Jafnréttisstofa á Nordisk Forum 2014

Jafnréttisstýra fjallar um norrænu kvenna- og jafnréttisráðstefnuna Nordisk ForumDagana 12.-15. júní var haldið gríðarlega umfangsmikið norrænt jafnréttisþing í Malmö í Svíþjóð. Dagskráin var mjög umfangsmikil og umræðuefnin margvísleg, allt frá listum og menningu til ofbeldis og styrjalda. Fókusinn var að miklu leyti á konum og þeirra stöðu en karlmennska, þátttaka karla í jafnréttisumræðunni, stríðsmenning o.fl. kom vissulega við sögu. Óvenju margir karlar tóku þátt í umræðum miðað við þær ráðstefnur sem undirrituð hefur setið og þær eru margar. 
Tólf meginþemu gengu í gegnum dagskrána í samræmi við þá yfirlýsingu sem samþykkt var í lokin. Þessi efni voru: Kynjuð hagstjórn, heilsa kvenna og réttur til kynheilbrigðis, konur á vinnumarkaði, ofbeldi gegn konum og stúlkubörnum, umhverfismál og sjálfbær þróun, umönnun og velferðarsamfélagið, friður og öryggi, stjórnmálaþátttaka og samfélagsþróun, kynjasamþætting á öllum sviðum, hælisleitendur og fólksflutningar, ný tækni og fjölmiðlar og loks framtíð femínismans á Norðurlöndum og hlutverk kvennahreyfinga. 


Jafnréttisstofa kom að þinginu með tvennum hætti. Annars vegar skipulögðum við fund um ofbeldi, áreitni og hatursorðræðu ásamt dönsku mannréttindastofnuninni (DIHR) og norsku jafnréttisstofnuninni (LDO). Hins vegar vorum við með kynningarbás í gríðarlega stórum sal þar sem fjöldi samtaka kynnti sig og sitt starf. 

Á fundinum sem haldinn var 12. Júní og fór að mestu leyti fram á ensku flutti Lopa Banerjee fulltrúi frá UN Women erindi um ofbeldi gegn konum og þær aðgerðir sem þyrfti að grípa til alþjóðlega til að draga úr því. Hún nefndi m.a. refsileysi þegar nauðganir eiga í hlut, ofbeldi á átakasvæðum og það hvernig ofbeldi dregur úr lífsgæðum og kemur í veg fyrir jafnrétti og jafna möguleika í lífinu. Ronald Craig frá LDO ræddi um hatursorðræðu og þá vinnu sem á að setja í gang í Noregi til að koma í veg fyrir þær hótanir og viðbjóð sem ausið er yfir fólk á samfélagsmiðlunum, sérstaklega fjölmiðlafólk og femínista. Á eftir honum kom norsk blaðakona Marie Simonsen sem sagði frá eigin reynslu en hún fékk m.a. senda exi frá óþekktum manni sem sagði að hún ætti að verja sig með henni þegar hann myndi ráðast á hana en hún myndir ekki sleppa lifandi frá honum. Þetta var mjög óhugnanleg frásögn. Næst kynti Susanne Nour Magnusson framkvæmdastýra dönsku mannréttindastofnunarinnar glænýja skýrslu um stöðuna í Danmörku með tilliti til samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi sem konur eru beittar. Danmörk er eina ríki Norðurlandanna sem búið er að fullgilda samninginn en hin löndin vinna að því. Síðast á dagskránni var svo kynning á verkefni sem unnið er á Jótlandi en þar hafa lögregla, félagsþjónusta og kvennaathvörf sameinast um að taka á ofbeldismálum með markvissum hætti. Lögreglan fylgist með ákveðnum heimilum með því að hringja og kanna ástandið og það hefur skilað árangri ekki síst þar sem börn eru til staðar. Þetta verkefni minnir mjög á Suðurnesjavaktina þar sem félagsmálayfirvöld, heilsugæsla og lögregla eru í góðu samstarfi við að kveða niður heimilisofbeldi.



Í lokin urðu svo umræður þar sem Eygló Harðardóttir ráðherra kvaddi sér hljóðs til að spyrja hvort einhvers staðar væru reglur eða aðgerðir sem skiluðu árangri í baráttu við hatursorðræðu og gætu nýst okkur hér á landi. Hún nefndi að miklar umræður hefðu orðið nýlega á Íslandi um hatursorðræðu sem hefðu tengst hennar flokki. Á eftir túlkuðu ýmsir orð hennar þannig að Framsóknarflokkurinn hefði orðið fyrir hatursorðræðu en það var ekki minn skilningur heldur að umræðan hefði verið í kringum flokkinn í kosningunum.

Fundurinn var afar vel sóttur og troðfullt út úr dyrum. 


Í kynningarbásnum sem öll Norðurlöndin stóðu að var að finna ýmis konar fræðsluefni, myndbönd, bæklinga og merki. Starfsmenn voru til staðar við að svara spurningum og dreifa efninu. Hér gefst ekki rúm til að segja frá öðru því sem til tíðinda bar á Nordisk forum, það bíður betri tíma.

Kristín Ástgeirsdóttir.