Viljum ná til allra

Nýlega stóð Akureyrar akademían fyrir málþingi um íslensku kennslu fyrir erlent fólk sem kemur til landsins bæði sem innflytjendur og einnig það fólk sem kemur hingað til að vinna um skemmri eða lengri tíma. Þar var ég einn af frummælendum með erindið Hvað er verið að gera í fræðslukerfinu og hjá aðilum vinnumarkaðarins hér á Akureyri til að auka færni innflytjenda í íslensku?

Um aldarmótin var samið um að gera átak í að starfsfólk hefði meiri möguleika á að sækja sér nám og námskeið. Atvinnurekendur greiða í sjóði sem fólk getur svo sótt í fyrir námsstyrkjum. Félagsmenn sem hafa annað móðurmál en íslensku geta nú sótt um allt að 90% styrk í þessa sjóði vegna íslenskunáms eftir aðeins eins mánaðar félagsaðild, en almenna reglan er að félagsmaður þarf að hafa greitt til félagsins í 6 mánuði til að fá styrk.

Eining-Iðja er með samning við SÍMEY um að félagið greiði það sem uppá vantar, þannig að námið er félagsmönnum að kostnaðarlausu. Í raun borgar félagið allt og sækir um fyrir hönd sinna félagsmanna í sjóðina. Önnur stéttarfélög hafa samið um þetta með svipuðum hætti og því ljóst að vilji stéttafélagana til að koma sérstaklega til móts við erlenda félagsmenn varðandi íslensku kennslu er mikill.

Félagið hvetur félagsmenn af erlendum uppruna til að fara í íslenskunám á margan hátt. Við gefum út auglýsingar um slíkt nám á fleiri en einu tungumáli, við bendum þeim félagsmönnum sem leita til okkar á þennan möguleika og við erum einnig í samstarfi við SÍMEY þar sem Eining-Iðja heldur fræðslu fyrir erlenda félagsmenn um réttindi og skyldur þeirra á vinnumarkaði, ásamt því að upplýsa hópinn um möguleikann á og kosti þess að sitja íslensku námskeið á þeirra vegum.

Ekki allir sem vilja…

Því miður er það svo að við vitum um atvinnurekendur sem vilja alls ekki að þeirra fólk læri íslensku. Þeir vilja halda þeim sem mest í fjötrum vinnustaðarins og jafnvel ganga svo langt að vara þau við verkalýðsfélaginu því að það muni senda þau úr landi ef við vitum af þeim. Þessir aðilar hafa ekki hagsmuni fólksins í fyrirrúmi heldur er spurning hvað hægt er að svíkja það um laun og allt sem hægt er að svíkja fólk um. Sem betur fer náum við samt til þessa hóps, t.d. með aðkomu Vinnustaðaeftirlitsins sem kemur upplýsingum til þeirra sem leiðir til þess að þau koma til okkar. Það eru stórar upphæðir á hverju ári sem við náum að hjálpa fólki að fá leiðrétt, oftar en ekki með aðstoð lögfræðinga.

Öllum til hagsbóta

Staðreynd málsins er þó sú að þó margt sé gert til að auðvelda upplýsingaflæði til fólks af erlendum uppruna, þá þarf að gera átak í málefnum fólks með annað móðurmál en íslensku og gera þau hæfari til að aðlagast okkar þjóðfélagi og okkar menningu og við gerum það best með því að auðvelda þeim leiðina að því að læra íslensku.

Oft hef ég fengið að heyra frá mínu félagsfólki að það hafi ekki kraft til að sitja kvöldnámskeið, jafnvel kvöld eftir kvöld, eftir að vera búin að vinna 8 til 10 tíma vinnudag. Einbeitingin er þá væntanlega ekki upp á marga fiska. Ljóst er að auðvelda þarf fólki að sækja íslensku námskeið á vinnutíma. Það þarf að fá stjórnvöld og atvinnurekendur með í átak sem miðar að því að atvinnurekandi veiti starfsmönnum leyfi frá vinnu til að fara á námskeið, stjórnvöld taki svo þátt með að endurgreiða atvinnurekanda þau laun og þann kostnað sem verður vegna þeirra sem fara í íslenskunám á vinnutíma.

Íslensku kunnátta einstaklingsins verður ekki aðeins honum sjálfum til hagsbóta heldur öllu samfélaginu. Viðkomandi kemst fljótar inn í samfélagið, aðlagast betur umhverfinu og möguleikar fyrir viðkomandi verða mun fleiri, hvort sem það er á vinnumarkaði eða annars staðar í þjóðfélaginu.

Það á og verður að vera okkar krafa að stjórnvöld og atvinnurekendur aðstoði við þessi mál. Að koma því í kring að auðvelda fólki aðgengi að íslensku námi.

Viljum ná til allra

Við hjá Einingu-Iðju leggjum mikla áherslu á að ná til allra félagsmanna. Auglýsum á ensku og pólsku, erum með upplýsingar í félagsblaðinu á nokkrum tungumálum. Auðvelt er að þýða heimasíða félagsins yfir á sitt tungumál. Erum með bækling sem nefnist „Veistu hvað við getum gert fyrir þig?“ á 11 tungumálum, nú síðast á úkraínsku, þar sem m.a. hlutverk stéttafélaga er útskýrt, fjallað stuttlega um sjóði félagsins og styrki og margt fleira sem hefur skilað okkur þeim ánægjulega árangi að erlendir félagsmenn leita til okkar meira en áður. Á vinnustaðafundum og mörgum öðrum fundum er áhersla lögð á að til staðar sé túlkur eða túlkar þegar á þarf á að halda.

Félagið heldur úti vinnustaðaeftirliti sem fer á vinnustaði og kemur þannig m.a. upplýsingum til fólks um réttindi þeirra og skyldur. Þessar heimsóknir hafa hjálpað mjög mörgum. Sérstaklega erlendu fólki sem kemur hingað til að vinna, oft yfir sumarið og hefur ekki áhuga á að læra íslensku.

Nýlega var ráðinn í afgreiðslu félagsins á Akureyri pólskur starfsmaður sem búið hefur hér á landi síðustu 15 árin. Stór hluti erlendra félagsmanna eru Pólverjar og því fannst okkur mikilvægt að auka enn meira upplýsingaflæði til þeirra. Þessir félagsmenn leita nú í meiri mæli til okkar og hefur starfmaðurinn m.a. getað frætt sína samlanda um kosti þess að læra íslensku og sækja námskeið.

Höfundur greinar: Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju