Ár ungu kvennanna

Það lá ljóst fyrir í upphafi árs 2015 að mikið yrði um að vera á sviði jafnréttismála enda 100 ár liðin frá því að íslenskar konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.Í upphafi árs gaf Jafnréttisstofa út dagatal sem helgað var afmæli kosningaréttarins og var því dreift í skóla og stofnanir. Á dagatalinu er að finna eftirfarandi tilvitnun í ljóð eftir Ingibjörgu Benediktsdóttur skáldkonu frá árinu 1937 sem sannarlega lýsir vonum kvenréttindakvenna þess tíma:  

„Svo áfram systur hlið við hlið, því héðan blasir landið við. 
  Hin fyrirheitna fagra strönd, með friðarboga og vor í hönd.“
 
Í janúar boðuðu Ísland og Súrínam til Barber Shop ráðstefnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem sérstaklega var höfðað til karla og þeir hvattir til þátttöku í jafnréttisbaráttunni. Það er auðvitað deginum ljósara að kynjajafnrétti kemur körlum við alveg eins og konum enda löngu sannað að það bætir lífsgæði karla ekkert síður en kvenna. Það er þó langt í frá viðurkennd staðreynd í heimi stjórnmála og atvinnulífs. Ráðstefnan vakti verulega athygli og umtal en það fór fyrir brjóstið á mörgum að hluti ráðstefnunnar var eingöngu fyrir karla. Margir helstu karlfemínistar heims tóku þátt, t.d. fræðimaðurinn Michael Kimmel sem hefur rannsakað ýmsar (skaðlegar) birtingarmyndir karlmennskunnar. Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu því sannarlega er verk að vinna hvað varðar rannsóknir á karlmennskuhugmyndum og þátttöku karla í umræðunni.  Í Háskóla Íslands hófst fyrirlestraröðin Margar myndir ömmu sem vakti mikla athygli og ánægju en þar flutti fræðafólk erindi um ömmur sínar, langömmur eða jafnvel frænkur. Síðar á árinu voru sumir fyrirlestranna fluttir úti á landi í samvinnu við heimamenn. 

Í febrúar gerðust þau tíðindi að Akureyrarbær og lögreglan á Norðurlandi eystra gerðu samstarfssamning um átak gegn heimilisofbeldi. Forsagan er sú að eftir að í ljós kom að ofbeldi í nánum samböndum var marktækt algengara á Suðurnesjunum en annars staðar á landinu var sett í gang svokallað Suðurnesjaverkefni sem byggðist á samvinnu lögreglu, félagsmálayfirvalda og barnaverndar við að kveða ofbeldið niður. Þar er skemmst frá að segja að árangur verkefnisins „Að halda glugganum opnum“ vakti verðskuldaða athygli og hafa þær verklagsreglur sem teknar voru upp á Suðurnesjunum verið innleiddar víða um land. Jafnréttisstofa og samstarfsteymi gegn heimilisofbeldi efndu á árinu til námskeiða á eftirtöldum stöðum: Eskifirði, Borgarnesi, Ísafirði, Selfossi og Vestmannaeyjum til að kynna Suðurnesjaleiðina en undir lok árs 2014 var fyrsta námskeiðið haldið á Akureyri. Námskeiðin voru afar vel sótt og góður rómur gerður að þeirri fræðslu sem veitt var.

Í febrúar stóð Jafnréttisstofa í samvinnu við ASÍ fyrir vinnustofu um Pekingsáttmálann en hann átti 20 ára afmæli. Pekingsáttmálinn var samþykktur á fjórðu kvennarástefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking árið 1995 og er mikið grundvallarskjal fyrir réttindabaráttu kvenna um allan heim. Margar tillögur voru lagðar fram á fundinum og er nú sannarlega kominn tími til að fylgja þeim eftir. Á jafnréttistorgi í Háskólanum á Akureyri flutti Svanfríður Jónasdóttir fyrrv. bæjarstjóri og þingkona erindi um kosningarétt kvenna og þátttöku þeirra í sveitarstjórnum í tengslum við margnefnt afmæli. 

Mars gekk í garð og hófst á því að haldið var upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna 8. mars. Í Reykjavík hélt samstarfsnefnd stéttarfélaga o.fl. fund undir yfirskriftinni Er tími til að njóta lífsins? Umræðuefnið var staðan á vinnumarkaði og álag á fjölskyldurnar í landinu. Á Akureyri stóðu Zontaklúbbarnir í samvinnu við Jafnréttisstofu fyrir fundi um: Ofbeldi á heimilum - áhrif á börn. Á Akureyri var opnuð sýning um Vigdísi Finnbogadóttur og klæðnað hennar meðan hún gegndi embætti Forseta Íslands. Undirrituð hélt erindi á jafnréttistorgi um baráttuna fyrir kosningarétti kvenna til Alþingis undir yfirskriftinni: „Ég veit enga ambátt um veraldargeim, sem var ekki borin með réttindum þeim“. Titillinn er sóttur í kvæði eftir Matthías Jochumsson sem hann orti er fréttir bárust af því að Danakonungur hefði undirritað lögin sem veittu hluta kvenna kosningarétt þann 19. júní 1915. Í New York hófst árlegur fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna og var hann að þessu sinni helgaður 20 ára afmæli Pekingsáttmálans. Fundurinn var sérlega vel sóttur af Íslands hálfu enda mikil og fjölbreytt dagskrá í boði. 

Í apríl kom út skýrslan Gender Equality in the Arctic en hún er afrakstur samnefndrar ráðstefnu sem haldin var á Akureyri í lok október 2014 en hún var hluti af dagskrá formennskuárs Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Þetta er sérlega glæsileg og forvitnileg skýrsla sem allir ættu að kynna sér. Staða kynjanna á norðurslóðum er um margt athyglisverð, ekki síst staða karla en þeir eiga víða í vök að verjast í breyttum heimi. Jafnréttisstofa stýrði stóru verkefni á árinu um „Fjölbreytta forystu“. Meðal annars var gefið út myndband um „freka karlinn“ þar sem Jón Gnarr fer á kostum í hlutverki stjórnandans.
Út kom norrænn bæklingur um kynjajafnrétti í tölum sem fróðlegt er að skoða. Stjórnendur Tryggingastofnunar heimsóttu Jafnréttisstofu og voru ýmis mál rædd sem snerta kynjasjónarmið og snúa að tryggingakerfinu. Það er t.d. áberandi hve miklu fleiri konur eru öryrkjar en karlar og þyrfti að rannsaka það mál betur. Undirrituð sótti svo ráðstefnu í Brussel þar sem farið var yfir stöðu kynjajafnréttis í álfunni og mikil vinna lögð í að setja fram tillögur um þau málefni sem brýnast væri að taka á. 

Það var ekki bara á Íslandi sem haldið var upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna heldur lögðu nokkur sendiráð sitt af mörkum. Undirrituð tók þátt í norrænum fundi í Berlín þar sem aðstæður kynjanna á vinnumarkaði voru bornar saman. Atvinnuþátttaka kvenna í Þýskalandi er mun minni en tíðkast á Norðurlöndunum enda mikill skortur á leikskólum og tregða við að byggja upp þjónustu við fjölskyldurnar. Þýskaland er þó í 11. sæti á lista World Economic Forum yfir kynjajafnrétti í heiminum. Aðgerðahópur um launajafnrétti kynjanna hélt fund um starfsframa og laun og undir lok mánaðarins hélt Jafnréttisstofa ráðstefnu  um fjölbreytta forystu þar sem m.a. voru kynntar rannsóknir á áhrifum kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Undir lok mánaðarins var svo haldin ráðstefna á Akureyri í samvinnu HA og Jafnréttisstofu um heilbrigði kvenna í 100 ár. 

Júní var svo mánuður hinna stóru hátíðarhalda. Í byrjun mánaðarins fór undirrituð til London þar sem íslenska sendiráðið stóð fyrir fundi í tilefni af 100 ára afmælinu. Þangað komu nokkrir breskir þingmenn og var gaman að horfa framan í þá þegar myndir birtust á skjánum um stöðu mála á Íslandi, svo sem að konur væru 40% þingmanna og 44% sveitastjórnarmanna. Staða kynjajafnréttis í Bretlandi mætti sannarlega vera betri en landið er í 18. sæti á lista World Economic Forum. Þann 18. júní var efnt til árlegrar kvennasögugöngu á Akureyri.

Kvenréttindadagurinn 19. júní rann upp bjartur og fagur. Víða um land var boðað til funda og hátíðarhalda. Alþingi hélt sérstakan hátíðarfund þar sem samþykkt var tillaga um stofnun jafnréttisjóðs sem styrkja á rannsóknir og ýmis verkefni sem stuðla munu að aukinni þekkingu eða aðgerðum til að jafna stöðu kynjanna. Framlag til hans verður 100 millj. kr. á ári í fimm ár. Stytta af Ingibjörgu H. Bjarnason, fyrstu þingkonunni (1922-1930) var afhjúpuð og síðan var mikil dagskrá á Austurvelli. Meðal ræðumanna var frú Vigdís Finnbogadóttir sem sýndi enn og sannaði hve stórt rúm hún á í hjörtum landsmanna en það var ekki síst skörugleg ræða Fríðu Rósar Valdimarsdóttur formanns Kvenréttindafélags Íslands sem vakti athygli. Hún fór yfir stöðu mála og hverju þyrfti að breyta og lagði mikla áherslu á ofbeldi gegn konum og hatursorðræðu sem höfðu verið mikið til umræðu frá því snemma á árinu. Í sömu viku var tilkynnt að forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefði tekið að sér ásamt 9 öðrum þjóðarleiðtogum að leiða verkefni fyrir UN Women í átakinu HeForShe. Á Akureyri tók Jafnréttisstofa þátt í Vísindaskóla barnanna og tók á móti nokkrum hópum barna sem höfðu ýmislegt til málanna að leggja. 

Sumarið var tíðindalítið en í byrjun september var boðað til ráðstefnu um Konur, fíkn, áföll og meðferð og vakti hún verulega athygli. Því miður eru Íslendingar langt á eftir þegar kemur að meðferðarmálum út frá kynjasjónarhorni, t.d.. hefur ekki verið horft nægjanlega til áhrifa ofbeldis á konur og líðan þeirra bæði andlega og líkamlega. Um miðjan mánuðinn hélt Jafnréttisstofa upp á 15 ára afmæli sitt með málþingi þar sem karlar fengu orðið undir yfirskriftinni Íslenskum karlmönnum vefst ekki tunga um tönn. Haldin voru bráðskemmtileg og vekjandi erindi enda hafa karlar að sjálfsögðu margt að segja um kynjajafnréttið. 

Í byrjun október var haldinn árlegur fundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga á Egilsstöðum og fjallaði hann um skyldur sveitarfélaganna og stöðu mála hjá þeim. Sömu daga fór undirrituð á fund í Seattle á vegum Íslensk-Ameríska verslunarráðsins þar sem fjallað var um stöðu jafnréttismála á Íslandi í samanburði við Bandaríkin (USA er í 28. sæti á lista WEF). Á jafnréttistorgi í HA kynnti Sigrún Stefánsdóttir bókina Frú ráðherra og Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi ráðherra sagði frá reynslu sinni. Næst var röðin komin að 40 ára afmæli kvennafrídagsins. Á Akureyri var ákveðið að heiðra minningu Vilhelmínu Lever sem fyrst kvenna kaus í almennum kosningum 1863. Minningarskjöldur var settur á húsið þar sem hún kaus og síðan var dagskrá þar sem kvennafrídagsins var minnst. Að þessu sinni var ekki haldinn útifundur í Reykjavík heldur var efnt til alþjóðlegrar ráðstefnu í Hörpu um borgaraleg réttindi kvenna. Þetta var stórmerkileg ráðstefna þar sem mörg frábær erindi voru flutt. Til umræðu voru m.a. lýðræði á Norðurlöndum í 100 ár, sagan og þróun kvenréttinda, líkaminn, vaxandi hatursorðræða og aðgerðir gegn henni, efnahagsleg staða kvenna og næstu skref í baráttunni.
Sérstök hátíðarmálstofa var haldin til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur en með henni voru þær Gro Harlem Brundtland fyrrverandi forsætisráðherra Noregs og Laura Ann Liswood framkvæmdastjóri Council of Women World Leaders. Í hádeginu seinni daginn var efnt til gjörningsins Birtu þar sem sjónum var beint að ofbeldi gegn konum. Vitnað var til lýsinga kvenna á ofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir og ljós kveikt, eitt og eitt til að lýsa upp umræðuna eða gefa von, allt eftir því hvernig við viljum túlka aðgerðina. Þetta var mjög áhrifarík athöfn sem fékk gríðarlega góð viðbrögð ráðstefnugesta. Á jafnréttistorgi í HA flutti Ingibjörg Þórðardóttir félagsráðgjafi erindi umbirtingarmyndir ofbeldis byggt á frásögnum gerenda. 

Nóvember gekk í garð og enn var ekkert lát á viðburðum. Félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttir undirritaði reglugerð um einelti og áreitni sem lengi hefur verið beðið eftir. Haldin var ráðstefna í Háskóla Íslands um bókina Frú ráðherra en hún kom út 19. júní og er eftir þær Eddu Jónsdóttur og Sigrúnu Stefánsdóttur. Í henni er að finna viðtöl við allar þær konur sem gegnt hafa ráðherraembætti á Íslandi nema eina, Auði Auðuns, sem er látin. Árleg skýrsla World Economic Forum kom út og sjöunda árið í röð var Ísland í efsta sæti listans. Við upphaf alþjóðlegs átaks gegn kynbundnu ofbeldi 25. nóvember var haldið jafnréttisþing. Þar var sjónum beint að kynjuðum birtingarmyndum, m.a. í hatursorðræðu sem og í kvikmyndum, og fjölmiðlum. Í lok ráðstefnunnar veitti Jafnréttisráð í fyrsta sinn sérstaka  fjölmiðlaviðurkenningu í nokkrum flokkum. Ekki veitir af að veita fjölmiðlum aðhald en glæný könnun, sem kynnt var á jafnréttisþinginu, sýnir að hlutur kvenna hefur ekkert aukist frá því um síðustu aldamót. Það þarf heldur betur að taka til í fjölmiðlaheiminum. Í tilefni jafnréttisþingsins lagði félags- og húsnæðismálaráðherra fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála sem er fróðleg lesning.

Undir lok mánaðarins var haldinn fjölsóttur fundur á Húsavík í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Það var verkalýðsfélagið Framsýn sem stóð að fundinum í samvinnu við Jafnréttisstofu. Þá má geta þess að undirrituð tók þátt í málstofu á sjávarútvegsráðstefnunni stóru 19.-20. nóv. og var það í fyrsta sinn sem sérstök málstofa var haldin um stöðu kynjanna í sjávarútvegi. Það er ljóst að mjög hallar á konur í þessari mikilvægu atvinnugrein og vill fólk gjarnan finna leiðir til að fá fleiri konur inn í greinina. 

Þá rann upp síðasti mánuður ársins með sína djúpu lægð og óveður sem gekk yfir landið. Á Akureyri boðaði Jafnréttisstofa til málþings ásamt Aflinu – sem eru samtök gegn kynferðisofbeldi. Málþingið var hluti af 16 daga átakinu gegn kynbundnu ofbeldi. Til umræðu var ofbeldið á landsbyggðunum. Þetta var afar merkilegt málþing þar sem margt kom fram sem bæta þarf. Það er ljóst að ofbeldismál sem tengjast nánum samböndum og börnum skila sér ekki, hvorki til lögreglu né félagsmálayfirvalda. Smæð samfélaganna og nándin eru erfið við að eiga og því brýnt að minna fólk á að það er borgaraleg skylda að tilkynna um slæmar aðstæður barna. Bæta þarf þjónustu við brotaþola, t.d. á FSA og endurreisa neyðarmóttökuna sem og að efla samvinnu þeirra aðila sem koma að málum. Undir lok þings leiddi Alþingi kynjaða fjárlagagerð í lög og lögð var fram ítarleg skýrsla um stöðu kvenna á vinnumarkaði.

Hér hefur verið stiklað á stóru á viðburðaríku ári. Fyrir utan það sem hér hefur verið nefnt var fjöldi listsýninga, t.d. á verkum Nínu Tryggvadóttur og Nínu Sæmundsen. Bæði Þjóðminjasafnið og Þjóðarbókhlaðan efndu til sögusýninga og þannig mætti áfram telja upp viðburði um allt land. Heimildarmyndin Hvað er svona merkilegt við það? Mynd um kvennaframboð, kvennalista o.fl. var tekin til sýninga og ekki má gleyma hlut RÚV sem m.a. sýndi 52 stuttar heimildarmyndir um konur, efndi til umræðu- og viðtalsþátta, tónlistarþátta og sjónvarpaði frá samkomunni í Reykjavík 19. júní. Það sem bar þó hæst á árinu og verður sennilega lengst í minnum haft er uppreisn ungu kvennanna á samfélagsmiðlunum og víðar. Í mars spratt upp hreyfingin Free the nipple (frelsum brjóstvörturnar) þar sem ungar konur dreifðu myndum af brjóstum sínum til að undirstrika að þær eiga sinn líkama sjálfar og þeirra er að stjórna því hvernig með hann er farið. Aðgerðin vakti heimsathygli og er engan veginn lokið. Skömmu síðar hófst mikil umræða á Beauty Tips um kynferðisofbeldi gegn (ungum) konum þar sem hundruð kvenna sögðu sögu sína. Umræðan varpaði ljósti á hve skelfilega útbreitt kynferðisofbeldi er og hve alvarlegar afleiðingar það hefur fyrir brotaþola. Það er eitt brýnasta mál samtímans að kveða niður ofbeldis(ó)menninguna. Undir lok árs setti innanríkisráðherra á fót nefnd sem á að koma með tillögur um aðgerðir hvað varðar málsmeðferð kynferðisbrotamála o.fl. því tengt en á árinu var efnt til harðra mótmæla vegna linkindar í nauðgunarmálum. Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu. 

Það er því af nógu að taka þegar kemur að jafnrétti kynjanna og nauðsynlegum aðgerðum til að jafna stöðuna og verða enn betri á þessu sviði á árinu 2016. 

Á Jafnréttisstofu sinntum við okkar daglegu störfum, kölluðum inn jafnréttisáætlanir fyrirtækja og skóla, svöruðum ótal fyrirspurnum, aðstoðuðum einstaklinga í alls konar málum, héldum fjölda námskeiða og málþinga, tókum á móti erlendum gestum og þannig mætti áfram telja. Um leið og ég óska landsmönnum gleðilegs jafnréttisárs 2016 þakka ég starfsfólki Jafnréttisstofu fyrir vel unnin störf og viðburðaríkt ár.