Staða jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar í árslok 2022

Myndrænt yfirlit um stöðu jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar hefur nú verið uppfært miðað við stöðuna í árslok 2022. Hlekkur á mælaborð.

Alls hafa 443 fyrirtæki og stofnanir af 1094 hlotið jafnlaunavottun. Eftir standa því 651 fyrirtæki og stofnun. Rétt er að taka fram að þar af eru 593 aðilar með nýútrunninn frest.

Nær jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfesting nú yfir 107.825 starfsmenn sem er 73% af heildarfjölda starfsfólks þeirra fyrirtækja sem lagaskyldan nær til.

Lög um jafnlaunavottun sem sett voru árið 2017 leggja þá skyldu á fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa 25 eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli að undirgangast úttekt vottunaraðila á að jafnlaunakerfi þeirra uppfylli kröfur jafnlaunastaðals. Tilgangurinn er að stuðla að launajafnrétti kynjanna með því að leitast við að koma á og viðhalda því að fólk sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf hjá sama atvinnurekanda njóti sömu kjara. Fyrirtækjum og stofnunum gafst frestur til að öðlast jafnlaunavottun í síðasta lagi á tímabilinu 2019-2022, eftir stærð. Með endurskoðuðum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020, var fyrirtækjum þar sem starfa 25-49 gefinn kostur á að velja á milli jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar.

Jafnréttisstofa hefur sent aðilum, sem ekki höfðu öðlast jafnlaunavottun fyrir tilskilinn frest í árslok 2019, 2020 eða 2021, bréf sem undanfara álagningar dagsekta. Það hefur þó ekki leitt til þess að beita hafi þurft úrræðinu að sinni. Þeir aðilar sem ekki höfðu öðlast vottun eða staðfestingu fyrir tilskilinn frest í árslok 2022 munu fá bréf sem undanfara álagningar dagsekta í ársbyrjun 2023.