Jafnréttismál í sveitarfélögum

Tryggvi Hallgrímsson skrifar

Jafnréttismál í sveitarfélögum

Í febrúar 2008 voru samþykkt ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lög nr. 10/2008. Í lögum þessum kemur fram með skýrari hætti en áður að Jafnréttisstofu er falið að hafa eftirlit með framkvæmd laganna á sveitarstjórnarstigi.Í 12. grein nýju löggjafarinnar segir að jafnréttisnefndum sveitarfélaga sé skylt að afhenda Jafnréttisstofu skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála innan viðkomandi sveitarfélags.

Á undanförnum árum hefur Jafnréttisstofa gert kannanir á jafnréttisáætlunum sveitarfélaga, tilvist þeirra og inntaki. Einnig hefur Jafnréttisstofa frætt sveitarfélögin um skyldur þeirra samkvæmt jafnréttislögum og boðið til fræðslufunda fyrir nýskipaðar jafnréttisnefndir svo eitthvað sé nefnt.

Evrópusáttmáli um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum var kynntur á landsfundi jafnréttisnefnda sveitarfélaga sem fram fór 19. september 2008 í Mosfellsbæ. Nú þegar hafa Akureyri, Hafnarfjörður og Mosfellsbær undirritað sáttmálann og með því skuldbundið sig til þess að virða grundvallarregluna um jafnrétti kvenna og karla og innleiða þær skuldbindingar sem felast í sáttmálanum. Sáttmálinn getur reynst gagnlegt verkfæri til að vinna að jafnréttismálum innan sveitarfélaga og með því að undirrita hann eru þau orðin hluti af evrópsku tengslaneti og geta notið góðs af reynslu annarra evrópskra sveitarfélaga í jafnréttismálum. Samningurinn hefur náð mikilli útbreiðslu meðal sveitarfélaga í Evrópu og yfir 820 sveitarfélög og héruð hafa þegar undirritað hann.

Þó svo einungis þrjú sveitarfélög á Íslandi hafi staðfest sáttmálann, að sinni, ber öllum sveitarfélögum að virða Jafnréttislög og vinna markvisst að jafnréttismálum. Til þess að fylgjast með því að svo sé getur Jafnréttisstofa stuðst við, eins og áður sagði, ákvæði jafnréttislaga, en nú gefst Jafnréttisstofu einnig færi á að mæla stöðu jafnréttismála með mælitæki sem þróað hefur verið í tengslum við Evrópuverkefnið Tea for two. Verkefnið sem hafði það að markmiði að hanna matstæki til að mæla stöðu jafnréttismála í sveitarfélögum kallast á íslensku: Jafnréttisvogin.


Mæling á jafnrétti í sveitarfélögum – Tea for two – Jafnréttisvogin

Verkefnisstjórnun Tea for two Evrópuverkefnisins var í höndum Jafnréttisstofu en ráðgjöf, vinna við rannsóknir og gagnavinnsla í höndum RHA – Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri.
Stýrihópur þátttökulanda, frá Íslandi, Búlgaríu, Grikklandi, Noregi og Finnlandi, kom saman á fjórum fundum til þess að ákveða hvaða þættir væru best til þess fallnir að meta jafnrétti í sveitarfélögum. Afrakstur þeirrar vinnu er safn tuttugu og eins mælivísa sem löndin söfnuðu gögnum um. Gagnaöflun reyndist miserfið fyrir löndin fimm. Finnland og Noregur tóku þátt með þeim fyrirvara að gögnum yrði eingöngu skilað ef þau væru til fyrir öll sveitarfélög. Af þessum ástæðum skilaði Noregur gögnum um 15 mælivísa og Finnland skilaði gögnum um 13 mælivísa. Ísland safnaði bæði fyrirliggjandi opinberum gögnum, auk þess sem sendir voru spurningalistar þar sem sveitarfélög voru beðin um að skila inn upplýsingum.

Úrvinnsla gagna miðaði að því að veita sveitarfélögum einkunn fyrir stöðu þeirra í jafnréttismálum, miðað við önnur sveitarfélög. Því var lagt upp með að gera niðurstöður mælinga kunnar á heimasíðu verkefnisins, www.tft.gender.is. Þar geta sveitarfélög, með hjálp myndrænnar framsetningar á niðurstöðum, metið árangur sinn í jafnréttismálum.
Niðurstöður úr Jafnréttisvoginni vöktu nokkra athygli. Bestur árangur í jafnréttismálum náðist hjá sveitarfélögunum Akureyrarbæ, Húnaþingi vestra og í Stykkishólmsbæ. Lakastur var árangurinn hjá Arnarneshreppi, Grímseyjarhreppi og Eyja og Miklaholtshreppi.


Jafnrétti við ákvarðanatöku – Dæmi um mælivísa

Nokkrir mælivísa Jafnréttisvogarinnar miðuðu að því að meta jafnrétti við ákvarðanatöku. Gagnaöflun byggði á stöðu í kjölfar sveitastjórnakosninga árið 2006, og var gögnum safnað haustið 2007.
Hér verður ekki fjallað um aðferðafræðileg álitaefni tengd því að mæla jafnrétti. Því verða hér að lokum aðeins gefin þrjú dæmi um hagnýtingu mælitækisins sem var þróað var. Þ.e:

• Er æðsti stjórnandi í sveitarfélagi karl eða kona?
• Er oddviti í sveitarstjórn karl eða kona?
• Hlutfall kynja í sveitarstjórn?

.Mynd A: Er æðsti stjórnandi í sveitarfélagi karl eða kona?

Í 15 sveitarfélögum af 79 var sveitarstjóri, bæjarstjóri eða borgarstjóri kona. Þetta þýðir að æðsti stjórnandi í sveitarfélögum var í 19% tilvika kona. Á grundvelli þess mælitækis sem hannað var í tengslum við verkefnið var sveitarfélögum þar sem æðsti stjórnandi var kona gefin einkunnin 8,1 og sveitarfélögum þar sem æðsti stjórnandi var karl, gefin einkunnin 1,9.
Mynd B: • Er oddviti í sveitarstjórn karl eða kona?


Í 25 sveitarfélögum af 79 er oddviti í sveitarstjórn kona. Þetta þýðir að oddvitar eru í um 32% tilvika konur. Á grundvelli mælitækisins var sveitarfélögum þar sem oddviti var kona, gefin einkunnin 6,8 og sveitarfélögum þar sem oddviti var karl, gefin einkunnin 3,2.
Mynd C: Hlutfall kynja í sveitarstjórn?


Haustið 2007 voru konur um 36% sveitarstjórnarmanna. Í nokkrum tilvikum voru engar konur í sveitarstjórn og í sumum voru konur allt að 60%. Á grundvelli þess mælitækis sem hannað var í tengslum við Evrópuverkefnið Tea for two fengu sveitarfélög hærri einkunn eftir því sem þau voru nær jafnri kynjaskiptingu í sveitarstjórnum. Meðaleinkunn sveitarfélag var 6,7 og staðalfrávik 2,6.

Jafnréttisvoginni er ætlað að vera verkfæri til árangursmælingar sem nú hefur verið prófað einu sinni og verður þróað áfram. Áætlað er að nota valda mælivísa verkefnisins til þess að birta árlega niðurstöður um stöðu jafnréttismála hjá íslenskum sveitarfélögum.