Grænt bókhald fyrir árið 2021

Jafnréttisstofa heldur Grænt bókhald í samræmi við Græn skref fyrir ríkisstofnanir og hefur árlega skilað því til Umhverfisstofnunar fyrir árin 2019-2021.

Græna bókhaldið tekur til þeirra þátta sem hafa hve mest umhverfisáhrif í daglegum rekstri:

  • Samgöngur
  • Úrgangur
  • Orkunotkun
  • Matarsóun
  • Pappírsnotkun
  • Efnanotkun

Á vef Grænna skrefa kemur fram að: „…Með markvissri færslu Græns bókhalds geta stofnanir gert sér grein fyrir keyptu magni og eðli innkaupa á vöru eða orku og þannig sett sér mælanleg markmið um hagræðingu eða að draga úr notkun.

Með aukinni áherslu á loftslagsmál er mikilvægt að stofnanir fylgist með losun gróðurhúsalofttegunda sem stafar frá starfsemi þeirra.“

Niðurstöður úr Grænu bókhaldi Jafnréttisstofu fyrir árið 2021 liggja fyrir og helstu niðurstöður er þessar:

  • Losun CO2 var 1,6 tonn. Það er að mestu leyti vegna flugsamgangna (1,4 tonn), aðrir þættir eru akstur, rafmagn og úrgangur. Þess ber að geta að ferðir voru mun færri árið 2021 vegna Covid-19 samanborið við 2019 sem var fyrsta árið sem Grænt Bókhald var tekið saman, en þá var losun CO2 9,6 tonn, þar af 8,6 vegna flugsamgangna.
  • Hlutfall umhverfisvottaðra vara og þjónustu er 100% (skrifstofupappír, ræstiþjónusta, ræsti- og hreinsiefni). Sami árangur náðist 2020 en 2019 vantaði aðeins upp á að öll hreinsiefni væru umhverfisvottuð.
  • Hlutfall endurvinnslu var 95% sem er örlítið hærra en 2020 þegar það var 94% og dálítil hækkun frá 2019 þegar það var 89%.

Samkvæmt umhverfis- og loftslagsstefnu Jafnréttisstofu verður unnið enn frekar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. með því að kolefnisjafna flug og velja umhverfisvænni bílakosti.