyntákn.


Laufey Ipsita Stefánsdóttir

Hrannar fjallaði um hvernig kynjamunurinn birtist í íþróttum en hann þjálfar 4. flokk kvenna KA/Þórs í handbolta. Hann sagði karla fá mun meira pláss í íþróttafréttum en konur og horft sé ólíkum augum á þátttöku kynjanna í íþróttum. Stúlkur séu spurðar hvernig gangi að sinna boltanum með fjölskyldulífinu á meðan strákar eru spurðir hver sé lykillinn að velgengninni. Reynt sé að búa til afreksíþróttamenn úr ungum strákum en það sama eigi ekki við um stelpur.

Íris sagði frá því að hún hafi verið kölluð „strákastelpa“ vegna þess að hún hafi áhuga á lyftingum og tölvuleikjum. Íris skoðaði útlitsdýrkun, hlutgervingu og klámvæðingu kvenna. Hún sagði klámið skaðlegt og ýta undir kynbundnar staðalmyndir og ofbeldi. Karlinn fer með völdin og konan er viðfang hans. Hún sagði klámið öllum aðgengilegt, líka litlum börnum sem eiga síma. Viljum við ala börnin okkar upp við þetta spurði Íris.


Arnaldur Skorri Jónsson og Íris Hrönn Garðarsdóttir

Arnaldur sagði jafnrétti kynjanna ekki síður snúa að körlum en konum. Öll séum við föst í viðjum úreltra staðalmynda sem takmarka tækifæri karla og kvenna á ólíkum sviðum. Hann sagðist í áfanganum hafa áttað sig á því hversu skaðlegar staðalmyndir karlmennskunnar geta verið. Arnaldur telur sig vera femínista en er ekki mikið að ræða það við aðra stráka. Arnaldur sagði suma kunningja sína tala niðrandi um femínisma en líklega mótist sú afstaða af því að þeir skilji ekki út á hvað hann gangi.

Öll voru þau sammála um að kynjafræðiáfanginn hafi fært þeim nýja sýn á samfélagið og ætti að vera skylda á öllum skólastigum. Kynjafræðin kenni gagnrýna hugsun, opni augu nemenda fyrir misrétti og skaðlegum hugmyndum sem viðhaldi ójafnrétti.

Jafnréttisstofa þakkar þeim Arnaldi, Hrannari, Írisi og Laufeyju fyrir virkilega áhugavert erindi sem vakti ráðstefnugesti til umhugsunar um stöðu jafnréttisfræðslu í skólum.