- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Þann 27. mars verður haldin ráðstefna um kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna undir yfirskriftinni Fögur fyrirheit: Kvennasáttmáli SÞ 30 ára. Varpað verður ljósi á ýmsar hliðar sáttmálans, m.a. mismunandi möguleika til að nýta hann betur til að rétta hlut kvenna. Rachael Lorne Johnstone, lektor við Háskólann á Akureyri, ræðir t.d. möguleika þess að nota kvennasáttmálann til að sporna gegn heimilisofbeldi.
Ráðstefnan verður haldin í Gyllta salnum á Hótel Borg frá kl. 14:00-16:00.
Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, segir frá uppruna og áhrifum kvennasáttmálans. Brynhildur Flóvenz, lektor í lögum við Háskóla Íslands, ræðir mikilvægi sértækra mannréttindasamninga á borð við kvennasáttmálann.
Guðrún Dögg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, talar um skuggaskýrslur og aðhaldshlutverk frjálsra félagasamtaka.
Rachael Lorne Johnstone, lektor við Háskólann á Akureyri, ræðir möguleika þess að nota kvennasáttmálann til að sporna gegn heimilisofbeldi og að lokum sýnir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, framkvæmdastýra UNIFEM á Íslandi, myndir frá starfi UNIFEM, sem grundvallast m.a. á kvennasáttmálanum.
Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum, kallaður kvennasáttmálinn, var samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir 30 árum, í desember 1979. Íslendingar undirrituðu hann árið 1980 og hann var fullgiltur fimm árum síðar. Við lok árs 2008 höfðu 186 ríki fullgilt samninginn, en ýmis ríki sem eru aðilar að samningnum hafa krafist þess að fá undanþágur frá ákveðnum atkvæðum.
Í samningnum er m.a. kveðið á um lagalegt jafnrétti kynjanna. Tryggja á rétt til sömu atvinnutækifæra og launa, aðgang að námi og fræðslu. Mælt er á um að konur komi að opinberri stefnumótun og framkvæmd stefnumála. Þá á að hamla gegn verslun með konur og gróðastarfsemi tengdri vændi kvenna. Banna á að vísa konum úr starfi vegna þungunar eða barneigna og veita konum sömu réttindi og körlum til að ákvarða þjóðerni barna.
Að ráðstefnunni standa Kvennaathvarfið, Femínistafélag Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Stígamót, UNIFEM á Íslandi, Jafnréttisstofa, Jafnréttisráð, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum og Mannréttindaskrifstofa Íslands.
Aðgangur er ókeypis, allir velkomnir og boðið verður upp á kaffi og með því.
Frekari upplýsingar um ráðstefnuna er hægt að nálgast hjá Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur í síma:6903565 og 5526200