Jafnréttismál á formennskuári Íslands 2014

Bryndís Valdemarsdóttir skrifar

Jafnréttismál á formennskuári Íslands 2014

Norræna ráðherranefndin var stofnuð árið 1971 og er þrátt fyrir nafnið ekki ein nefnd, heldur margar. Ein þeirra er Norræna ráðherranefndin um jafnréttismál (MR-JÄM), sem hefur starfað frá árinu 1974. Á liðnu ári var því sérstaklega haldið uppá 40 ára afmæli Norræns samstarfs um jafnréttismál á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar.

Frá upphafi hefur jafn réttur og jöfn staða kvenna og karla á vinnumarkaði verið áberandi í samstarfinu. Sjónum hefur verð beint að jafnrétti til launa, kynskiptum vinnumarkaði, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og nú síðast ólíkum afleiðingum hlutastarfa fyrir konur og karla á vinnumarkaði. Einnig má nefna ýmis samstarfsverkefni sem snúa að jafnréttislöggjöfinni, ólíkum birtingarmyndum kynja í fjölmiðlum, fæðingar- og foreldraorlofi, efnahagslegum og pólitískum völdum kvenna og baráttu  gegn kynbundnu ofbeldi, vændi og mansali. Síðustu ár hefur einnig verið lögð sérstök áhersla á mikilvægi þátttöku karla í umræðunni um jafnréttismál.

Síðastliðin ár hefur samstarfið jafnan tekið mið af áherslum sem settar eru í framkvæmdaáætlun, sem síðustu fjögur ár hefur haft yfirskriftina Jafnrétti skapar sjálfbært samfélag. Á árinu 2014 féll það svo í hlut Íslands að leiða vinnu við framkvæmdaáætlun fyrir næstu fjögur ár, sem mun gilda frá 2015-2019. 

Í þessari samantekt verður stuttlega fjallað um viðburði á sviði jafnréttismála sem sem fóru fram og skipulagðir voru í tengslum við formennskuár Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Flestir viðburðir voru skipulagðir að hluta eða öllu leyti af velferðaráðuneytinu og Jafnréttisstofu.

HVER GERIR HVAÐ? RÁÐSTEFNA UM JAFNRÉTTI Á VINNUMARKAÐI OG MÁLÞING UM KYN, PÓLITÍK OG JAFNRÉTTI

Þann 27. og 28. maí  stóð Jafnréttisstofa í samstarfi við velferðarráðuneytið, Vinnumálaráðið í Færeyjum og Norrænu ráðherranefndina fyrir tveggja daga viðburði í Færeyjum. Annars vegar ráðstefnu og hins vegar málþingi þar sem fjallað var um jafnrétti á vinnumarkaði.

Fyrri daginn opnuðu þau Johan Dahl ráðherra jafnréttismála í Færeyjum og Ewa Björling þáverandi viðskiptaráðherra í Svíþjóð og samstarfsráðherra Norðurlandanna ráðstefnuna. Í kjölfarið fylgdu níu erindi frá sérfræðingum með áherslu fjögur þemu; hlutastörf og kynskiptan vinnumarkað, vinnumarkað í jaðarbyggðum, karlmenn og fæðingarorlof og samræming fjölskyldu og atvinnu. Ráðstefnuna sóttu um 70 manns og skapaðist þar lifandi og afar gagnleg umræða.

Daginn eftir, þann 28. maí, var haldið málþing um konur í stjórnmálum með þátttöku stjórnmálakvenna í Færeyjum og á Íslandi. Þar héldu lykilerindi þær Eirinn Larsen sagnfræðingur frá Noregi, Auður Styrkársdóttir forstöðukona Kvennasögusafnsins á Íslandi og Karin Kjölbro fyrrverandi stjórnmálakona í Færeyjum. 

Eins og áður sagði halda Norðurlöndin nú upp á að um 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt til þjóðþinga. Áherslur fyrirlesara voru því, meðal annars, lagðar á jafnréttisbaráttuna á Norðurlöndunum síðastliðin rúm 100 ár. Spurt var hverju baráttan hefur skilað og hverjar hinar pólitísku áherslur þurfi að vera í framtíðinni til að hægt sé að ná meiri og betri árangri. Í kjölfar erinda voru líflegar pallborðsumræður um stöðuna og framtíðaráherslur í jafnréttisbaráttunni. Unnur Brá Konráðsdóttir þingkona tók þátt í pallborði fyrir hönd Íslands. Málþingið vakti mikla athygli í Færeyjum og fékk mikla umfjöllun í fjölmiðlum.


RÁÐSTEFNA UM KARLA OG KARLMENNSKURANNSÓKNIR

Dagana 4.-6. júní fór fram alþjóðleg ráðstefna um karla og karlmennskurannsóknir, Emerging ideas in masculinity research – Masculinity studies in the North. Ráðstefnan, sem haldin var í Háskóla Íslands, er þriðja ráðstefnan sem haldin er í norrænu samstarfi um karla og karlmennskurannsóknir. Ráðstefnan var skipulögð af af NFMM - Norrænu netverki um karlarannsóknir og Jafnréttisstofu í samstarfi við RIKK - Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands og MARK - Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna. Þátttakendur voru alls 220, frá fjórum heimsálfum. Flutt voru 150 erindi í 35 málstofum um ýmis ólík svið rannsókna, allt frá áhrifum kyns í poppmenningu og umönnun, til ofbeldisorðræðu og þátttöku karla í jafnréttismálum.

Lykilfyrirlesarar voru tveir helstu sérfræðingar heims á sviði karla og karlmennskurannsókna, þau Dr. Raewyn Connell og Dr. Michael Kimmel. Raewyn Connell sem er prófessor við Háskólann í Sydney í Ástralíu fjallaði um þróun rannsókna og ræddi framtíð fagsins í ljósi útbreiðslu þekkingar á tímum hnattvæðingar. Connell er ein fremsta fræðikona innan félagsvísinda í Ástralíu og hefur verið áhrifamikil við mótun kynjafræðinnar. Bandaríski félagsfræðingurinn prófessor Michael Kimmel er stofnandi og ritstjóri tímaritsins Men and Masculinities og höfundur fjölda bóka á sviðum karla- og karlmennskurannsókna. Kimmel hefur verið afar vinsæll fyrirlesari síðari ár vegna rannsókna á tengslum hatursorðræðu og kvenfyrirlitningar. Í erindi sínu sagði hann meðal annars frá rannsóknum  á viðhorfum bandarískra og skandínavískra karla sem aðhyllast stjórnmálaskoðanir sem í stjórnmála- og félagsfærði teljast öfgafullar.


AFMÆLISRÁÐSTEFNA: NORRÆNT SAMSTARF UM JAFNRÉTTI Í 40 ÁR

Þann 26. ágúst stóð velferðarráðuneytið, í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina, fyrir hátíðarráðstefnu í Hörpu í tilefni af 40 ára afmæli norræns samstarfs á sviði jafnréttismála. Dagskráin var fjölbreytt en boðið var upp á tónlistarflutning, myndbandssýningu, hátíðarræður, fyrirlestra og pallborðsumræður ungmenna, stjórnmálamanna og sérfræðinga. Einkum var lögð áhersla á jafnrétti á vinnumarkaði, menntun, og þátttöku karla og drengja í jafnréttisstarfi. Þá var staða lýðræðis með hliðsjón af stjórnmálaþátttöku kvenna sérstaklega rædd í tilefni þess að um þessar mundir eru liðin um 100 ár frá því að konur fengu að ganga að kjörborði og kjósa til þings í flestum landanna.

Meðal þeirra sem héldu ávörp á ráðstefnunni voru Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands og  Margot Wallström sem nú er utanríkisráðherra Svíþjóðar. Vigdís lagði sérstaka áherslu á nauðsyn þess að fá karla með í jafnréttisbaráttuna sem væri ekkert síður þeirra mál. Margot Wallström lagði áherslu á þann innblástur sem Norðurlöndin geta veitt öðrum ríkjum í jafnréttisbaráttu þeirra. Það setti skemmtilegan svip á ráðstefnuna að heyra ungmenni frá Norðurlöndunum miðla því sem þau töldu brýnast á sviði jafnréttismála í pallborði um verkefni framtíðarinnar. Þau sögðu frá áhyggjum sínum og sérstaklega þótti þeim vanta upp á kynjafræðikennslu í skólum til að vinna gegn neikvæðum staðalímyndum. Þá vildu þau, í umræðu um kynskiptan vinnumarkað, að störf og starfsstéttir væru í auknu mæli opin báðum kynjum. 

Ráðstefnan var vel sótt af fólki frá öllum Norðurlöndunum og niðurstaðan sú að löndin hafa miklu að miðla á sviði jafnréttismála og sú þekking getur nýst í baráttunni fyrir auknu frelsi og mannréttindum um heim allan.


ZERO TOLERANCE: MÁLÞING UM AÐGERÐIR GEGN KYNBUNDNU OFBELDI

Þann 25. september stóð Jafnréttisstofa ásamt innanríkisráðuneytinu, velferðarráðuneytinu og Norrænu ráðherranefndinni fyrir málþingi um aðgerðir gegn kynbundu ofbeldi. Málþingið bar yfirskriftina Zero Tolerance með tilvísun í áherslur Norrænu ráðherranefndarinnar á sviðinu. Alls sóttu málþingið um 100 manns frá átta löndum.

Á málþinginu héldu níu sérfræðingar erindi. Rauði þráðurinn var Istanbúlsamningur Evrópuráðsins og umræða um þær skyldur sem honum fylgja í baráttu þjóða gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi. Portúgalski þingmaðurinn José Mendes Bota kynnti samninginn en hann leiddi samningagerðina á sínum tíma. Carin Götblad fyrrverandi lögreglustjóri í Svíþjóð kynnti niðurstöður stórrar úttektar sem nýverið var gerð í Svíþjóð þar sem ofbeldi í nánum samböndum er kortlagt og leiðir til úrbóta lagðar fram. Helstu niðurstöður þeirrar úttektar leiða í ljós að kynbundið ofbeldi er umfangsmikið lýðheilsuvandamál. Á málþinginu var einnig kynning á niðurstöðum könnunar sem Mannréttindastofnun Evrópusambandsins gerði á kynbundnu ofbeldi meðal kvenna í 28 Evrópulöndum. Einnig kynntu ýmsir sérfræðingar á Norðurlöndunum þær aðferðir sem hafa gagnast vel í hverju landi fyrir sig annað hvort á landsvísu eða í sveitarfélögum.

Niðurstaða málþingsins var sú að kynbundið ofbeldi er kerfisbundið, útbreitt og á sér margar birtingarmyndir. Því er nauðsynlegt, þegar horft er til afleiðinga ofbeldisins og útbreiðslu að fjalla um það sem lýðheilsuvandamál. Til að ná árangri í vinnu gegn ofbeldi er því mikilvægt að ólíkar fagstéttir vinni saman, að vandinn sé greindur á fyrstu stigum og að aðgerðaráætlanir séu til staðar – og þær séu virkar. Til þess að fyrirbyggja vandann er síðan ekki síst þörf á aukinni þekkingu og fjármagni í jafnréttisfræðslu.

RÁÐSTEFNA UM KYNIN Á NORÐURSLÓÐUM - GENDER EQUALITY IN THE ARCTIC

Dagana 30. – 31. október fór fram tveggja daga alþjóðleg ráðstefna um kynjarannsóknir á Norðurslóðum. Ráðstefnan var haldin í Hofi á Akureyri og skipulögð af Jafnréttisstofu, utanríkisráðuneytinu, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Norðurslóðaneti Íslands. Fyrirlesarar komu frá ýmsum löndum og umfjöllunarefni voru fjölbreytt. Fjallað var um aðstæður kvenna og karla á norðurheimskautssvæðinu og athyglinni m.a. beint að aðgangi og yfirráðum auðlinda, þátttöku kynjanna í ákvarðanatöku og stjórnmálum, byggðaþróun, öryggi og almennri velferð. 

Tilgangurinn með ráðstefnunni var að stuðla að víðtækri, markvissri samræðu um jafnréttismál og beina sjónum að tengslum þeirra við áskoranir sem framtíðin kann að bera í skauti sér m.t.t. loftslags- og umhverfisbreytinga. Þá voru jafnréttismál sérstaklega sett í samhengi við efnahags- og félagslega þróun ríkja og samfélaga á norðurslóðum. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti opnunarávarp á ráðstefnunni og Tarja Halonen fyrrverandi forseti Finnlands var meðal þátttakenda. Ráðstefnuna sóttu um 140 manns frá fjölmörgum löndum.


JAFNRÉTTI Á VINNUMARKAÐI – HLUTASTÖRF OG KYNBUNDINN LAUNAMUNUR 

Í nóvember fóru fram tveir síðustu viðburðirnir sem tengdust jafnréttismálum á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Báðir fjölluðu um jafnrétti kynja á vinnumarkaði. Þann 12. nóvember var haldin ráðstefna í Reykjavík um hlutastörf og jafnrétti og daginn eftir, þann 13. nóvember, var ráðstefna um launajafnrétti.

NIKK, norrænt þekkingar- og upplýsingasetur um kyn, stóð fyrir ráðstefnu um hlutastörf þar sem ný skýrsla um áhrif og umfang hlutastarfa á Norðurlöndunum var kynnt. Vinna við norræna rannsóknarverkefnið Hlutastörf, kyn og og dreifing fjármagns (s. Deltid, kön och ekonomisk fördeling) hefur staðið síðastliðin tvö ár og lauk nú í lok árs 2014. Rannsókninni var skipt upp í tvo hluta. Í fyrri hlutanum var fjallað um áhrif hlutastarfa á afkomu með sérstaka áherslu á laun,  lífeyri og réttindi í almannatryggingakerfinu. Niðurstöður þess hluta voru kynntar á ráðstefnu í Stokkhólmi í Svíþjóð, á formennskuári Svía árið 2013. Á ráðstefnunni sem haldin var nú í ár kynntu norsku fræðikonurnar Cathrine Egeland og Ida Drange, frá rannsóknarstofnun vinnumarkaðar við Háskólann í Ósló, seinni rannsóknarskýrslu verkefnisins. Meirihluta ráðstefnunnar var síðan varið í vinnustofur þar sem lögð voru drög að frekari rannsóknum á sviðinu. Mikil ánægja var meðal þátttakenda sem fengu tækifæri til að koma ólíkum sjónarmiðum á framfæri.

Daginn eftir var ráðstefna um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði. Þátttakendur voru innlendir sem  erlendir sérfræðingar, aðilar vinnumarkaðar og samtök launafólks. Ráðstefnan var haldin að frumkvæði norræns samráðshóps um launjafnrétti og skipulögð af velferðaráðuneytinu. Eygló Harðardóttir opnaði ráðstefnuna og kynnti nýjan launastaðal og greindi frá samkeppni um jafnlaunamerki. Fjölmörg erindi voru flutt á ráðstefnunni. Dr. Daniela Bankier, deildarstjóri jafnréttismála hjá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, fjallaði um mikilvægi þess að fylgja eftir lagaákvæðum með hagnýtum aðgerðum og verkfærum. Bankier tengdi saman umræðuna um launamun við ráðstefnuna um hlutastörf og fjallaði um hinn kynskipta vinnumarkað. Til að vinna raunverulega sigra í baráttunni fyrir launajafnrétti sagði Bankier nauðsynlegt að dreifa ábyrgð og endurskoða virði starfa í samfélaginu. Í samantekt í lok ráðstefnudagsins var þess minnst að laun í opinbera geiranum hafa mikið að segja um laun kvenna og stórra kvennastétta. Þá var það ítrekað sem fram kom í erindum margra frummælenda, að viðurlög við launamisrétti þurfi að vera skýr. Jafnréttislög skal virða til jafns við önnur lög. 

Á formennskuárinu 2014 sóttu yfir 500 manns viðburði í tengslum við jafnréttissamstarf Norðurlandanna. Óhætt er að segja að árið hafi hafi verið bæði viðburðaríkt og fróðlegt. Jafnréttisstofa þakkar öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn kærlega fyrir samstarfið.