Kona verður forseti – 30 ár frá kjöri Vigdísar

Í dag eru liðin 30 ár frá því að Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands. Hún varð þar með fyrsta konan í heiminum til að verða forseti kjörinn í lýðræðislegum kosningum. Kosningabaráttan vikurnar á undan var fjörug og um margt merkileg. Þrír karlar og ein kona voru í framboði og var það í fyrsta sinn sem kona bauð sig fram hér á landi. Ýmsum rökum var beitt gegn Vigdísi svo sem þau að hún væri einstæð móðir, það ættu að vera hjón á Bessastöðum, hæfileikar hennar til að sinna embættinu voru dregnir í efa og þar fram eftir götunum. En nógu margir kjósendur voru á öðru máli. Vigdís sigraði og vakti það gríðarlega athygli um allan heim. Vigdís hefur sjálf sagt að framboð sitt megi rekja til kvennafrídagsins 24. október 1975 er íslenskar konur lögðu niður vinnu um allt land til að sýna fram á mikilvægi sitt í íslensku þjóðfélagi. Vigdísar biðu margvísleg verkefni og hún varð gríðarlega mikilvæg fyrirmynd heillar kynslóðar sem ólst upp við þá staðreynd að kona var forseti landsins.

Nokkrum dögum eftir kjörið hófst önnur kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn. Íslenska sendinefndin flutti ráðstefnunni kveðju Vigdísar og var Ísland svo sannarlega í sviðsljósinu vegna þessa atburðar og grannt hlustað á róttæka ræðu Íslands sem konurnar í sendinefndinni sömdu. Á þessum tíma var valdaleysi kvenna ofarlega á dagskrá og umræðan um ofbeldi gegn konum var rétt að hefjast.

Næstu 16 árin gegndi Vigdís embætti forseta. Hún ferðaðist víða um heim enda eftir því sóst að fá hana í heimsókn. Þegar horft er yfir embættisferil hennar má segja að þrjú málefni hafi verið henni hugleiknust. Menningararfurinn, börnin og verndun náttúrunnar. Vigdís lét ekkert tækifæri ónotað til að minna á mikilvægi þess að standa vörð um eigin menningu, bera virðingu fyrir menningu annarra og efla friðsamleg samskipti milli þjóða. Hún lét kalla á börnin hvert sem hún fór, fékk þau í lið með sér við að gróðursetja og rækta, spjallaði við þau og ræddi stöðu þeirra og velferð. Það var nýlunda að börn væru þátttakendur og til umræðu. Gróðursetning varð eitt af einkennum Vigdísar, það þurfti að græða landið og standa vörð um náttúruna.

Vigdís komst ekki á kvennaráðstefnuna í Kaupmannahöfn fyrir 30 árum en hún var ein þeirra forystukvenna sem ávarpaði fjórðu kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking árið 1995 þar sem hún vakti mikla hrifningu í hópi kvenna eins og Hillary Clinton, Benasir Bhutto, Gro Harlem Brundtland, Monu Sahlin og fleiri. Þessi ráðstefna markaði tímamót í baráttu þjóðanna fyrir kynjajafnrétti því þar voru gerðar mjög mikilvægar samþykktir.
Síðan er mikið vatn til sjávar runnið en Vigdís hefur haldið ótrauð áfram sem fyrirlesari, verndari, sendiherra og mikilvæg fyrirmynd. Hún hefur verið í forystu samtaka fyrrverandi kvenleiðtoga og hvergi legið á liði sínu við að styðja jafnréttisbaráttu kynjanna heima sem erlendis.

Um þessar mundir er unnið að söfnun fyrir byggingu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem á að rísa við hlið Þjóðarbókhlöðunnar sem varðveitir stóran hluta menningararfsins. Stofnun Vigdísar vinnur að rannsóknum og kennslu tungumála með það í huga að tungumálakunnátta brúar bil milli þjóða og eykur samskipti. Á þessum tímamótum sendir Jafnréttisstofa Vigdísi góðar kveðjur og þakkar framlag hennar til réttlátara og betra samfélags.



Nánari upplýsingar um framlög í byggingarsjóðinn má finna hér