Fjölmennur fundur um fjölbreytta forystu

Í dag fór fram fundur Jafnréttisstofu og Félags Kvenna í Atvinnulífinu á Norðurlandi (FKA) um faglega og fjölbreytta forystu í fyrirtækjum. Jafnréttisstýra Kristín Ástgeirsdóttir opnaði fundinn og minntist niðurstaðna rannsókna sem sýna hvernig fjölbreytni í mannauði getur skilað fyrirtækjum betri niðurstöðu í rekstri.
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, gerði grein fyrir könnun sem var gerð meðal stjórnarmanna á Íslandi árið 2013. Niðurstöður sýna að konur í stjórnum eru líklegri til þess að vera yngri en karlar og hafa hærra menntunarstig. Meðal stjórnarmanna hafa konur einnig ólíkari og fjölbreyttari menntun en karlar og þegar spurt var um lengd stjórnarsetu kemur í ljós að konur höfðu almennt setið skemur en karlar. Þegar spurt var um viðhorf til kynjakvóta kom í ljós að yngri stjórnarmenn voru almennt neikvæðari en þeir sem eldri eru. Karlar, yngra fólk og þeir sem einungis hafa lokið grunnskólamenntun voru jafnframt líklegri til að hafa neikvæðari afstöðu til kynjakvóta. Guðbjörg sagði frá því að gögnin sýna að tækifærin í kynjakvótanum felast í aukinni fjölbreytni, ekki bara varðandi kyn heldur einnig aðra þætti svo sem menntun og bakgrunn stjórnarfólks. Ákveðin áskorun felst síðan í því að ná fram breytingum í stjórnunarstöðum í fyrirtækjum, þar sem kynjakvótinn tekur eingöngu til stjórna.

Örn Arnar Óskarsson, framkvæmdastjóri Ásbyrgi-Flóra ehf, sagði frá því að hann væri almennt á móti kvöðum sem hefðu þvingandi áhrif á starfsemi fyrirtækja. Kynjakvóta í stjórnum taldi hann að ynni gegn því að fyrirtæki velji þá í stjórn sem það helst kýs. Örn spurði hvort almennt væri þörf á kynjakvótanum til að jafna hlut karla og kvenna - sérstaklega í ljósi þess að miklir sigrar hafi þegar unnist á sviði kynjajafnréttis. Þannig þætti það ekki lengur fréttnæmt þegar konur veljist til stjórnunarstarfa í viðskiptalífinu. Þetta mætti sjá þegar skoðaðar eru stjórnunarstöður hjá stóru bönkunum, þar sem konur gegna mörgum mikilvægum stjórnunarstörfum. Örn sagði frá reynslu sinni við að leita að konum í stjórnir og benti á að ekki væri auðvelt að finna þær, sérstaklega á Norðurlandi. Þá veltir Örn því jafnframt fyrir sér hvort kynjakvóti kunni að skapa neikvætt viðhorf til þeirra kvenna sem veljast til stjórnarsetu. Ennfremur ítrekaði Örn að það væri augljós kostur, sérstaklega fyrir fyrirtæki sem vilja höfða til viðskiptavina, sem eru bæði karlar og konur, að stjórnendur endurspegli breidd hvað varðar þekkingu, bakgrunn og ekki síst smekk.

Kristín Halldórsdóttir, mjólkurbússtjóri MS á Akureyri, kynnti starfsemi MS og gaf innsýn í tildrög þess að hún tók til starfa hjá fyrirtækinu. Kristín sagði frá því að mjólkuriðnaðurinn væri mjög karllægur en hún teldi að konur ættu ekki erfitt uppdráttar innan iðnaðarins. Kristín benti á að eftir því sem verkefni væru fjölbreyttari og flóknari væri mikilvægt að leita til þeirra sem hafi þekkingu hverju sinni. Það er því mikilvægt að deila ábyrgð og verkefnum til að hámarka árangur. Í því sambandi væri líka nauðsynlegt að aðskilja vinnu og einkalíf þegar álag getur verið mikið. Þá benti Kristín einnig á að konur ættu að taka til endurskoðunar það viðhorf sitt að afsaka sig,  þegar afsökun er óþörf.

Baldur Dýrfjörð, forstöðumaður þróunar hjá Norðurorku hf, fjallaði um samfélagið eins og það birtist okkur í þeim störfum sem karla og konur vinna. Hann benti á að við skiptum vinnumarkaði gjarnan í „mjúku og hörðu störfin“ – og gagnlegt sé að horfa til þess þegar við ræðum lög um kynjakvóta í stjórnum að vinnumarkaðurinn er þegar mjög kynskiptur. Baldur sagði það vera reynslu sína að það hefði jákvæð áhrif á starfsemi skipulagsheilda þegar fjölbreytni er tryggð. Í umræðu um nauðsyn þess að horfa til samfélagsins sagði Baldur mikilvægt að hafa áhrif á komandi kynslóðir. Við verðum að hvetja börn til að vinna á þeim sviðum sem þau hafa áhuga á. Fyrirmyndirnar skipta máli og því er líka mikilvægt að konur sjái aðrar konur í stjórnunarstöðum. Þá benti Baldur á að karlar ættu að horfa til þess að jafnréttismál komi þeim einnig við, sérstaklega í ljósi árangurs drengja í skólum. 

Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka, kynnti félag innan bankans sem ber heitið Spírur – átak sem átti tildrög í hvatningarverkefninu Auður í krafti kvenna.  Una sagðist oft heyra það frá ungum konum að þær vilji ekki vera valdar í stjórnir á grundvelli kyns og að hún hafi sjálf verið þeirrar skoðunar lengi framan af. Una ræddi mismun í viðhorfum til kvenna og karla í stjórnunarstöðum og sagðist oft hafa verið spurð: „hvernig ferðu eiginlega að þessu“ og spurði Una hvort karlar væru inntir eftir hinu sama. Una kynnti starf innan bankans sem miðaði að því að tryggja jafnan framgang karla og kvenna í störfum og stjórnunarstöðum. Í því augnamiði að tryggja jafnrétti sagði Una mikilvægt að vinna samkvæmt jafnréttisáætlun sem hefði skýr, vinnanleg og mælanleg markmið.