Hvaða áhrif hefur kreppan á konur og karla á vinnumarkaði?

Katrín Ólafsdóttir skrifar

Hvaða áhrif hefur kreppan á konur og karla á vinnumarkaði?

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að Ísland og reyndar heimsbyggðin öll gengur nú í gegnum djúpa efnahagslægð. Atvinnuleysi hefur aukist til muna í allflestum ríkjum og margar fjölskyldur glíma við erfiðan skuldavanda.

Í niðursveiflu standa þeir höllustum fæti á vinnumarkaði sem minnsta menntun hafa. Niðursveiflan sem nú er við að glíma hefur lent illa á einstökum þjóðfélagshópum. Hún hefur lent illa á bankafólki, aðallega
karlmönnum með háskólagráðu. Annar hópur sem lent hefur illa í kreppunni er starfsfólk í
byggingariðnaði, en starfsfólk í þeim geira er að stórum hluta karlmenn með iðnmenntun. Í
þessari grein ætla ég að velta fyrir mér hvort kreppan hafi mismunandi áhrif á konur og karla
á vinnumarkaði.

Hvað gerist í niðursveiflu?


Í niðursveiflu koma áhrif á vinnumarkaði aðallega fram í auknu atvinnuleysi og styttri
vinnutíma, en einnig í minnkandi atvinnuþátttöku. Ef eitthvað má læra af fyrri kreppum, þá
má búast við því að atvinnuleysi haldi áfram að aukast og muni ekki minnka fyrr en nokkru
eftir að hagvaxtar tekur að gæta. Í meðalkreppu eykst atvinnuleysi í næstum 5 ár (Reinhart &
Rogoff, 2009).

Reynslan kennir okkur að þegar kemur að launum þá lendir niðursveifla verst á þeim sem eru
með lægstu launin. Þar sem konur eru í meirihluta í þeim störfum sem lægst eru launuð þá
koma þessi áhrif meira við konur en karla. Þegar kemur að atvinnu eru karlmenn aftur á móti
líklegri til að missa vinnuna í niðursveiflu en konur. Karlmenn eru líklegri til að vinna í
atvinnugreinum sem eru viðkvæmar fyrir hagsveiflum eins og til dæmis byggingargeiranum á
meðan konur eru líklegri til að vinna í atvinnugreinum eins og þjónustu sem eru síður
viðkvæmar fyrir hagsveiflum.

Frá júlí 2008 til nóvember 2009 jókst atvinnuleysi til muna hér á landi, en atvinnuleysi meðal
karla jókst meira en atvinnuleysi meðal kvenna, þó heldur hafi dregið saman allra síðustu
mánuði. Sjá má þróun atvinnuleysis að undanförnu á meðfylgjandi mynd. Sömu þróun má sjá
í öðrum ríkjum. Í Bandaríkjunum töpuðust 2,400 milljón störf frá nóvember 2007 til
nóvember 2008. Fjögur af hverjum fimm þessara starfa voru í höndum karla en aðeins eitt af
hverjum fimm í höndum kvenna. Áhrif kreppunnar virðast því lenda verr á karlmönnum en
konum enn sem komið er.

                Atvinnuleysi karla og kvenna á Íslandi 
                            Hlutfall af mannafla


Hvers vegna kreppa á fjármálamarkaði?

Áður en kreppan skall á ríkti góðæri í flestum ríkjum heims. Raunvirði fasteigna hækkaði til
muna í flestum aðildarríkjum OECD og húsbyggingum fjölgaði. Aukið frjálsræði á
fjármálamörkuðum, lágir vextir og hröð þróun nýjunga á fjármálamarkaði leiddi til þess að
útlán fjármálastofnana jukust hraðar en vöxtur landsframleiðslu. Fjármálageirinn fékk á sig
nokkur áföll á síðustu áratugum og má þar nefna fjármálakreppuna í Austur-Asíu, 2000-
vandann, netbóluna, hryðjuverkin í Bandaríkjunum 2001 og kreppuna á Norðurlöndum. Þó
áhrifa þessara atburða gætti í fjármálakerfinu, þá jafnaði það sig fljótt á þeim og trú aðila á
markaði á að þeim væru allir vegir færir jókst til muna. Þetta varð til þess að starfsmenn
fjármálafyrirtækja töldu áhættu á markaði minni en áður og lögðu því ekki sömu áherslu á
örugg veð og tóku meiri áhættu í lánveitingum á fjármálamörkuðum sem og öðrum
mörkuðum (Elmeskov, 2009).

Orsök fjármálakreppunnar má því að hluta til finna í því að starfsfólk í fjármálageiranum
leiddist út í að taka of mikla áhættu sem ekki stóðst þegar upp var staðið. Af þeim sökum er
þessi niðursveifla ólík fyrri niðursveiflum þar sem ófaglært fólk fór verst út úr kreppunni. Í
þessari kreppu eru það einstakar atvinnugreinar sem verða helst fyrir barðinu, sérstaklega
fjármálageirinn og byggingageirinn. Fyrstu áhrif kreppunnar eru því ekki almennt áfall á
hagkerfið í heild heldur aukið atvinnuleysi meðal bankafólks og byggingarverkamanna og
iðnaðarmanna. Í báðum þessum geirum eru karlmenn í meirihluta og því eru fyrstu áhrif
kreppunnar þau að atvinnuleysi meðal karla eykst meira en atvinnuleysi meðal kvenna.

Hagfræðingar hafa á undanförnum árum rannsakað áhættuhegðun fólks, ekki síst í
fjármálageiranum. Þessar rannsóknir eru nokkuð samhljóma um að sýna marktækan mun á
milli kynjanna. Þegar konum og körlum er gefið val um hvort þau vilji fá greitt fyrir hvert
unnið verk eða fá greitt samkvæmt frammistöðu, þ.e. sá besti fær mest og hinir minna, þá
velja tvöfalt fleiri karlar en konur að fá greitt eftir frammistöðu (Niederle & Vesterlund,
2007). Þegar gefið er slíkt val um greiðslumáta kemur í ljós að þegar greitt er samkvæmt
frammistöðu og sá besti fær greiðslu en aðrir ekki, þá standa karlmenn sig almennt betur en
konur. Þegar greiðslum er dreift jafnar meðal starfsfólks, þá mælist enginn munur á
frammistöðu karla og kvenna (Vandegrift & Yavas, 2008). Bæði kynin hafa sýnt að þau eiga
það til að hafa ofurtrú á sjálfu sér, en karlmenn gera það oftar en konur (Lundeberg, Fox &
Puncchohar, 1994).

Í þeim rannsóknum sem snúa að starfsfólki í fjármálageiranum kemur í ljós að fjárfestar sem
hafa ofurtrú á sjálfum sér eiga oftar í viðskiptum en þeir sem eru rökréttari í hugsun (Odean,
1998) og karlar eiga oftar í verðbréfaviðskiptum en konur (Barber & Odean, 2001). Þá hafa
rannsóknir sýnt að kvenstjórnendur taka minni áhættu og þeirra fjárfestingar eru áhættuminni
en karlkyns kollega þeirra (Niessen & Ruenzi, 2007).

Mikil gróska var á fjármálamarkaði síðustu árin fyrir hrun, fjármálafyrirtæki kepptust um að
bjóða nýja þjónustu, vextir voru lágir og starfsmenn fjármálageirans voru tilbúnir að taka
áhættu. Ofan á þetta bættist að launakerfi starfsmanna miðaði oft að því að bjóða
aukagreiðslur fyrir að taka áhættu sem jók enn frekar á áhættusækni starfsmanna
fjármálageirans.

Hvað gerist næst?


Í kjölfar vandamála á fjármálamörkuðum hafa margar þjóðir þurft að grípa til umsvifamikilla
aðgerða til að bjarga fjármálastofnunum. Því hafa ríkisstjórnir margra ríkja þurft að ráðast í
miklar lántökur sem leitt hafa til þess að skuldir hins opinbera hafa aukist til muna. Ísland er
hér engin undantekning. Skuldir íslenska ríkisins hafa vaxið úr 28% af landsframleiðslu í lok
árs 2007 en áætlað er að þær hafi farið í 110% af landsframleiðslu í árslok 2009.
Þó karlar í einstökum atvinnugreinum hafi misst vinnuna í upphafi kreppunnar má búast við
því að við sjáum fljótlega næstu áhrif kreppunnar á vinnumarkað þegar ríki heimsins, þar á
meðal Ísland, þurfa að draga úr ríkisútgjöldum til að mæta auknum skuldum ríkisins.
Meirihluti ríkisstarfsmanna á Íslandi sem og í flestum öðrum ríkjum eru konur og því má
búast við auknu atvinnuleysi meðal kvenna á næstu 1-2 árum.Katrín Ólafsdóttir, PhD, lektor
Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík

Greinin birtist fyrr á þessu ári í Tímariti HR
Heimildir
Barber. B., & Odean, T. (2001). Boys will be boys: Gender, overconfidence and common
stock investment. Quarterly Journal of Economics, 116, 261-292.
Elmeskov, J. (2009). The General Economic Background to the Crisis, OECD, Sótt 28. júní
2009 af http://www.oecd.org/dataoecd/59/49/42843570.pdf.
Lundeberg, M., Fox, P., & Puncchohar, J. (1994). Highly confident but wrong: Gender
differences and similarities in confidence judgements. Journal of Educational Psychology,
86, 114-121.
Niederle, M., & Vesterlund, L. (2007). Do women shy away from competition? Do men
compete too much? Quarterly Journal of Economics, 122, 1067-1101.
Niessen, A., & Ruenzi, S. (2007). Sex matters: Gender Differences in a Professional Setting.
Centre for Financial Research, CFI-working paper no. 06-01.
Odean, T. (1998). Volume, volatility, price and profit when all traders are above average.
Journal of Finance, 53, 1887-1934.
Reinhart, C., & Rogoff, K. (2009). The Aftermath of Financial Crises. NBER Working Paper
Series, w14656.
Vandegrift, D., & Yavas, A. (2009). Men, Women, and Competition: An Experimental Test
of Behavior. Journal of Economic Behavior and Organization Volume 72, Issue 1, 554-
570.