Meirihluti sveitarfélaga með jafnréttisnefnd

Jafnréttisstofa birtir nú niðurstöður rannsóknar á skipun jafnréttisnefnda og gerð jafnréttisáætlana sveitarfélaga. Helstu niðurstöður eru þær að nú eru um 75% sveitarfélaga með jafnréttisnefnd eða aðra nefnd ábyrga fyrir jafnréttismálum. Þetta er mikil breyting frá fyrri könnun frá árinu 2001, þar sem einungis 30% sveitarfélaga voru með slíka nefnd. Jafnréttisstofa fagnar þessum breytingum.


Sá hluti rannsóknarinnar sem snéri að jafnréttisáætlunum sveitarfélaganna sýndi hinsvegar ekki jafn jákvæða mynd. Þegar spurt er hvort sveitarfélagið sé með jafnréttisáætlun kemur í ljós að 33% sveitarfélaga eru með áætlun og 18% eru að vinna að slíkri áætlun. 49% sveitarfélaga hafa hvorki jafnréttisáætlun né áform um að uppfylla þá lagalegu skyldu sína. Samkvæmt lögum skulu sveitarfélögin setja sér jafnréttisáætlun innan árs eftir kosningar og er enn nokkur tími til stefnu. Það gefur von um að þær áætlanir sem nú eru í undirbúningi verði tilbúnar þá og að eitthvað af þeim sveitarfélögum sem ekki hafa áform um að gera áætlun setji það á stefnuskrána.

Jafnréttisstofu bárust 23 jafnréttisáætlanir og ákveðið var að fara yfir innihald þeirra og skoða hvort þær uppfylltu lagalega skilgreiningu á innihaldi slíkrar áætlunar. Í ljós kom að einungis átta af þeim uppfylltu þau skilyrði sem lögin setja um innihald slíkrar áætlunar.

Jafnréttisstofa vill því vekja athygli á að stofan veitir sveitarfélögum, stofnunum og fyrirtækum aðstoð og leiðbeiningar við gerð og endurskoðun jafnréttisáætlana, þeim að kostnaðarlausu. Einnig býður Jafnréttisstofa upp á námskeið um gerð jafnréttisáætlana, sé þess óskað.

Nánar má lesa um niðurstöðurnar í greininni:

Réttu megin við lögin

Lesefni um jafnréttisáætlanir:

Um gerð jafnréttisáætlana

Jafnréttisáætlanir, aðferð til árangurs

Samþætting - ný leið til jafnréttis kynjanna

Upplýsingar um námskeið um gerð jafnréttisáætlana, ætlað sveitarfélögum