Norræn ráðstefna um jafnréttisfræðslu í skólum

Á ráðstefnunni, sem hefst kl. 18:00 mánudaginn 21. september, verða fyrirmyndarverkefni frá öllum Norðurlöndunum kynnt og farið yfir stöðu mála í Evrópu á sviði jafnréttisstarfs í skólum. Lögð verður áhersla á að kynna efni sem veitt getur innblástur til góðra verka í jafnréttismálum í bland við fræðileg erindi. Ráðstefnan er því kjörinn vettvangur fyrir skólafólk, foreldra, fræðimenn, stjórnmálamenn og alla þá sem vilja fræða og fræðast um jafnrétti í námi og starfi.

Ráðstefnan er þátttakendum að kostnaðarlausu. Hún fer fram á tungumálum Norðurlandanna og ensku. Norðurlandamálin verða túlkuð.

Skráning og nánari upplýsingar á slóðinni http://formennska2009.jafnretti.is
Skráningu lýkur mánudaginn 14. september.

Auk fyrirlesara frá öllum Norðurlöndunum verða lykilfyrirlesarar:

• Mike Younger, deildarforseti kennaradeildar Cambridge-háskóla.
Fyrirlestur sinn nefnir Younger Drengjaumræðan sett í sitt rétta samhengi eða „Gleymum ekki stelpunum“. Afleiðingar fyrir stefnumótun og framkvæmd jafnréttis í skólum.

• Eva Nyström, lektor við Umeå háskóla í Svíþjóð.
Nyström fjallar um norrænar kynja- og jafnréttisrannsóknir í skólum og menntun.

• Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Háskólann á Akureyri.
Í erindi sínu fer Ingólfur yfir átaksverkefni í jafnréttismálum í skólastarfi og hvernig kynjafræði getur verið og þarf að vera hluti af þróunarstarfi í skólum.

Eftirtaldar málstofur eru í boði:

1. Kynjafræði og kennaramenntun. (Íslenska - túlkuð).
Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor við kennaradeild Háskólans á Akureyri.
Þórdís Þórðardóttir, lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

2. Kynbundið náms- og starfsval. (Enska – ótúlkuð).
Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, dósent í náms- og starfsráðgjöf.
Kristjana Stella Blöndal, lektor í náms- og starfsráðgjöf.
 
3. Kynjaskipting í skólastarfi - okkar leið í jafnréttismálum. (Danska – ótúlkuð).
Matthías Matthíasson, kennari og fyrrverandi skólastjóri hjá Hjallastefnunni.

Ráðstefnan er á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar en Ísland gegnir formennsku í nefndinni þetta árið. Félags- og tryggingamálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið sjá um framkvæmd ráðstefnunnar en umsjón með undirbúningi hefur Jafnréttisstofa.

Nánari upplýsingar veitir
Arnfríður Aðalsteinsdóttir
verkefnisstjóri á Jafnréttisstofu
899-3480 / arnfridur@jafnretti.is