Vestnorden: Jafnrétti í lögum og skólastarfi

Íslensk stjórnvöld leggja ríka áherslu á samvinnu Færeyja, Grænlands og Íslands, meðal annars á sviði jafnréttismála. Í tilefni af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2009 verður boðið til tveggja daga námstefnu í Færeyjum 3.–4. júní um jafnrétti í skólastarfi og jafnréttislög. Námstefnan fer fram í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn.Í ár verða 30 ár liðin frá því að kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna (CEDAW) var samþykktur. Það gefur tilefni til þess að horfa gagnrýnum augum á jafnréttislöggjöf, framkvæmdaáætlanir og stöðu kynjanna á Norðurlöndunum. Í kvennasáttmálanum er meðal annars að finna tilmæli til aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um setningu jafnréttislaga. Norðurlöndin voru fremst í flokki ríkja til að setja slík lög. Í fyrstu íslensku jafnréttislögunum frá 1976 var lögð áhersla á hlutverk skólanna við að koma á jafnrétti kynjanna. Hugsunin var sú að byrja á byrjuninni – uppeldi barnanna – svo fljótt sem unnt væri. Því miður hafa kynjafræðirannsóknir leitt í ljós að íslenska skólakerfið hefur ekki sinnt þessu verkefni sem skyldi og því er nú lögð áhersla á verkefni sem tengjast jafnrétti í skólastarfi.

Jafnrétti í skólum

Námstefnan í Færeyjum er þannig skipulögð að byrjað verður á fyrirlestri um stöðu jafnréttismála á Norðurlöndunum. Það er Carita Peltonen sem ríður á vaðið, en hún hefur unnið um árabil á sviði jafnréttismála fyrir Norrænu ráðherranefndina. Síðan fylgja fyrirlestrar og kynningar á verkefnum sem unnið er að í skólum á Norðurlöndunum. Þar með er undirstrikað hve brýnt sé að byggja jafnrétti kynjanna upp frá grunni.
Vinnumarkaður á Norðurlöndunum er enn afar kynskiptur. Rannsóknir hafa leitt í ljós að norræn samfélög geta nýtt mannauð sinn á mun markvissari hátt og að hæfileikar fólks blómstra mun betur þar sem jafnrétti kynjanna er virt og virkjað. Það er mjög mikilvægt að skólarnir átti sig á ábyrgð sinni og leiki afgerandi hlutverk við að breyta neikvæðum og heftandi staðalmyndum kynjanna. Á námstefnunni munu fulltrúar frá Danmörku, Svíþjóð og Íslandi kynna fyrirmyndarverkefni um hvernig efla megi jafnrétti í skólastarfi.
Markhópurinn sem á að ná til er kennarar, skólastjórnendur, stjórnmálamenn og aðrir sem hafa áhuga á þessum málum.

Jafnrétti í lögum

Seinni daginn hefst dagskráin með fyrirlestri Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur frá Háskóla Íslands um velferð og jafnrétti kynjanna á Vestur-Norðurlöndum. Síðan verða fyrirlestrar um þróun jafnréttislaga á Norðurlöndunum. Jafnréttislög voru samþykkt á áttunda áratugnum í flestum Norðurlöndunum og því hafa þau langa reynslu af framkvæmd þeirra, eftirfylgni og endurskoðun í ljósi breyttra aðstæðna. Um þessar mundir er nefnd að skila af sér í Noregi sem falið var að fara yfir gildandi lög um mismunun sem ýmsir hópar verða fyrir, þar með talið á grundvelli kyns, með þá spurningu í huga hvort rétt væri að sameina þau í eina löggjöf gegn mismunun. Á síðasta ári voru samþykkt ný jafnréttislög á Íslandi og í Finnlandi hafa stjórnvöld verið einkar dugleg við að semja aðgerðaáætlanir á ýmsum sviðum jafnréttismála. Nýlega lagði danski jafnréttismálaráðherrann fram nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og í Svíþjóð gekk ný löggjöf í gildi um síðustu áramót sem fól í sér sameiningu allra embætta umboðsmanna ( um kyn, fötlun, erlendan uppruna, kynhneigð o.fl.) og einn lagabálk um mismunun. Þar er því margt að gerast og miklu að miðla.
Markhópur þessa dags eru stjórnmálamenn, stefnumótendur, baráttufólk og aðrir sem hafa áhuga á þessum málum.
Fyrirlesarar eru allir frá Norðurlöndunum.

Frekari upplýsingar eru veittar á Jafnréttisstofu í síma 460 6200, með tölvupósti um netfangið jafnretti@jafnretti.is eða á vefsíðu stofunnar www.jafnretti.is

Hér má nálgast boðsbréf á námstefnuna á dönsku.